13.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3600)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ásmundur Sigurðsson:

Þessar umræður eru um vantrauststillögu á núverandi ríkisstjórn, flutta af Framsfl.

Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt, þó að vantrauststillaga sé flutt á minnihlutastjórn, en vegna þess, að ekki liggur fyrir opinbert, hvað við á að taka, en hins vegar hafa verið gerðar tilraunir nokkrar á þessu þingi til myndunar meiri hluta þingræðisstjórnar, þá mun ég rekja hér þær tilraunir að nokkru.

Það er kunnugt, að á síðastliðnu sumri kom upp órói nokkur í herbúðum fyrrverandi ríkisstj. Stafaði hann af því, að Framsókn þóttist ofurliði borin og ekki fá sínum málum framgengt. Setti flokkurinn viss úrslitaskilyrði og hótaði friðslitum að öðrum kosti. Langt er frá því, að það væri vonum seinna að Framsókn gerði þessar kröfur.

Um áramótin næst á undan hafði formaður flokksins. Hermann Jónasson, skrifað mikla grein í Tímann og gefið ófagra lýsingu á ríkjandi ástandi. Líkti hann stórgróðavaldinu á Íslandi við Heiðnabergið í Drangey, þar sem tröllin búa í þjóðsögunni um Guðmund góða. Heitir sá kafli „Heiðnaberg Sjálfstæðisflokksins.“ Í upphafi réðu tröllin yfir öllu bjarginu, og þegar menn sigu til fanga, kom grá loppa út úr berginu og skar á festina. Biskup tók að sér að vígja bergið, og skeði þá hið sama, en af því að einn þáttur festarinnar var vígður, beit sveðjan ekki á hann, og bjargaði það biskupi. Bað óvætturinn um grið, sem biskup veitti og skildi nokkurn hluta eftir óvígðan, sem síðan var kallað Heiðnaberg, bústaður tröllanna.

Þessa sögu heimfærði greinarhöfundur upp á þjóðfélagið, þar sem Guðmundur biskup var tákn baráttu hins góða, en loppan með sveðjuna skemmdaröflin.

Niðurstaðan varð svo þessi: Öll framsækin öfl á öllum tímum hafa átt í höggi við þessa loppu og um ástandið um næst síðustu áramót segir orðrétt: „Ýmsum virðist, sem Sjálfstæðisflokkurinn, íhaldsloppan, hafi í þessari viðureign fengið allt bergið til umráða og gert að sínu Heiðnabergi.“

Með stjórnarrofinu í haust ákvað Framsókn að segja loppunni stríð á hendur. Í þeirri baráttu birti Framsókn eina geysimikla yfirlýsingu um fjárhags-, dýrtíðar- og atvinnumál, í 28 liðum. Ég hef ekki tíma til að telja það allt upp, en læt nægja að minna á umsögn Tímans 21. okt. Þar segir m. a. um nýafstaðnar útvarpsumr.: „Framsfl. einn hefur fram að bera raunhæfar úrbótatillögur. Málafærsla hinna flokkanna var aðeins sundurlaust, haldlaust glamur til að villa um kjósendur.“ Auk þessa má náttúrlega minna á slagorðin: „Réttlát skipting neyzluvörunnar“ og „Bægjum burt atvinnuleysinu“, sem stimpluð voru með rauðum lit ofan í venjulegt lesmál á síðum blaðsins. En þetta bar allt saman árangur. Flokkurinn fékk stóraukið fylgi og þá aðstöðu, sem hann hafði beðið um, aðstöðu til þess að taka forustu og hafa miklu meiri möguleika en áður til að koma málum sínum fram.

Nú hlýtur það að liggja opið fyrir hverjum manni, að til þess að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur, til þess að vinna, þótt ekki væri nema hluta af Heiðnabergi íhaldsins, var aðeins ein leið. Hún var sú að skapa samfylkingu þeirra stétta, sem fyrst og fremst skapa þjóðarauðinn, og mynda, á grundvelli þeirrar samfylkingar, vinstri ríkisstjórn, er tæki við völdum og mynduð yrði af þeim flokkum í þinginu, er fylgi sitt hafa meðal þessara stétta. Og það er fullvíst, að mikill meiri hluti af kjósendum Framsfl. ætlaðist beinlínis til þess, að flokkurinn beitti sér fyrir myndun slíkrar stj.

Þetta var því meiri þörf, þar sem útlit allt í efnahagsmálum var svo alvarlegt sem þessir flokkar sjálfir hafa lýst, og þó enn þá alvarlegra að því leyti, að þeir hafa alls ekki gefið tæmandi lýsingu á útlitinu í markaðsmálunum, þar sem raunverulega er enn þá enginn markaður til í dag fyrir verulegan hluta af fiskframleiðslunni.

Sósfl. var frá upphafi reiðubúinn að taka þátt í myndun slíkrar stjórnar og taka á sig þá ábyrgð, er því fylgdi. Hann tók þá ákvörðun strax þegar þing kom saman að reyna að vinna að slíkri stjórnarmyndun. Fyrsta tilraunin var að bjóða Framsfl. samvinnu um forsetakosningar á Alþingi. Því var hafnað, og þegar sósíalistar kusu samt Steingrím Steinþórsson fyrir forseta sameinaðs þings, þá lýsti Tíminn því yfir, að slíkt hefði verið gert algerlega „án óska og vitundar framsóknarmanna.“ Svo mikill virðist viljinn vera til að vinna eitthvað af Heiðnabergi íhaldsins, að flokkurinn óskaði ekkert eftir forsetavaldi sameinaðs þings.

Hinn 16. nóv. sendi þingflokkur sósíalista þingflokki Framsóknar bréf, þar sem hann tjáði sig reiðubúinn til myndunar slíkrar stjórnar er starfaði í aðalatriðum á eftirfarandi grundvelli :

1. Staðið á verði um sjálfstæði þjóðarinnar og landsréttindi. Öllum hugsanlegum kröfum um herstöðvar eða hernaðarleg fríðindi vísað á bug.

2. Reynt yrði af fremsta megni að afstýra þeirri markaðskreppu, sem vofir yfir, tryggja þjóðinni sölu á öllu magni, er hún getur framleitt til útflutnings. Gangskör að því gerð að ná sem víðtækustum verzlunarsamböndum í því skyni, hvar sem þau eru fáanleg.

3. Gerðar yrðu ráðstafanir til að lækka verðlag og framleiðslukostnað í landinu, fyrst og fremst með því að breyta verzlunarskipulaginu, þannig. að komið verði í veg fyrir hóflausan gróða einstaklinga á kostnað almennings.

4. Hafizt handa um nýtt átak í atvinnulífinu, með það fyrir augum að einbeita vinnuafli þjóðarinnar að framleiðslunni, til fullnýtingar á atvinnutækjunum, og undirbúningi nýrra framkvæmda, svo sem unnt væri.

