01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3825)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Nokkrar tilgátur hafa komið fram um það, hvar landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson muni hafa reist bæ sinn, en þó eru þær tilgátur aðallega tvær. Önnur er sú, að hann hafi reist bæ sinn vestanvert við þar sem nú er Aðalstræti, milli Grjótagötu og Túngötu, og þó nær Grjótagötu. Hin er sú, að hann hafi byggt á Arnarhóli. Óhætt mun að fullyrða, að nær allir eða allir fræðimenn telja fyrri tilgátuna rétta, og hafa ýmsir um það skrifað, svo sem Kálund, Eiríkur Briem, Jón Helgason biskup, Klemens Jónsson og Georg Ólafsson, en allir þessir menn eru á þeirri skoðun, að bær Ingólfs hafi staðið vestan Aðalstrætis. Í Bidrag til historisk-topografisk Beskrivelse af Island telur Kalund, að bærinn hafi staðið fyrir vestan gömlu kirkjuna, þar sem Innréttingahúsin voru seinna reist í Aðalstræti. Eiríkur Briem segir í ritgerð í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1914 m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Viðvíkjandi því, hvar bær Ingólfs hafi staðið, má geta þess, að í byrjun 18. aldar var Reykjavíkurbær, ásamt fjósi og heygarði, vestur af gamla kirkjugarðinum. Hefur það því verið vestan við Aðalstræti sunnanvert, milli Túngötu og Bröttugötu; norðar hefur hann eigi getað verið, því að þar ofan til var langt fram á 19. öld stórgrýtisurð, er Einar Hákonarson hattari lét sprengja og ryðja, og að líkindum hefur urðin upphaflega náð alla leið niður að Aðalstræti, því að eigi var þar hús byggt fyrr en eftir 1788, þótt samanhangandi húsaröð væri þá komin þar bæði fyrir norðan og sunnan. Suður fyrir Túngötu hefur bærinn ekki getað náð, meðal annars af því, að á hinum ágæta uppdrætti af Reykjavík 1801, sem dr. Kålund hefur látið prenta í Hist. topogr. Beskrivelse af Island I. 12, er eigi annað að sjá en að þar hafi verið óhreyfð jörð. Það eru heldur engar líkur til, að bærinn hafi staðið annars staðar.“ Og enn segir Eiríkur Briem: „Þegar grafið hefur verið vestan við Aðalstræti sunnanvert, hefur það komið í ljós, að þar eru miklar veggjamoldir.“ Og enn fremur: „Fyrir stórbýli, eins og Reykjavík jafnan var, var áríðandi að vera í nánd við gott og áreiðanlegt vatnsból ... eina uppsprettan, sem aldrei þraut og alltaf var hægt að komast að, var uppsprettan hjá húsinu Suðurgötu 11, og þangað var eigi langt að sækja vatn frá Aðalstræti sunnanverðu (um 150 m.), en óhentugt hefði verið, að bærinn hefði verið lengra frá vatnsbólinu. Það er eigi ólíklegt, að Suðurgata hafi upphaflega verið stígur frá eldhúsdyrum suður að uppsprettunni, Aðalstræti hafi þá verið gata frá bæjardyrum (hlaðinu) norður að sjónum, og þaðan stafi það, að þær standast eigi á.