11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða þetta mál almennt, en vegna þess að ég á hér brtt., vil ég segja nokkur orð. Þessi brtt. er samhljóða till., sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) flutti í Nd. í gær.

Það er mitt álit, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé aðeins bráðabirgðalausn og þar að auki mjög svo gallað og ætti ekki að gilda lengur, en til þess skemmsta tíma, sem gert er ráð fyrir, eða til 1. marz. Mér skilst, að ef svo fer, að ekki verði tekin ábyrgð á lifrarverðinu, þá sé það haft í hyggju að taka gjaldeyri þann, sem fæst fyrir þorskalýsið, inn á svokallaðan frílista. Af þessu tvennu tel ég ábyrgðina heppilegri, vegna þess fyrst og fremst, að ég tel að sú leið tryggi betur hag sjómanna og útgerðarmanna almennt og að hagnaðurinn af þessum ráðstöfunum komi á þennan hátt jafnara niður en ef lýsisgjaldeyririnn væri tekinn á frílista.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál í hv. d., af þeirri einföldu ástæðu, að hv. þm. hafa sjálfsagt markað afstöðu sina til þess og er það þegar kunnugt. Þessi till. var felld þegar hv. þm. V-Húnv. flutti hana í Nd., en að mig minnir með jöfnum atkv., og einhverjir þm. voru fjarverandi. Mér þykir þess vegna ekki fullreynt með fylgi hennar í þ. og ber hana því fram hér í þessari hv. d. — Ég vil svo að lokum undirstrika það, að ég tel frv. vera gallað, en mun samt greiða því atkv. í trausti þess, að Alþ. taki þessi mál öll til langtum ýtarlegri meðferðar og varanlegri úrlausnar núna alveg á næstunni.