07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

42. mál, farkennaralaun

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessarar till., sem hér liggur fyrir til síðari umr., er að heimila ríkisstj. að greiða farkennurum jöfn laun og öðrum kennurum, eftir því sem nánar er til tekið, og bæta úr því misrétti, sem meiri hluti farkennara í sveitum á við að búa, þar sem þeir, af því að þeir hafa ekki menntun sína frá Kennaraskóla Íslands, fá 25% lægri laun en aðrir kennarar við sömu störf.

Fjvn. hefur haft þessa till. til meðferðar og rætt hana á nokkrum fundum. Enn fremur hefur hún sent hana til umsagnar fræðslumálastjóra og stjórnar Kennarasambands Íslands, og eru umsagnirnar prentaðar með nefndaráliti meiri hlutans á þskj. 263. Báðir þessir aðilar hafa mælt með till., en fræðslumálastjóri leggur til, að heimildin sé bundin því skilyrði, að hlutaðeigandi kennarar hafi stundað kennslu í tvö ár eða meir. Með þessu virðist hann vilja tryggja, að ekki fái full laun aðrir en þeir, sem þannig hafa reynzt í starfinu, að rétt hefur þótt að ráða þá á ný, og má segja, að það fyrirkomulag hafi nokkuð til síns máls.

Meiri hl. n. mælir með því, að till. verði samþ. með breyt., sem gengur í sömu átt og till. fræðslumálastjóra. Hins vegar voru nokkuð skiptar skoðanir um það hjá meiri hl. n., hversu lengi kennarar án prófs ættu að gegna starfi til að njóta jafnréttis um laun, en samkomulag varð um þrjú ár, og hefur meiri hlutinn borið fram brtt. þess efnis á sama þskj. Minni hl. n. vill hins vegar vísa till. frá með rökstuddri dagskrá.

Kostnaður við framkvæmd till., eins og meiri hl. n. vill ganga frá henni, er um 80 þús. kr. á ári, en hefði orðið um 180 þús. kr., ef hún hefði verið samþ. óbreytt, eins og hún var borin fram.

Ég ætla, að ríkið hafi yfirleitt alltaf fylgt þeirri reglu gagnvart starfsmönnum sínum að greiða sömu laun fyrir sömu störf án tillits til þess, hvernig þeirrar þekkingar er aflað, sem nauðsynleg er til að leysa starfið af hendi. Eina undantekningin, sem mér virðist, að launalögin frá 1946 hafi gert að þessu leyti, er um barnakennarana. Fræðslumálastjóri hefur að vísu í umsögn sinni, sem ég áður nefndi, gert nokkra grein fyrir því sjónarmiði, er þessu virðist hafa ráðíð á sínum tíma, en mér virðast þau rök mjög hæpin, svo að ekki sé meira sagt. Mér hefði þótt rétt að bæta að fullu úr þessu misrétti. Mér virðist nóg að gert, að þessum kennurum skuli verða vikið úr starfi, hvenær sem kennaraprófsmaður býðst til að taka það að sér, þó að ekki komi launaskerðing að auki, en til samkomulags hef ég fallizt á þá till., sem ég gat um áðan.

Ég vil fyrir hönd meiri hl. n. leggja til, að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem meiri hl. fjvn. hefur borið fram.