5. Á þessum grundvelli yrði unnið að því markvisst að vernda lífsafkomu almennings, til sjávar og sveita, með félagslegum umbótum, ráðstöfunum til lækkunar á nauðsynjum, og kappkostað yrði að ná frjálsum samningum við verkalýðsfélögin og tryggja þannig vinnufrið.

Skriflega var þessu aldrei svarað.

En einmitt þessa dagana fól forseti Íslands formanni Framsfl. að gera tilraun til stjórnarmyndunar, og er sú saga rakin í Tímanum 23. nóv. í viðtali við formanninn, eftir að sú tilraun var úr sögunni. Nú mun ég nota þá heimild til tryggingar því, að mér verði ekki brugðið um ósannindi í frásögninni.

Hermann Jónasson taldi kosningarnar hafa farið fram vegna þess, „að framsóknarmenn vildu ekki sætta sig við það í stjórnarsamstarfinu, að viðhaldið væri rangri skiptingu innflutningsins, svartamarkaðsverzlun, húsnæðisokri og öðru því, sem skapar einstöku fjáraflamönnum möguleika til að skerða kjör almennings“ Enn fremur að leiðrétting á þessum málum væri fyrsta skilyrðið til þess að sætta þjóðina við aðrar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, sem hann taldi óhjákvæmilegt að gera. M. ö. o., að ráðast á Heiðnaberg íhaldsins og vinna að verulegu leyti. Og enn fremur segir svo: „Það, sem Framsfl. lagði megináherzlu á í sambandi við stjórnarmyndunartilraun þá, er ég gerði, var að tryggja framgang þeirra mála, sem hann barðist fyrir og gaf kjósendum loforð um að beita sér fyrir. Við gerðum það ekki einvörðungu af þeirri ástæðu, heldur einnig af þeirri sannfæringu, að ekki sé hægt að gera ráðstafanir til bjargar framleiðslunni, nema þessi mál okkar nái samþykki á Alþingi og heiðarleg framkvæmd þeirra sé tryggð. Annars unir fólkið hinum ráðstöfununum ekki.“

Þá er næst að athuga, hvaða aðferð flokkurinn hugðist að nota til þess að tryggja samþ. og heiðarlega framkvæmd þessara mála. Um það segir svo í viðtalinu:

„Framsfl. spurðist fyrir um það hjá Alþfl., hvort sá flokkur vildi mynda tveggja flokka stjórn með Framsfl., þannig að Framsfl. hefði stjórnarforustu, en til mála kæmi, að þess yrði farið á leit við Sjálfstfl., að hann veitti stjórninni hlutleysi eða stuðning.“

Alþfl. svaraði þessu þannig, að hann teldi meirihlutafylgi á Alþingi nauðsynlegt til myndunar slíkrar stjórnar, en tók það fram um leið, að hann mundi ekki taka þátt í neinni stjórnarmyndun með stuðningi Sósfl.

Næst segir frá því í viðtalinu, að Framsfl. sneri sér til Sjálfstfl. og spurðist fyrir um, hvort hann vildi styðja Frams.- og Alþfl. til að koma í framkvæmd þeim málum, sem stjórnarslitin urðu út af á síðasta þingi, ef þeir tveir mynduðu minnihlutastjórn. Ég þarf nú ekki að taka upp þau svör, þau munu liggja nokkuð ljóst fyrir hverjum meðalgreindum manni.

Út af bréfi því, er Sósfl. sendi Framsfl., fóru einu sinni fram viðræður milli fulltrúa beggja flokkanna og niðurstöður þeirra birtar í greinargerð, er Sósfl. hefur birt opinberlega um þær. En hún mun vera í fárra höndum, vil ég leyfa mér að lesa hana hér upp:

„Föstudaginn 18. nóv. 1949 komu þeir Hermann Jónasson og Gísli Guðmundsson af hálfu Framsóknarflokksins og Einar Olgeirsson og Finnbogi Rútur Valdimarsson af hálfu þingflokks sósíalista saman í Alþingishúsinu til viðræðna um stjórnarmyndun. Hermann Jónasson viðurkenndi móttöku bréfs frá þingflokki Sósfl. um möguleika á stuðningi við ríkisstjórn, sem Hermann Jónasson myndaði.

Enginn ágreiningur kom fram um málefnaleg atriði, sem sett voru fram í bréfi Sósfl. Hermann Jónasson taldi hins vegar ekki möguleika á myndun vinstri stjórnar þegar af þeirri ástæðu, að Framsfl. og Sósfl. hefðu ekki einir meiri hluta í þinginu, en Alþfl. gæfi ekki kost á þátttöku eða stuðningi við stjórn, sem Sósfl. tæki þátt í eða styddi. Væri því óþarft að ræða það frekar, hvort þessi möguleiki væri að öðru leyti fyrir hendi.

Einar Olgeirsson og Finnbogi Rútur Valdimarsson töldu allar líkur benda til, að nægur stuðningur mundi fást með vinstri mönnum í þingflokki Alþfl. með málum, sem Framsfl. og Sósfl. gætu staðið saman um, og töldu rétt, að þetta væri athugað. Þeir bentu enn fremur á, að Framsfl. og Sósfl. hefðu nægan þingstyrk til að afstýra vantrausti í sameinuðu þingi.“

Þessi greinargerð var lesin fyrir Hermanni Jónassyni áður en hún var birt, og viðurkenndi hann, að rétt væri frá skýrt.

En daginn eftir að þessi yfirlýsing var birt, kom forsíðugrein í Alþýðublaðinu undir stórri fyrirsögn, svo hljóðandi: „Hermann ræddi aldrei við Alþýðuflokkinn um vinstri stjórn með kommúnistum.“ Síðan segir blaðið: „Í viðræðum þeim, sem fram fóru í s. l. viku milli fulltrúa Alþfl. og Framsóknar um stjórnarmyndun, minntist Hermann Jónasson aldrei á myndun svo kallaðrar vinstri stjórnar með þátttöku eða stuðningi kommúnista, enda hefur Eysteinn Jónsson lýst yfir, að hann væri algerlega andvígur því að hafa beint eða óbeint samstarf við kommúnista um ríkisstjórn. En um Alþfl. var það áður vitað af yfirlýsingum við mörg tækifæri, að hann vill ekkert samstarf eiga við kommúnista um stjórn landsins.“

Það fer nú vænti ég að liggja nokkuð opið fyrir, hversu mikil alvara var á bak við stjórnarslitin, kosningabröltið, fögru loforðin og stjórnarmyndunartilraunina.

Framsókn hefur í höndum skriflegt tilboð frá Sósfl. um myndun vinstri stjórnar á málefnagrundvelli, sem enginn ágreiningur kom fram um. Þessir flokkar til samans hafa 26 þingmenn. Með stuðningi eins manns í viðbót var skapaður meiri hluti. Þetta tilboð var lagt í skúffuna án svars. En í þess stað er farið til Alþfl. og hann spurður, hvort hann vilji mynda hreina minnihlutastjórn með Framsókn, er síðan biðji um hlutleysi eða stuðning íhaldsins. Þetta var að leggja megináherzlu á að tryggja framgang þeirra mála, sem hann barðist fyrir og gaf kjósendum loforð um.

