08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (3439)

158. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram hér nýlega umr. um frv. til jarðræktarlaga. Ég hafði ekki tækifæri til að vera við þær umr. Í 17. gr. þess frv. er gert ráð fyrir skipun nýrrar n. til fjögurra ára í senn, sem nefnist vélanefnd ríkisins. Nú fæ ég ekki vel skilið hina beinu þörf á því að skipa þar sérstaka n. samkv. þeirri gr., en skipa svo allt aðra nefnd samkv. öðrum l. til þess að gera nokkurn veginn það sama starf og hér er tekið fram. Samkv. þeim l., sem nú gilda um þetta atriði, sem eru nr. 64 frá 1940, þá er ætlazt til þess, að þetta verkefni, sem á nú eftir frv., sem hér liggur fyrir, að afhendast nýrri n., sé framkvæmt við búnaðarskólann á Hvanneyri. Og mér er kunnugt um, að í sambandi við þetta eru haldin þar námskeið á hverju ári, til þess að kenna þar notkun þessara véla. En nú skilst mér, að það eigi að nema þessi ákvæði gildandi laga burt með því að fella niður 18. og 19. gr. í fyrrnefndum lögum. Og þetta á að takast af búnaðarskólanum á Hvanneyri, sem nú telst líklega ekki hæfur til að hafa þetta með höndum eins og gert er ráð fyrir í gildandi l. (PZ: Það stendur ekki í l., að búnaðarskólinn á Hvanneyri eigi að hafa þetta með höndum, heldur nefnd, en að tilraunirnar eigi að gerast á Hvanneyri.) Já, og eðlilegast er, að þetta ætti að gerast undir stjórn skólans eftir l. (PZ: Nei, ekki undir stjórn skólans.) — Nú vildi ég spyrja: Hver hefur verið kostnaður af þessari nefnd nú? Er hún launuð þessi nefnd eða ólaunuð? Og er ætlazt til þess, að þessi n., sem skipa á samkv. a-lið 2. tölul. 1. gr. frv., verði launuð eða ólaunuð? Eða á sú nefnd, sem skipa á samkv. 17. gr. jarðræktarl., að vera ólaunuð? Sannleikurinn er sá, að þetta er allt sama stofnunin, sem þessar nefndir eru í sambandi við, Búnaðarfélag Íslands. Og þegar viðurkennt er og vitað, að Búnaðarfélag Íslands er rekið á ríkisins kostnað og undir þess stjórn, þannig að samkv. áætlun fyrir 1949 þá eru ævitillög félagsmanna 1200 kr. í þá stofnun, sem tekur hins vegar rúma eina millj. kr. úr ríkissjóði, þá er vitað, að hér er í raun og veru ekki um neinn sérstakan félagsskap að ræða, heldur sérstaka stjórnardeild, sem rekin er hér. Þess vegna þykir mér ákaflega einkennilegt að ákveða í þessum l., að upp skuli settar nefndir, sem séu skipaðar af ráðuneytinu, en útnefndar af þessum aðila, Búnaðarfélaginu, sem raunverulega er ekki annað, en ein stjórnardeild í landinu. Það væri eins hægt að setja fyrirmæli um skipun einhverrar n., þar sem Gunnlaugur Briem sem skrifstofustjóri í atvmrn. ætti að útnefna menn í n. Sannleikurinn er, að þessi meðferð á landsmálum er orðin þannig, að maður skilur ekki þennan yfirgang þessara manna í þessum málum á öllum sviðum og bitlingastarfsemina í úthlutun á stöðum og störfum, þegar hver vill koma sínum mönnum að, auðvitað allt á ríkisins kostnað, og svo eru þeir látnir sitja á tvöföldum, þreföldum eða fjórföldum launum og svo reynt að dylja þetta, bara til þess að geta otað sínum tota í þjóðfélaginu. Það er ekki fallið til þess að auka virðingu Búnaðarfélags Íslands, að það skuli haga sér svona í þessum málum.

Nú kem ég að hinni hlið málsins. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það sé nauðsynlegt að hafa eftirlit með því, hvaða vélar eru fluttar inn í landið. En ef á að hafa slíkt eftirlit sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., verður ekki hægt að takmarka það við landbúnaðarvélar einar. Ef á að setja slík ákvæði sem þessi um landbúnaðarvélar, þá verður að láta það sama gilda um allar vélar í landinu, t. d. líka um mótorvélar í fiskiskip alls konar, vélar í síldarverksmiðjur, lýsisvinnsluvélar og alls konar aðrar vélar, sem kosta miklu meira fé en þær vélar, sem hér er um að ræða í þessu frv. Svo að ef ætti að fara inn á þessa braut, sem lagt er til í frv., þá er ekkert að vita, hvar ætti að setja takmörkin. Og þau ætti ekki að hnitmiða við landbúnaðarvélar, og þá yrði það ekki Búnaðarfélag Íslands, sem ráða ætti um athugun þeirra véla allra. Það þyrfti þá að skipa einhverja sérstaka stjórn, sem hefði vit á þessum vélum almennt, en ekki þannig, að starf hennar gengi út yfir það eitt að athuga þennan eina flokk véla. Og er þá stætt á þessari stefnu, ef hver maður, sem flytur inn vél, ætti að láta eina vél — og þá líklega gefins —, sem annars kostaði kannske tugi þúsunda eða hundruð þúsunda, til athugunar hjá slíkri nefnd eða stjórn? Svona fjarstæða, eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, gæti ekki verið samin nokkurs staðar annars staðar, en í Búnaðarfélagi Íslands, hjá þessu eins konar ráðuneyti, sem ekkert hefur annað að gera við sinn tíma, en að setja saman svona vitleysu, sem hér er á ferðinni. Við skulum hugsa okkur t. d. framleiðendur vel þekktra véla á heimsmarkaðinum. Halda hv. þm., að þeir færu að vinna það til að flytja vélar til Íslands, til þess að láta vél; sem kostar kannske tvö eða þrjú hundruð þús. kr., undir próf einhverrar íslenzkrar nefndar, til þess að hún segði sitt álit um vél, sem búið er að reyna um allan heim? Ég held, að ákvæði um slík próf mundu valda stöðvun á innflutningi ýmissa þeirra beztu véla, sem fluttar mundu annars verða til landsins, ef þetta frv. á að verða að lögum.

Ég held, þar sem hv. form. landbn. hefur lýst, að hann sé einn um flutning þessa máls, að heppilegast væri, að hann óskaði, að þetta mál væri tekið af dagskrá, a. m. k. til þess að undirbúa það betur, en gert hefur verið enn hér, og léti þá athuga þetta á víðari grundvelli en hér hefur verið gert og léti málið ekki einu sinni ganga til 2. umr. fyrr en það væri gert.

Skal ég svo ekki tefja umr. um þetta mál að þessu sinni. En þetta mál þarf miklu meiri athugunar við en það hefur fengið enn þá, eftir því sem þskj. 663 ber með sér.