12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (3278)

61. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég er nú ekki svo næmur, að ég heyri ráðherrastólana svara, þó að ég vilji gera fyrirspurnir til hæstv. ráðherranna, þó að hæstv. forseti heyri þá veita leyfi til afbrigða frá þingsköpum. En ég vil benda n., sem fær þetta mál til meðferðar, á það, að fyrir ári síðan eða kringum það skilaði milliþn., sem ríkisstj. skipaði í skattamálum, till. um breyt. á skattal. Ég var ekki í n. og veit ekki vel um þetta nál., þó að ég hafi nú fylgzt dálítið með störfum þessarar n. En ég vil benda þeirri hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, á það, að ég hygg, að þessi milliþn. í skattamálum hafi verið sammála um að leggja til svipaðar breyt. á skattal. og þær, sem hér er farið fram á í frv., og að fulltrúar allra flokka, sem áttu menn í n., hafi verið sammála um þetta. Þess vegna vil ég mælast til þess, að áður en málið kemur aftur frá hv. n., sem ég geri ráð fyrir að verði fjhn., þá afli n. sér í fyrsta lagi vitneskju um það, hvort ríkisstj. hefur í hyggju að leggja þær breyt. fyrir Alþ., sem milliþn. lagði til á skattal. og eru miklu víðtækari en það, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., og í öðru lagi, hvort þessar brtt. eru ekki þar í og hvort fulltrúar allra flokka hafa ekki staðið saman um þessar brtt. í milliþn., sem ég hygg, að hafi verið.