Málin voru öll þess eðlis, að þau kosta harðvítuga baráttu við peningavaldið, gráu loppuna, sem ver Heiðnaberg sérréttindanna með beittri sveðju. Eitt þeirra er verzlunarmálið og það stærsta. En þau eru jafnframt þess eðlis, að ef þau eru gerð að veruleika, þá skapast óbrúanlegt djúp á milli þessara aðila og flokkurinn yrði að venda fyrir fullt og allt inn á hreina vinstri pólitíska stefnu. En í staðinn fyrir þetta var reynt að tvinna saman festi úr þröngsýnustu afturhaldsöflum Framsóknaríhaldsins og þjónustusemi Alþýðuflokksins við stórgróðavaldið. Festina skyldi vígja með hlutleysi íhaldsflokksins sjálfs. Í festinni átti svo að síga til fanga í Heiðnaberg íhaldsins, b. e. hinn friðhelga reit peninganna, milljónamæringanna, sem eiga 300–400 millj. kr. í hreinum eignum á nöfnum 100 aðila. Þannig átti að heyja hið heilaga stríð gegn allri fjárplógsstarfsemi í landinu.

Þá er einnig vert að athuga, hvort ekki var á nokkrum rökum byggð sú skoðun Finnboga Rúts og Einars Olgeirssonar, að líkur væru til, að tryggja mætti stjórn sósíalista og Framsóknar stuðning vissra manna úr Alþfl., eða a. m. k. stuðning við ákveðin mál, sem nauðsynlegt var að leysa. Hin 30. maí 1949 birtist í blaðinu Þjóðvörn grein undir nafninu „Myrkur um miðjan dag“, eftir einn af þingmönnum Alþfl., Hannibal Valdimarsson. Þar segir m. a. þetta:

„Það er vissulega mál til þess komið, að Alþfl. og Framsfl. hætti að vera hækjur íhaldsins. Málefni verkamanna og bænda verða ekki leyst með því móti.“

Annar af þingmönnum Alþfl. hefur áður fylgt verzlunarfrumvarpi því, sem bæði sósíalistar og framsóknarmenn hafa sameinazt um undanfarin ár og hefur verið stærsta átakamálið í þinginu, enda eitt hið þýðingarmesta í þessu sambandi, þ. e. ákvæðin um að leggja niður kvótakerfið í verzluninni og veita í þess stað gjaldeyris- og innflutningsleyfi beint til neytenda. En eitt dæmi af mörgum í sambandi við vinnubrögðin er það, að þessu máli, sem verið hefur standandi baráttumál flokksins í tvö ár, meðan ómögulegt var að koma því fram, kastar hann nú fyrir borð, þegar möguleikar hafa skapazt til að fá það samþykkt, en flytur nú í þess stað annað, sem felur í sér aðalókost hins gamla skipulags kvótakerfisins.

Ég hef haft svo mörg orð um þetta vegna þess, að þjóðin á heimtingu á því að fá rétta skilgreiningu á því, hvernig þetta tafl hefur verið leikið og hvers vegna hún fékk íhaldsstjórn, minnihlutastjórn, sem á engan hátt getur stjórnað landinu, og hefur einnig viðurkennt það með því að sækja fast eftir stjórnarsamvinnu við Framsókn. Það er af því, að Framsfl. ráða enn þá Eysteinn og eymdin, og mun svo verða meðan kjósendur hans láta blekkjast á sama hátt og í haust.

Núverandi ríkisstjórn hefur nú setið að völdum í þrjá mánuði. Hún lýsti því yfir í upphafi, að hún mundi til bráðabirgða fara troðnar slóðir. Ef hún fengi vinnufrið, mundi hún síðar leggja tillögur um heildarlausn fyrir þingið. Þingið veitti aðstoð til að ganga frá bráðabirgðalausnum, og vinnufriðinn fékk hún.

Fyrir tveim dögum síðan upplýsti fjmrh., að tillögurnar um heildarlausnina hefðu verið tilbúnar 2. febr., og voru þá fljótlega afhentar Framsókn og Alþfl. til athugunar. Í nærri því heilan mánuð hafa þessir flokkar verið að bræða sig saman um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Afleiðingin er vantrauststillaga á ríkisstj., sem þó er ekki flutt vegna efnis frv., heldur af öðrum ástæðum, sem ég mun koma að síðar. Doktor í hagfræði var fenginn frá Ameríku, og prófessor í hagfræði fenginn honum til aðstoðar hér heima. Árangurinn liggur fyrir í þessu frv. og er í stuttu máli þessi:

Gengislækkun um 42,6%. Þetta er gert til að hækka verð útfluttrar vöru, en verður vitanlega til að hækka verð innfluttrar vöru að sama skapi. Þetta þýðir 74,3% hækkun á erlendum gjaldeyri. Ef útflutningsverðmætin væru t. d. 300 millj. með fyrra gengi, mundu þau verða ca. 520 millj. eftir stýfinguna. Á sama hátt mun innflutningsverðmæti, sem áður kostuðu 300 millj., nú kosta 520.

Hinar augljósu afleiðingar liggja því fyrir. Stórkostleg lækkun allra launagreiðslna, hækkun framfærslukostnaðar og skerðing sparifjárinnstæðna, í bönkum og sparisjóðum.

Röksemdirnar fyrir þessu eru þær, að létta þurfi útflutningsuppbótum af ríkissjóði, skapa útflytjendum hærra verð og tryggja markaðina fyrir sjávarafurðirnar.

En í framhaldi af þessu er enn fremur það ákvæði að taka valdið yfir gengisskráningunni úr höndum Alþingis og leggja það í vald ríkisstjórnar og Landsbankans á hverjum tíma. Verði þetta samþykkt, getur hvaða ríkisstjórn sem er lækkað gengi krónunnar, þegar henni þóknast, með öllum þeim afleiðingum, sem það hefur fyrir afkomu almennings og efna- og fjárhagskerfi þjóðarinnar í heild.

Enginn af formælendum þessa máls neitar því, að hér sé um að ræða mjög miklar launalækkanir allra þeirra, sem laun fá eftir vísitölu, svo og lækkun innstæðna. En það er öðru haldið fram. Því er haldið fram, að það verði ekki um neinar kjaraskerðingar að ræða, því að þessir aðilar eigi að fá fullar bætur fyrir það, sem frá þeim er tekið. Þessi rök vil ég athuga lítið eitt nánar.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því, að 10 millj. kr. skuli varið til að bæta upp sparifé. Nær það þó aðeins til þess hluta sparifjárins, sem staðið hefur óslitið síðan 1939, eða 1942. Þessi hluti er svo lítið brot af öllu sparifé þjóðarinnar, að þessar uppbætur skipta allan fjöldann engu máli.

