27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

60. mál, notendasímar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Forseti. Hv. 1. þm: Eyf. (BSt) hefur nú tekið ýmislegt fram af því; sem ég vildi segja, en ég skal enn einu sinni sýna fram á það, hvílík fjarstæða það er hjá hv. þm. Barð., að till. mín um úthlutunarn. sé fram borin til að skapa betri pólitíska aðstöðu, með því að lýsa yfir því, að ég er reiðubúinn að taka tillögu mína aftur. Fyrir mér vakir ekkert annað, en málið sjálft, en slíkt sjónarmið þekkir ekki hv. þm. Barð., sem alltaf hugsar um pólitíska aðstöðu, og þess vegna gerir hann mönnum slíkar getsakir. Þessi hv. þm. þykist ævinlega allt vita hér á Alþingi. Hann þykist meira að segja vita, hvað aðrir þm. hugsa. Hann skoðar hjörtun og nýrun. Slíkt álit, hefur hann alltaf á sjálfum sér, og er það vissulega gott að hafa sjálfstraust, en allt er bezt í hófi; og ekki er ástæða til að ætla sér þá dul að vita hugsanir annarra manna. Það er ofmat, sem menn mega ekki leyfa sér, þótt gáfaðir séu. Ég hef aldrei sagt það, að hæstv. ríkisstj. styddi það að veita fé úr mótvirðissjóði — til notendasímanna, en ég hef sagt, að tveir hæstv. ráðh. væru því fylgjandi, og það þarf að ráðstafa jafnvirðissjóði og til þess þarf leyfi annarra þjóða, og ég er ekki í vafa um, að þeir, sem þar ráða, skilja þörfina í þessu efni betur en hv. þm. Barð. Þeir munu sjá, að sjóðnum verður ekki betur varið með öðru, en því að láta hann ganga til þess að koma upp notendasímum í sveitum. Það stendur sem sagt til að ráðstafa fé mótvirðissjóðs, og væntanlega fæst þá eitthvað til þessara framkvæmda, en þar fyrir er hægt að samþ. frv. eins og það er nú og senda það til Nd., því að meðan það er þar til meðferðar, verður sjóðnum ráðstafað og þá er frv. ekki lengra komið en svo, að hægt er að vitna í frv. um ráðstöfun sjóðsins eða setja á fjárlög þá upphæð, sem með þarf. En fyrir mér vakir fyrst og fremst, að lagningu notendasímanna verði lokið á næstu 10 árum, svo að sem fyrst hverfi hin leiðinlega togstreita, sem verið hefur í þessum efnum, og eigi þurfi að vera um að ræða margsvikin loforð eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna. Ég hef engu lofað og er ekki við neitt annað bundinn en sannfæringu mína, því að það er fjarri lagi, að þetta sé eitthvert pólitískt mál hjá mér. Þetta er þarft mál fyrir dreifbýlið og sérstaklega það, að fé það, sem ákveðið verður til þessa, komi með ákveðnu árabili, svo að eigi þurfi um það að vera í óvissu, því að búast má við, eins og kom fram í ræðu hv. þm: Barð., að allt verði skorið niður á fyrsta ári, eða, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) var með, að lagðir verði notendasímar í Reykjavík, áður en þeir verði lagðir um dreifbýlið, eins og áður hefur verið gert. Aðalatriðið fyrir mér er það, að þegar því verður slegið föstu, þá er sama, hver ræður, í hvaða röð símarnir séu lagðir inn á heimilin, og ef menn hafa svolitla glóru og vit í kollinum, að það verði gert á sem ódýrastan hátt, en eigi með því að peðra fénu og henda sínu í hverja áttina, þar sem hver otar sínum tota og allt verður því dýrara en ella. Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 11. landsk. þegar hann sagði, að ég vildi taka ráðherrann út úr starfinu. Annars vil ég taka brtt. mína aftur. Hef ég þó ekkert á móti því, að mennirnir séu ólaunaðir. Er þá hægt, þegar þeir eru úr hópi þingmanna, að þeir taki ákvarðanir sínar meðan þing stendur, en þó mega þeir ekki vanrækja þingfundi fyrir það. (BSt: Það er eigi ástæða til að deila þar á hv. þm. Barð. Hann sækir manna bezt fundi.) Ég hef m. ö. o. ekkert á móti þessu og skal þá taka till. mína aftur. Ég geri annars eigi ráð fyrir, að atkvgr. fari nú fram, en verði það úr, mun ég bera fram till. um, að þeir verði ólaunaðir. Vona ég þá, að hv. þm. Barð. sjái, að það er í samræmi við það, sem ég hef áður sagt. Ég tel, að í Nd. ætti að vera hægt að ákveða um nýja 4. gr., í meðferð þeirrar hv. d. á málinun þegar rætt verður um, hvernig l. um mótvirðissjóðinn verði breytt og hversu fénu skuli varið. Verður þá séð, hvernig fer, og vona ég, að allir flokkar verði með því, svo að inn komi nægilegt fé til að gera þetta verk á þeim tíma, sem um er rætt í frv., eins og það er nú, þótt það sé orðið úrelt. 2,5 millj. kr. nægja eigi. Nú mundi þurfa 2.8 millj. kr., ef efnið hækkar vegna gengislækkunarinnar, að óbreyttu verði erlendis, en það mætti þá líka laga það í hv. Nd., ef þeim sýnist svo. (ÞÞ: Við eigum ekki alltaf að reiða okkur á Nd.) Þar er eigi um það að ræða, hvort l. verði breytt. Þeim hlýtur að verða breytt. Það er talað um Sogsvirkjun og áburðarverksmiðju, Laxárvirkjunina, og alltaf er jafnvirðissjóðurinn nefndur í því sambandi. Yfirleitt er þar ætlazt til að lækka skyldur ríkissjóðs, hjálpa til við stórframkvæmdir og lagningu notendasímanna. Tel ég og varðandi hinn litla hluta, sem gengi til símanna, að mælast mundi bezt fyrir, að þeir yrðu lagðir um allt landið. Ég kann þó eigi að rannsaka hjörtu og nýru manna. Geri ég engum neinar getsakir. Af verkum manna á að þekkja þá, og það sýnir sig þá í hv. d., og það er mest um vert.