“ Er hér um merkilega og snjalla tilgátu að ræða. Jón Helgason biskup segir m. a. í ritgerð um Reykjavík 14 vetra í Safni til sögu Íslands, V. bindi, að bær Ingólfs hafi staðið undir Grjótabrekkunni að austan og vestur frá gamla kirkjugarðinum norðanverðum. Hann segir, að vestasta húsið í gamla bænum hafi verið þar, sem nú er Grjótagata 4. Þar var enn hús, sem kallað var Skáli, þegar Innréttingarnar voru reistar. Þetta er nokkurn veginn sama staðarákvörðun og hjá Eiríki Briem. Klemens Jónsson segir m. a. í Sögu Reykjavíkur I. bindi (með leyfi hæstv. forseta): „Það má teljast ábyggilegt, að bærinn Reykjavík hafi frá upphafi staðið rétt fyrir sunnan Grjótagötu. Að minni ætlun hafa bæjarhúsin frá upphafi staðið frá norðri til suðurs rétt vestan við Aðalstræti, eða þar sem nú eru húsin 14 og 16.“ Þar er nú auða svæðið. Klemens skrifar 1929, þegar enn er byggt þarna. Enn fremur segir Klemens: „Ræð ég þetta af því, að vafalaust hefur verið nokkurt bil milli bæjarhúsanna og kirkjugarðs, eins og venja er til, þar sem ég þekki. Þess skal getið, að þegar grafið var fyrir gasæðum hér um árið, þá kom upp mikil aska á lóð hússins nr. 12, og gæti það bent á, að eldhúsið hafi verið í norðurenda bæjarins, enda þaðan örstutt í vatnsbólið, sem vafalaust hefur verið á sama stað (verksmiðjupósturinn) frá landnámstíð, því að Skúli landfógeti getur þess í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, að brunnurinn sé nefndur Ingólfsbrunnur eftir Ingólfi frumbúa Reykjavíkur. Þetta vatnsból dugði kaupstaðnum æði lengi, hvað þá heldur einu býli eða fáum. Það er líka bert af uppdrætti af Hólminum 1715, að bærinn hefur þá staðið fyrir vestan kirkjugarðinn.“ Aðalstræti 12. þar sem askan kom upp. er á horninu á Aðalstræti og Grjótagötu, næst fyrir norðan óbyggða svæðið. Klemens og hinum kemur því eiginlega alveg saman um bæjarstæðið.

Það, sem á milli ber lítillega, er um það, hvernig bæjarhúsin hafi snúið og hvert vatnsbólið hafi verið. Georg Ólafsson segir m. a. í ritgerð í Þættir úr sögu Reykjavíkur (með leyfi hæstv. forseta): „Það má telja líklegt, að bæjarhúsin í Reykjavík hafi þegar á dögum Ingólfs staðið í vesturjaðri Aðalstrætis um það bil, er Grjótagata byrjar. Bæjarvörin hefur verið vestast í fjörunni, þar sem síðan var kallað Grófin, og hefur sjávargatan því legið þar, sem nú er Aðalstræti. Gera má ráð fyrir, að einmitt þar hafi fyrst myndazt troðningur eða gata, og þá líkur til þess, að Aðalstræti sé elzta gatan í Reykjavík og þá einnig elzta gatan á öllu landinu.“

Um hina tilgátuna, að bær Ingólfs hafi staðið á Arnarhóli, er það að segja, að hún er nú almennt talin úrelt og hefur enga stoð fræðimanna. Um þetta segir t. d. Ólafur Lárusson í Byggð og saga, bls. 85: „Hafa sumir talið, að hann (Ingólfur) hafi búið á Arnarhóli, en aðrir að hann hafi búið í Reykjavík. Ég skal eigi fjölyrða um það mál. Síðarnefnda skoðunin er tvímælalaust hin rétta, enda styðst hún við orð Ara fróða í Íslendingabók, I. kap., og inngang Landnámu, IX. kap., en báðar þessar heimildir segja berum orðum, að Ingólfur hafi búið í Reykjavík.