Þá er því haldið fram, að verkamenn og aðrir launþegar fái laun sín bætt með vísitöluhækkun þeirri, sem gert er ráð fyrir í 4. og 7. gr. Þetta er vitanlega blekking, enda næði frv. alls ekki sínum tilgangi, ef svo væri. En þar er gert ráð fyrir að reikna út nýja vísitölu þannig, að taka inn í hana óniðurgreitt kjöt og húsaleigu í húsum, sem fullgerð eru eftir 1945. Báðir þessir liðir eru mjög háir og munu hækka vísitöluna mjög mikið. Af því leiðir, að verð hinna erlendu vara, sem einmitt hækkar vegna gengislækkunarinnar, mun verða hlutfallslega minni þáttur en áður. Þegar nú sú vísitala, sem þannig verður reiknuð út, verður ákveðin 100, þá þarf mikla vöruverðshækkun til að hækka hana um hvert stig. Og það má jafnframt komast af með litla niðurgreiðslu á hæstu innlendu vöruflokkum, sem nú nema meira hlutfalli en áður, til þess að vega á móti mikilli verðhækkun erlendra vara, sem vega nú minna hlutfallslega en áður. Þetta þýðir, að það þarf miklu meiri verðhækkun, en áður til þess að skapa hreyfingu, sem gildir það, að auðvelt verður að halda vísitölunni kyrri, þótt verðbólgan vaxi og framfærslukostnaður fari hækkandi. Þetta er sú leið, sem vitanlega verður farin til þess að reyna á pappírnum að draga pennastrikið yfir staðreyndirnar.

Þá er ráð fyrir gert að hætta að greina á milli grunnlauna og verðlagsuppbótar, og teljist það kaup, sem nú er greitt, ásamt núgildandi verðlagsuppbót grunnlaun.

Til þess að halla ekki máli skal ég lýsa þeirri skrautfjöður, sem mun eiga að vera tákn þess, að fleiri eigi að fórna en almenningur. Það eru ákvæði 12. gr. um hækkað mat á fasteignum og nýr eignaraukaskattur, sem kemur þó ekki harðara við en svo, að 300 þús. kr. hrein eign er undanþegin, af eign, er nemur frá 300 þús. til 1 millj., greiðist 10% og af því, sem er fram yfir milljón í eign einstaklings, 12%. Þetta eru fórnir auðmannanna, sem grætt hafa svo mikið, að þeir hafa komið því í fasteignir, sem hækka í verði við gengisfallið. Sá, sem á eina milljón í slíkum eignum, þarf að greiða 70 þús. í þennan aukaskatt. En sá, sem á 10 þúsund í sparisjóðsbók, sem lagt hefur verið fyrir eftir 1942, hann missir 4300 eða 43% við gengislækkunina. Hér getur maður nú sagt, að samræmi sé í hlutunum, og ber gott vitni hugkvæmni þeirra, er samið hafa.

Þá er framleiðslugjald á verðmæti þeirra sjávarafurða, er nýju togararnir afla, 10% af brúttó-verðmæti annars en ísfisks og 25% af því ísfisksverðmæti, sem er fram yfir 8.500 sterlingspund í söluferð, einnig 10% á hvalafurðir, og verði varið til að greiða skuldir ríkisins í sambandi við togarakaup o. fl. Það er þó nokkur viðurkenning á gagnsemi nýsköpunartogaranna, að nú skuli mega skattleggja þá til að greiða skuldir vegna þeirra 10 togara, sem nú er verið að smiða að tilhlutun fyrrverandi ríkisstj. og eftir þessa gengisfellingu munu verða þrefalt dýrari, en hinir fyrri.

Ég hef nú lýst hér öllu aðalefni þessa frv. Og það er gengislækkunin ein, sem máli skiptir, ásamt þeim felubrögðum með vísitöluna, sem ætluð eru til þess eins að láta svo líta út sem dýrtíðin hækki ekki, þótt innflutningsvarningur hækki í innkaupi um nærri 3/4 af upprunalegu verði. Hin atriðin bæði, uppbæturnar á spariféð og eignaraukaskatturinn, eru skrautfjaðrir, ætlaðar til að láta líta svo út sem verið sé að milda aðgerðirnar gagnvart almenningi og skattleggja eignaraukningu.

Hvernig verkar nú gengislækkun á aðra atvinnuvegi, t. d. landbúnaðinn? Stór verðhækkun verður á öllum efnisvörum og rekstrarvörum til hans. Ég hygg, að ég fullyrði ekki of mikið, þótt ég segi, að erlent byggingarefni í meðalíbúðarhús á sveitabæ eða nýbýli hækki í verði um 20–30 þús. kr. Sama gildir um tilbúinn áburð, fóðurvörur, vélar, brennslu- og smurningsolíur og hvað eina. Framleiðsla landbúnaðarins er svo að segja öll seld á innlendum markaði. Á hækkunin að skella á bændum? Á hún að greiðast úr ríkissjóði? Eða á hún að valda verðhækkun og stóraukinni verðbólgu? Gert er ráð fyrir að slíta tengslin á milli verðlags landbúnaðarvara og kaupgjalds, svo að allt er í óvissu um þessi atriði.

Nei, það er bezt að sleppa öllum bollaleggingum um uppbætur til þeirra, sem fyrir gengislækkuninni verða. Hér er verið að gera tilfærslu á þjóðartekjunum innanlands vegna útflutningsframleiðslunnar og til að spara ríkissjóði útgjöld. Og ráðið er að leggja þetta sem hlutfallslega jafnan skatt á innkaupsverð alls innflutnings, hvort sem hann er nauðsynjavara eða lúxusvara og hver sem kaupandinn er.

„En eitthvað verður að gera,“ er venjulega svarið, þegar á þetta er bent. Og enn fremur: „Þeir, sem ekki geta fallizt á þetta, verða þá að koma með aðrar tillögur til úrlausnar.“

Ég neita því ekki, að bæði þurfi að greiða fyrir þeim, sem framleiða til útflutnings, og spara útgjöld ríkissjóðs. En ég vildi spyrja: Eru engir þeir aðilar til aðrir, sem ástæða er til að eitthvað leggi af mörkum, einhverju fórni, eins og alltaf er verið að tala um? Hvernig er það með verzlunarkerfið íslenzka? Er það áreiðanlega rekið þannig, að ekki mætti breyta til batnaðar með breytingum á því? Hvert sækir fjárgagn íslenzku þjóðarinnar? Í verzlunina jafnt og þétt, af því að þar er fljóttekinn og vissastur gróði.

