08.12.1949
Sameinað þing: 9. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3782)

56. mál, tjón bænda vegna harðinda

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi með nokkrum orðum skýra afstöðu fráfarandi ríkisstj. til þessara mála. Þegar sýnt var s. l. vor, að til stórvandræða horfði víða um land, ef nokkur hluti bænda yrði ekki aðstoðaður, þá var það tekið til athugunar, hvort ríkisstj. ætti að hafa bein afskipti af málinu eða fela þau einhverjum öðrum aðila, og var þá ákveðið að fela Búnaðarfélagi Íslands forgöngu þessara mála, enda hafði þá þegar fjöldi bænda leitað um aðstoð til félagsins. Fyrir forgöngu ríkisstj. tókst að útvega á vegum Marshallaðstoðarinnar svo mikinn fóðurbæti, að nægði fram á sumar, en innanlandsaðstoðina tók Búnaðarfélag Íslands að sér, og er ástæða til að segja, að félagið leysti fóðurmiðlunina svo vel af hendi, að þakka ber opinberlega, og má fullyrða, að stórtjón hefði orðið, ef forusta Búnaðarfélags Íslands hefði ekki reynzt eins vel og raun varð á. Einnig komu til kasta ríkisstj. fjárframlög í þessu skyni, og tók ríkisstj. að sér að útvega skip í síðustu ferðina með hey norður, en síðan hefur Bjargráðasjóður greitt þann kostnað. Þá kom í ljós, að ýmsir aðilar höfðu leitað aðstoðar til fjárhagshjálpar vegna afhroðs, sem ýmis byggðarlög urðu fyrir vegna harðindanna. Þótti rétt að beina öllum þeim erindum til Búnaðarfélags Íslands og hafa öll erindi verið send þangað, og hefur félagið haldið uppi einhverri skýrslusöfnun og gert þær athuganir, sem unnt var fram að þessu. Þá hefur ríkisstj. haft samband við stjórn Bjargráðasjóðs, sem hefur tekið málinu vel, og mun stjórn sjóðsins tilbúin að leggja fram nokkra aðstoð, þegar skýrslur liggja fyrir, á þeim grundvelli, sem lög sjóðsins mæla fyrir og fjárhagsgeta leyfir. Málið er því á hreyfingu, en þarf að fá aukinn byr hér á Alþingi til þess að komast í höfn.