17.04.1950
Efri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

60. mál, notendasímar í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál. Ég var ekki á þeim nefndarfundi, þegar mál þetta var afgreitt, en síðan hefur dregizt að gera nál. um þetta, og er málið nú svo langt komið, að ekki er ástæða til þess. Nú hefur aðeins einn maður úr n. gert þetta álit, og málið hefur síðan verið lagt þannig fyrir, og hygg ég, að það sé einsdæmi. Ég hef ekki fylgzt nákvæmlega með þessari umræðum og veit því ekki nákvæmlega, hvað hefur fram komið. Mér hefur skilizt á hv. 1. þm. Eyf., að það mætti endurkjósa nm. og skipta þannig um menn í n., sem á að úthluta símanum, ef nm. reynast ekki hæfir eða ekki líkar við þá. Þetta er ekki hægt, og verður því ekki skipt um þá. Það eru einmitt formaður Stéttarsambands bænda og búnaðarmálastjóri, sem ætlað er að vera í þessari n., og maður getur auðveldlega séð það, að eftir því sem þeir fá meiri völd utan síns verkahrings, verður það til þess eins að leiða meiri og illvígari deilur inn í bændasamtökin, því að auðvitað vilja þá þeir, sem finnast þessir menn eða n. ekki hafa tekið nægilega mikið tillit til sinnar sveitar með úthlutun á símanum, hrinda þeim frá völdum og koma að öðrum, sem þeim eru hliðhollari. Svo get ég einnig búizt við, að ekki verði staðnæmzt hér, heldur verði þessari eða annarri n. faldar hinar ýmsu verklegu framkvæmdir, þannig t. d. að skipa fyrir, hvar skuli koma nýir vegir, brýr og bryggjur. En annars sýnist mér það hefði verið miklu hreinlegra, eins og hv. þm. Barð. benti á, að fela með þessu frv. miðstjórn Framsfl. að skipa símanum um sveitir landsins, því að það er opinberlega vitað, að bæði formaður stéttarsambandsins og búnaðarmálastjórinn eru í miðstjórn og annar þm. Framsfl. Um hjartalag símamálastjóra skal ég ekki dæma, (Dómsmrh.: Hann er yfirlýstur framsóknarmaður.) en mér finnst alls ekki rétt að gera þetta mál pólitískt. Mér sýnist ekki vera fráleitt að nefna hér í sambandi við þetta mál líkinguna, að þegar maður réttir skrattanum litla fingurinn, þá taki hann alla höndina. Hún á þó náttúrlega ekki bókstaflega við þessa ákveðnu menn, sem ráðgert er að sitji í þessari n. En á sínum tíma var þessum mönnum falið að skipta búvélunum, sem til landsins komu, og nú á að fela þeim að skipta símanum milli héraða og sveita, og þannig fá þeir alltaf meiri völd koll af kolli. Þetta er ekki sanngjarnt, og er ég alveg hissa á hv. 1. þm. N-M., að hann skuli vilja þessa ráðstöfun eða láta hafa sig út í að verja slíkt, eins gott og oftast er að vinna með honum í n. Hins vegar er 1. gr. frv. góð og mundi ég fylgja henni, ef ríkið er þess megnugt að binda 25 mill. kr. í 10 ár til þessara framkvæmda. Vildi ég því gjarnan heyra álit hæstv. fjmrh. um þetta, áður en við greiðum hér atkv. (Dómsrh.: Hvað er ráðgert nú á fjárlögum að verja miklu fé í þessu skyni? — GJ: 550 þús. kr.) Annars gæti kannske hæstv. landbrh. upplýst þetta. — Að öðru leyti vil ég taka það fram, að mér finnst gott og sjálfsagt, að settir séu upp notendasímar í sveitum landsins, en finnst alls ekki rétt, að það sé verið að draga pólitík inn í þetta, því að það gerir ekkert annað, en að draga úr framkvæmdum. Vona ég því, að þetta mál verði látið hafna á góðum og rólegum stað, en ekki skipuð þessi n., því að verði hún skipuð eins og gert er ráð fyrir í frv., er vægast sagt verið að reyna að sýna pólitískt ofbeldi.