Á bls. 44 í álitsgerð hagfræðinganna tveggja, sem þetta hafa tilbúið, stendur þessi setning: „Eins og málum er nú háttað, mundi borga sig fyrir innflytjendur, ef þeir gætu komið því víð að hafa eigin firmu erlendis — þótt ólöglegt sé —, sem þeir svo keyptu af firmu, sem legðu á vörurnar, áður en þau seldu þær hingað. Ef svona verzlunarmáti er rekinn að nokkru ráði, þá mundi hann minnka við það, að rýmkaðist um verzlunina, og verða að hverfa, ef innflutningurinn yrði gefinn frjáls, þ. e. ótakmarkað mætti flytja inn. Það er því hugsanlegt, að innflutningsverðlagið til innflytjenda mundi ekki hækka eins mikið og gengislækkuninni næmi.“

Bragð er að þá barnið finnur, segir gamalt íslenzkt máltæki. Hér koma tveir hálærðir íhaldshagfræðingar og færa það sem rök fyrir því, að gengislækkun muni ekki skella með fullum þunga á almenningi, að líkur séu til svo mikillar ólöglegrar verzlunarálagningar erlendis, gegnum aukamilliliði, að ef hún hyrfi með alfrjálsum innflutningi, þá mundi það draga verulega úr þeirri 75% verðhækkun, sem gengislækkunin skapar. Þessi verzlunarháttur hefur verið kallaður faktúrufölsun á slæmri íslenzku. Það var að vísu ekki ókunnugt um þessa hluti áður. Árið 1945 voru fjögur heildsölufyrirtæki í Reykjavík dæmd fyrir samtals 916 þús. kr. álagningu af þessu tagi. Það var þegar upp komu hin alþekktu heildsalamál. En síðustu þrjú árin hefur verið hljótt um þessi mál. En nú koma þessir tveir ágætu menn með þessa ályktun. Ég er bara hræddur um, að þetta hafi slæðzt óviljandi hér inn.

Allar bollaleggingar um það, að við getum leyft ótakmarkaðan innflutning og lagað þetta á þann hátt, eru gersamlega óraunhæfar, því að við erum aldrei fjær þeim möguleika en á þeim tímum, sem þjóðartekjurnar minnka. Samkvæmt áliti eins af okkar hagfræðingum mundum við þurfa 750–800 millj. kr. í gjaldeyri eftir gengisfellinguna til þess að geta gefið innflutninginn frjálsan. Útflutningsáætlun fjárhagsráðs er 300 millj. Þær gilda eftir gengisfellinguna 520 millj. Nú er sífellt um það rætt, að við þurfum að lækka verðið til að vera samkeppnisfærir á markaði. Fari svo, þá lækkar þetta enn, og bilið milli þarfar og möguleika eykst, því að þá fjölgar krónunum, sem við fáum fyrir útflutninginn, ekki eins mikið og þeim, sem við þurfum að láta fyrir innflutninginn. Mismunurinn gæti þá orðið sá, að okkur vantaði 250–300 millj. til þess að geta gefið verzlunina frjálsa. En hvað hefur orðið af þeim milljónum, sem þannig hafa verið teknar af þjóðinni í ólöglegri álagningu erlendis? Vilja menn nú minnast fyrri upplýsinga, sem Þjóðviljinn birti á sínum tíma og formaður Framsfl. hefur staðfest m. a., um faldar gjaldeyrisinnstæður erlendis? Þessir milljónatugir eða hundruð hækka við gengislækkunina að sama skapi og sparisjóðsinnstæðurnar innanlands eru rýrðar. Hver eru ákvæði frv. um, að verzlunarkerfið leggi sinn hluta af mörkum til þessarar viðreisnar? Ekki hefur verið á þau bent.

Tillögur til úrbóta á þessum atriðum báðum og mörgum fleirum hafa sósíalistar flutt á Alþingi. Þær hafa fengið þá meðferð að sofna í nefndum. Og svörin, sem við fáum, eru þessi: Þið vinnið eftir skipunum frá Moskva og eruð ekki þess virði, að við ykkur sé talað. — Þetta slagorð og önnur slík, sem allir þessir „ábyrgu lýðræðisflokkar“ hafa keppzt við að hamra inn í þjóðina, hafa villt þannig um mikinn hluta hennar, að þau hafa orðið sterkustu kastalarnir í þeirri víglínu, sem þeir hafa þannig hjálpazt við að byggja utan um Heiðnaberg íhaldsins.

Þessar tillögur eru fluttar af íhaldsflokknum einum. En upplýst hefur verið hér, að bak við þær standi flokkurinn allur. Þær eru um að leysa vandann einhliða á kostnað hins vinnandi fólks. Þær eru undirstrikun þeirra alþekktu fullyrðinga, að okkar eina vandamál séu of góð lífskjör almennings í landinu.

Hagfræðingarnir upplýsa, að þjóðartekjurnar nemi 1300 millj. kr. á ári. Mun það vera tífalt hærri upphæð en fyrir stríðið. Einhvers staðar hefur mismunurinn lent. Algengt tímakaup er þó ekki nema rúmlega sex sinnum hærra en þá. Hér hefur því íhaldið sýnt sitt rétta andlit, víggirðinguna um Heiðnaberg, þegar fórna er krafizt af almenningi. En það þarf mikil brjóstheilindi til að þykjast jafnframt vera allra stétta flokkur.

Mundi þá vera leyfilegt að spyrja um trygginguna fyrir því, að gengislækkunin leysi það vandamál, sem alvarlegast er, markaðsleysið í Marshalllöndunum fyrir íslenzkar afurðir?

Í brezkum frystihúsum liggja nú óseld 20 þús. tonn af hraðfrystum fiski, sem svarar til alls þess magns, sem við seldum þeim á síðasta ári, og meira þó, enda hafa Bretar ekki enn þá viljað semja um slík kaup frá okkur á þessu ári fyrir nokkurt verð. Bætir gengislækkunin úr þessu? Til Þýzkalands seldum við í fyrra 65 þús. tonn af ísfiski. Nú hefur þar verið samninganefnd í hálfan annan mánuð. Heyrzt hefur, að í hæsta lagi sé von um 10–15 þús. tonna sölu þangað. Tryggir gengislækkunin okkur markað fyrir hin 50–60 þús. tonnin? Ef svo er ekki, þá sitjum við eftir með aukna verðbólgu án þess að hafa nokkuð í aðra hönd. Og enn hefur enginn af formælendum þessa máls þorað að fullyrða neitt í þá átt.

Þá vil ég að síðustu minnast nokkrum orðum á þessa vantrauststillögu og afstöðu flokkanna, og hvers vegna hún er fram komin. Hún er flutt af Framsfl., en ekki vegna ágreinings um það mál, sem hér liggur fyrir, heldur af öðrum ástæðum. Ríkisstj. hefur sýnt það, að hún er ekki fær um að stjórna landinu, og hlýtur því að falla. Hún hefur þegar verið við völd lengur en eðlilegt er undir slíkum kringumstæðum. Sósfl. hefur tvisvar sinnum boðið Framsókn samvinnu um að fella ríkisstj. og undirbúa samstjórn þessara flokka, sem mundi hafa miklu meiri styrk bak við sig en ríkisstj. hefur. Þessu hefur ekki verið svarað. Þeim, sem fella ríkisstjórn, ber jafnframt siðferðisleg skylda til að mynda nýja. Sósfl. er því enn sem fyrr reiðubúinn til samstarfs við þá aðila, sem kynnu að vilja standa að heiðarlegri stjórnarsamvinnu um lausn þessara mála, sem ekki byggist eingöngu á fórnum þeirra, sem minnst hafa.

En hvernig stendur þá á vantrausti Framsóknar, sem flutt er sama dag og þetta stóra mál, útbýtt á sama fundi? Hæstv. fjmrh. hefur upplýst það, að 2. febr. hafi þessar tillögur verið alveg tilbúnar af hendi íhaldsins, en allur tíminn síðan hafi farið í umræður um málið við Framsókn, og hafi þær farið mjög vinsamlega fram. Undirtektir formanns þingflokks Framsóknar bera það með sér, að ágreiningur er ekki um aðalefni þess. Hann talar að vísu um ýmsar aðrar ráðstafanir og sérstaklega framkvæmdina, og er auðskilið, hvað átt er við með því. Jafnframt samningum um frv. voru þeir að semja um stjórnarmyndun. En Framsókn gerði þá kröfu, að íhaldsstjórnin segði af sér fyrst, gæfist upp, svo að hægt væri að sýna fólkinu fram á, að án Framsóknar yrði landinu ekki stjórnað. Íhaldið var nú ekki alveg á því að láta auðmýkja sig þannig, heldur skyldu samningarnir um stórmálið stranda. Og þegar allt virðist vera að samræmast, stranda þessir samningar allt í einu á persónulegum metnaðarmálum beggja flokkanna. Íhaldið kastar frv. inn í þingið, án þess að um framgang þess sé samið. Eysteinn Jónsson segir, að þetta skapi hernaðarástand í fjármálum okkar, Framsókn flytur vantraust um leið, ekki fyrir málið sjálft, heldur til að koma stjórninni frá, áður en þeir ganga frá samningum um nýja. Þennan leik á að leika, meðan hernaðarástand ríkir í fjármálum okkar að dómi Eysteins Jónssonar.

Hér með vil ég beina þeirri áskorun til Eysteins Jónssonar, sem tala mun hér á eftir, að svara því skýrt og skorinort frammi fyrir þjóðinni, hvort Framsókn ætlar að hefja samninga við Sjálfstfl. að nýju, þegar þessi vantrauststillaga hefur verið afgreidd. Ég beini þeirri áskorun til þeirra, sem þykjast vera málsvarar alþýðunnar í landinu, hvort þetta eigi að verða efndir kosningaloforðanna. Á að sækja föngin í Heiðnaberg stórgróðavaldsins með stjórnarsamvinnu við íhaldið um þetta mál, og kannske einhverjar smáglefsur um verðlagsdóm o. fl. því líkt? Á að heyja stríðið gegn hvers konar fjárplógsstarfsemi í landinu, sem heitið var í haust, með álíka undanhaldi í verzlunarmálunum og Framsókn hefur gert á þessu þingi? Eða koma þeir sér e. t. v. saman um að bæta úr þeirri slysni, sem varð, þegar samningarnir fóru út um þúfur, með því að láta dubba upp óábyrga utanþingsstjórn til að framkvæma óvinsælustu ráðstafanirnar, meðan þeir sjálfir bræða yfir brestina til að taka þráðinn upp að nýju?

Forseti (ÞÞ): Hv. 5. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, hefur nú lokið máli sínu, og hefur hann talað fyrir hönd Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins —, og hefur nú talað í 39 mínútur.

Þá tekur næstur til máls hv. 8. landsk. þm., Stefán Jóh. Stefánsson, og talar hann fyrir hönd Alþfl.

Stefán Jóh. Stefánsson: Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun með þessum orðum mínum gera grein fyrir afstöðu Alþfl. til vantrauststillögu þeirrar, sem fyrir liggur. Ég tel þá rétt í upphafi að víkja nokkuð að aðdraganda til myndunar þeirrar stjórnar, sem nú situr.

Þegar úrslit síðustu alþingiskosninga urðu kunn, leiddi það óhjákvæmilega af þeim, einnig vegna þess, að ráðherrar Framsfl. höfðu tilkynnt, að þeir mundu biðjast lausnar, að ég bæðist lausnar fyrir mig sjálfan og allt ráðuneytið. Það gerði ég 2. nóv. s. l. Í viðtali, sem ég þá átti við Alþýðublaðið 3. nóv., gerði ég grein af minni hálfu fyrir þessu þannig:

„Úrslit kosninganna eru að mínu áliti skref til hægri í íslenzkum stjórnmálum. Þeir flokkar, sem töldu gengislækkun eða stórfellda niðurfærslu kaups og þar af leiðandi rýrnun á kjörum launastéttanna, ásamt minni afskiptum almannavaldsins af viðskipta- og fjárhagsmálum, vera helztu úrræðin til lausnar vandamála, unnu frekar á í kosningunum með þessari yfirlýstu stefnuskrá. Það var því hvort tveggja í senn, að þjóðin vill veita þessum flokkum aukinn stuðning, og eins hitt, að Alþfl. getur ekki að slíkri stjórnarstefnu staðið. Þá sýnist það eðlilegast og rökréttast, að þegar kjósendurnir hafa með atkvæðum sínum tekið ákvörðun um stuðning við flokka með áður nefndum sjónarmiðum, þá eigi þeir sömu flokkar að fá tækifæri til þess að framkvæma kosningastefnuskrá sína með stjórnarmyndun. Kjósendur meta síðan framkvæmdir þeirrar stjórnarstefnu, sem þeir hafa að staðið með atkvæði sínu. Alþfl. fékk ekki það brautargengi, sem hann hafði óskað og vænzt, til þess að standa gegn gengislækkun og stórfelldri kjararýrnun almennings. Hann hlýtur því að draga þá ályktun af kosningunum, að öðrum standi nær en honum að leysa vandann.“

Þannig fórust mér orð í viðtali við Alþýðublaðið 3. nóv. s. l.

Á fundi miðstjórnar Alþfl. og þingflokksins hinn 11. nóv. s. l. voru úrslit alþingiskosninganna rædd, og voru allir á einu máli um, að vegna ólíkra sjónarmiða, er hinir borgaralegu lýðræðisflokkar höfðu annars vegar og Alþfl. hins vegar varðandi dýrtíðarmálin, þá væri það réttast og eðlilegast, að Alþfl. væri hlédrægur í sambandi við stjórnarmyndun. Þá var það og einnig álit þingmanna og miðstjórnar og í samræmi við áður gefnar yfirlýsingar, að Alþfl. gæti ekkert samstarf átt, hvorki beint né óbeint, við kommúnista um ríkisstjórn.

Eins og alkunnugt er, fóru stjórnarmyndunartilraunir fram í nóvembermánuði 1949, og mun ég ekki rekja þær, en ekki tókst að mynda meirihlutastjórn, og var í þess stað horfið að myndun minnihlutaflokksstjórnar Sjálfstfl. Þessi stjórn hóf göngu sína á Alþingi 6. des. s. l. Þá gaf ég af hálfu Alþfl. yfirlýsingu um það, að flokkurinn hvorki styddi hina nýju ríkisstj. né veitti henni hlutleysi. Hins vegar mundi Alþfl. eins og áður miða afstöðu sína einungis við málefnin. Hann mundi fylgja og styðja þau mál, er til heilla horfðu, en berjast eftir mætti gegn þeim málum, er að hans dómi brytu í bága við hagsmuni almennings. Færi það svo eftir stefnu og störfum ríkisstj., hvernig viðbrögð Alþfl. yrðu.

Rétt eftir að núverandi ríkisstj. var mynduð, sendi þingflokkur kommúnista Alþfl. bréf, dags. 9. des., þar sem flokkurinn fór fram á það, að sýndur væri þá þegar vilji þingsins með því að samþ. vantrauststillögu á ríkisstj. En ef það ekki yrði gert, þá legði flokkurinn til, að slíkt vantraust yrði flutt og samþ. í byrjun janúar 1950. Þessu bréfi kommúnista sá Alþfl. enga ástæðu til að svara.

Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar fór Framsfl. að leita hófanna um það hjá Alþfl., að hann ásamt honum samþykkti vantraust á núverandi stjórn. En þá hafði Alþfl. og Framsfl. borizt í hendur sem trúnaðarmál frv. það um gengislækkun, er lagt hefur nú verið fram á Alþingi af hálfu stjórnarinnar. Á fundi þingflokks Alþfl. 10. febr. 1950 var tekin til umræðu fyrirspurn Framsfl. um það, hvort Alþfl. vildi greiða atkvæði með vantrauststillögu á ríkisstj., sem fram yrði borin af Framsfl. þá þegar. Þingflokkur Alþfl. var á einu máli um, að það væri ekki tímabært. Á fundi Alþýðuflokksþingmanna 13. febr. s. l. var að ósk Framsfl. rætt á ný um það, hvort Alþfl. mundi greiða atkvæði með vantrauststillögu, sem Framsfl. hefði þá í hyggju að flytja. Svaraði Alþfl. á sama veg og áður. Þetta svar Alþfl. var í beinu sambandi við yfirlýsingu þá, er ég gaf við myndun ríkisstj. og ég hef hér rakið áður, og þótti flokknum það ekki viðeigandi að samþykkja að greiða atkvæði með vantrauststillögu, þegar hann hafði til athugunar sem trúnaðarmál tillögur stjórnarinnar í dýrtíðarmálunum, áður en þær væru lagðar fram á Alþingi.

Það mun hafa skeð á tímabilinu eftir miðjan síðasta mánuð, að Sjálfstfl. og Framsfl. reyndu að mynda stjórn saman með það fyrir augum að koma sér saman á eftir um lausn dýrtíðarmálanna á grundvelli þeirra tillagna, sem fyrir lágu frá ríkisstj. Talið var, að tilraunir þessar hefðu verið komnar nokkuð langt áleiðis, og útlit var fyrir, að stjórnarmyndun mundi takast. En af hverju sem það stafaði, þá slitnaði upp úr þessum samningatilraunum allskyndilega, og kann ég ekki um það að dæma með vissu, hverjar ástæður voru til þess, en nokkur skýring hefur þó fengizt í ræðum aðalflutningsmanns vantrauststillögunnar hér á undan og einnig í svari hæstvirts utanrrh. hér áðan. Mega kjósendur sjálfir um það dæma, hversu haldgóð þau rök eru, sem þeir fluttu hér, og hverjum var að kenna eða þakka, að ekki tókst sú stjórnarmyndun, sem langt var komin áleiðis.

Eftir að slitnaði upp úr tilraunum hinna tveggja borgaralegu flokka, gerðist samtímis á eftir tvennt: ríkisstjórnin lagði fram frv. um gengislækkun og forustumenn Framsfl. fluttu tillögu um vantraust á núverandi ríkisstj., sem nú liggur fyrir til umræðu.

Frv. ríkisstj. um gengislækkun og fleira var rætt við 1. umr. í neðri deild í fyrradag. Lýsti ég þá afstöðu Alþfl. til þess, og skal ég með örfáum orðum í aðalatriðum lýsa þeirri afstöðu einnig hér.

Ég undirstrikaði það fyrst og fremst, að Alþfl. hefði fram til skamms tíma viljað feta stöðvunarleiðina, eins og gert var um skeið, og það er ekki hans sök, ef sú leið kynni nú að vera lokuð. Þá benti ég í annan stað á, að Alþfl. hefði alltaf talið gengislækkun, ákvarðaða, mótaða og útfærða af andstæðingum hans, bæði hættulega og ótrygga frambúðarlausn. Í þriðja lagi tók ég fram, að Alþfl. teldi ófrávíkjanlegt í samræmi við stefnu sína og uppbyggingu, að samráð yrði haft milli hans og launastéttanna um úrræði, sem gripið væri til, og þau ein úrræði gæti Alþfl. valið, sem verkalýðshreyfingin og launastéttirnar yfirleitt gætu sætt sig við og vildu við una. Ég gat þess þá einnig, að Alþfl. hefði, eftir að hafa haft náið samráð við trúnaðarmenn flokksins í landssamtökum launastéttanna, ákveðið að vera andvígur frv. um gengislækkun. Það er víðs fjarri, sem hæstv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, hélt fram, að það væri vegna keppni við kommúnista. Er það kannske afsakanlegt, að Sjálfstfl. skilji ekki þau sjónarmið, að nauðsyn sé, að verkalýðssamtökin séu með í ráðum og óskir þeirra og skoðanir hafi áhrif.

Ástæðan til andstöðu Alþfl. og trúnaðarmanna hans í launasamtökunum var fyrst og fremst sú, að flokkurinn telur það fullkomna staðreynd, að frv. um gengislækkun mundi skerða verulega kjör launastéttanna, einkum láglaunafólks, og viðurkenning á þessu felst jafnvel í greinargerð hagfræðinganna tveggja með frv. Það var því hægt að slá því föstu, að hér var um að ræða verulega kjaraskerðingu fyrir launafólk í landinu, og vegna þess höfðu verkalýðssamtökin, og Alþfl. var þeim sammála, ótrú á því, að þessi gengislækkunarleið skapaði framtíðaröryggi um fullkomna atvinnu og rekstur atvinnuveganna. Einnig mætti bæta því við, að byrðarnar, sem lagðar eru á herðar landsmanna, eru þyngstar og mestar að því er launastéttirnar varðar, en tiltölulega litlar, ef þá nokkrar, á efnamenn yfirleitt.

Þá hafði Alþfl. það einnig að athuga við hið fram lagða frv., að þar eru engar tilraunir gerðar, er treysta má sem varanlegum úrbótum í viðskipta- og verðlagsmálum, engin leiðrétting á hinu ömurlega ástandi í húsnæðismálum, engin leiðrétting fyrirhuguð í skattamálum, svo sem að hækka hinn of lága persónufrádrátt launafólks, engin ákvæði um tollalækkanir, er nokkru nemur, en aðeins óljósar hugleiðingar um, að til slíks kunni að draga síðar, engar tillögur gerðar um almennan sparnað í rekstri þjóðarbúsins og loks engar tillögur um betri skipulagshætti í atvinnurekstri, svo sem bátaútvegsins o. fl.

Það var bent á það af hálfu Alþfl. við umræðurnar um gengislækkunarfrv. á Alþingi, að það væri ekki flokksins sök, að ekki hefði tekizt að feta stöðvunarleiðina, eins og hann hafði lagt til og vel hafði reynzt í nágrannalöndunum, svo sem Bretlandi og á Norðurlöndum, en íslenzku borgaraflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., raunverulega alltaf verið andvígir og lítt stuðlað að því, að sú leið yrði greiðfær. Og ef Alþfl. hefði haft nægilegan styrk á Alþingi og meðal þjóðarinnar, hefði hann vissulega, eins og komið var, valið aðrar leiðir, sem þó er víst, að mikil1 meiri hluti Alþingis er nú andvígur. Alþfl. hefði fyrir sitt leyti getað talið rétt, eins og málum var komið, að þjóðin hefði tekið í eigin hendur umsjón og framkvæmd alls innflutnings og útflutnings og tekið þannig úr umferð hinn gífurlega verzlunargróða og jafnað á milli verðlags á framleiðsluvörum og innflutningsvörum.

Flokkurinn telur einnig nauðsynlegt að koma á leiðréttingu þeirra mála, er ég nefndi hér á undan, svo sem í húsnæðismálum, skattamálum. tollamálum, auka sparnað í rekstri ríkisins og koma á betra skipulagi í atvinnuvegunum, og þannig mynda nýtt, samstætt heildarkerfi til úrlausnar á aðsteðjandi vandamálum, og þá einnig, og jafnvel í fyrstu röð, áður en til annars yrði gripið, draga úr fjárfestingu og afnema hallarekstur ríkisins.

Alþfl. hefur nú þegar á Alþingi mótað afstöðu sína til þessa máls, eins og allra annarra mála, með fullkominni ábyrgð á afstöðu sinni og andstöðu við gengislækkunarfrv., og mun gera það eitt, sem hann telur heppilegast í bráð og lengd til þess að tryggja sem bezta afkomu Íslendinga. Hann hefur enga löngun til þess að skapa aukinn glundroða og upplausn, en mun að sjálfsögðu standa vel á verði gegn öllu því, sem telja má að kreppi að ófyrirsynju að kjörum manna í landinu og viðhaldi og jafnvel auki misrétti í þjóðfélaginu.

Þannig er afstaða Alþfl. til þessa fyrsta mikilsverða máls, sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi. Og í samræmi við þá yfirlýsingu, er ég gaf, er núverandi ríkisstj. settist að völdum, eru viðbrögð Alþfl. þau nú, að hann er andvígur því frv., sem nú liggur fyrir. Af því leiðir aftur það, að Alþfl. mun nú, af málefnaástæðum eingöngu, greiða atkvæði með vantrauststillögunni, sem til umræðu er.

Ég vil taka það skýrt og greinilega fram, að það er að ýmsu leyti mjög ólíkur rökstuðningur Alþfl. og Framsfl. fyrir fylgi sínu við vantrauststillöguna. Alþfl. er andvígur gengislækkunarfrv. ríkisstj., en af yfirlýsingu þeirri, er hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, gaf á Alþingi við 1. umr. um gengislækkunarfrv., má marka það, að Framsfl. er með gengislækkunarfrv. sem úrræði til lausnar vandamálunum, enda er það í samræmi við stefnuskrá Framsfl. Alþfl. er á móti því að taka þátt í stjórn til þess að koma á gengislækkun. Framsfl. vill og óskar eftir að mynda stjórn með Sjálfstfl. í því skyni að samþykkja gengislækkun.

Ég verð að játa, að vantrauststillagan er fram komin með óvenjulegum og nokkuð andhælislegum hætti. Vantrausti er af Framsfl. hálfu lýst á stjórn til þess strax á eftir að athuga um myndun ríkisstjórnar með þeim sömu mönnum, sem vantrausti er beint gegn. En þó að Alþfl. telji þannig vantraustið flutt með einkennilegum og óvenjulegum hætti, greiðir hann samt atkvæði með því, með þeim röksemdum, sem ég hef rakið og algerlega eru málefnalegs eðlis. Það er vegna andstöðu flokksins við gengislækkunarfrv. stjórnarinnar, og þá einnig og ákveðið án þess að taka á sig nokkra ábyrgð á að koma á nýrri stjórn. Þvert á móti getur Alþfl. ekki tekið þátt í stjórn til að koma á gengislækkun. En gera má ráð fyrir, að Framsfl. telji sér bæði skylt og ljúft að sjá um, að komið verði á meirihlutastjórn til þess að leysa vandamálin, sbr. og bréf það, er hv. þm. Str., Hermann Jónasson, las upp frá flokki sínum til Sjálfstfl., þar sem Framsfl. taldi nauðsynlegt, að meirihlutastjórn ákvarðaði og framkvæmdi úrlausn verðbólgumálanna, og hefur góð hugarfarsbreyting orðið frá því að hv. þm. Str., Hermann Jónasson, reyndi að mynda minnihlutastjórn.

Þá vil ég loks taka það fram, og er það í samræmi við þá ályktun, er miðstjórn og þingmenn Alþfl. gerðu hinn 11. nóv. 1949 og áður hefur verið vitnað til, að Alþfl. mun ekki eiga samstarf við kommúnista, hvorki beint né óbeint, um ríkisstjórn. Var sú afstaða flokksins skýrt mörkuð í kosningaávarpi hans, þar sem segir, að Alþfl. muni aldrei hvika frá lýðræðislegri starfsaðferð og stefnumiðum og geti því ekki átt samleið með neinum flokki, er aðhyllist einræði og ofbeldi, og því geti hann ekki átt samstarf við kommúnista.

Ég vænti þess þá, að ég hafi gert skýra og rökstudda grein fyrir afstöðu Alþfl. til vantrauststillögu þeirrar, sem fyrir liggur, og að sú afstaða flokksins sé í fullu og rökréttu samræmi við áður gerðar yfirlýsingar, stefnu hans og starfsaðferðir.