“ Þá var Arnarhóll sérstök jörð, alveg greind frá Reykjavík. — Ég hef nú vitnað í 6 valinkunna fræðimenn, sem telja allir, að bær Ingólfs Arnarsonar hafi staðið vestan Aðalstrætis, nálægt Grjótagötu. Ef svo er, getur ekki leikið vafi á því, að þar er hjarta Reykjavíkur og merkasti sögustaður hennar og einn merkasti sögustaður landsins. Ef svo er, hlýtur það að teljast eðlilegt, að sú lóð komist í opinbera eign og að helgi staðarins verði sómi sýndur. Til þess hefði átt að gera ráðstafanir miklu fyrr, en úr þeirri miklu vanrækslu er þó enn ekki of seint að bæta, og tel ég sjálfsagt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að þessi staður komist í eign ríkisins, ef bæjarstjórn Reykjavíkur hefur móti vonum ekki áhuga á að taka staðinn í sína eign. Það er mín skoðun og raunar miklu fleiri manna, að þarna sé tilvalinn staður fyrir ráðhús Reykjavíkur, og þótt náttúrlega megi deila um það, hvar ráðhús eigi að standa, þá tel ég þennan stað hæfastan þar til vegna helgi sinnar. — Eftir að við 4. þm. Reykv. fluttum þessa till., var mér bent á, að fyrir 12 árum hefði svipuð till. komið fram á Alþingi, en árið 1937 fluttu þeir Ásgeir Ásgeirsson, Jakob Möller, Stefán Jóh. Stefánsson og Bergur Jónsson till. til þál. um ráðstöfun á bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar fyrir þjóðminjasafn, eða aðra opinbera byggingu, o. fl. Till. hljóðar svo: „Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina:

1. Að leita samvinnu við bæjarstjórn Reykjavíkur um rannsókn á því, hvað kosta mundi að taka til opinberrar ráðstöfunar, með samningum, forkaupsréttarákvæðum eða eignarnámi svæðið vestanhallt við Aðalstræti í Reykjavík, þar sem ætla verður, að Ingólfur Arnarson hafi reist bæ sinn. 2. Rannsóknin sé miðuð við það: a. að tekið verði allt eða mestallt svæðið milli Túngötu, Aðalstrætis, Brattagötu og Garðastrætis; svo og kirkjustæðið austan Aðalstrætis, eftir því sem ástæða þætti til. b. að svæðið verði algerlega friðað sem fyrst, eða nokkur hluti þess, enda sé stefnt að því að gera síðar meir nákvæmar rannsóknir á sögulegum minjum á svæði þessu, og jafnóðum, að því leyti sem nauðsyn kann að vera að gera jarðrask á svæðinu. 3. Að láta athuga, hvernig vegleg framtíðarbygging fyrir þjóðminjasafn Íslands, eða önnur opinber bygging, t. d. ráðhús fyrir Reykjavík, væri bezt sett á þessum stað, og hvernig að öðru leyti mætti ganga frá þessu svæði á viðeigandi hátt, í samræmi við söguhelgi staðarins og framtíðarskipulag Reykjavíkur á þessum slóðum. 4. Að láta einnig rannsaka, í nánara samráði við bæjarstjórn Reykjavíkur, hvað kosta mundi og hversu henta þætti að taka á sama hátt allt svæðið norður að Vesturgötu fyrir opinberar byggingar og til endurbygginga eftir nýju skipulagi. 5. Að láta rannsaka sérstaklega, hvort hentugra væri, að hús þau, sem nú eru á þessum svæðum, væru látin standa að einhverju eða öllu leyti, meðan þau endast, eða hvort hagfelldara væri að rifa þau sem fyrst og ráðstafa lóðunum til nýrra varanlegra bygginga eftir hagkvæmu skipulagi. 6. Að leggja niðurstöður rannsóknarinnar og væntanlegar tillögur fyrir næsta Alþingi.“

Í grg. segir m. a.: „Engin menningarþjóð önnur mundi vera eins tómlát og Íslendingar hafa verið um það, að í sjálfum miðbænum í höfuðborg okkar er bæjarstæði hins fyrsta og frægasta landnámsmanns á Íslandi. Hvarvetna annars staðar mundi hafizt handa til að halda uppi minningunni um slíkt á fagran og viðeigandi hátt. Þetta ber að gera, ekki einasta fyrir óbornar kynslóðir þjóðarinnar sjálfrar, heldur og vegna útlendra gesta, sem hingað koma, til þess að vekja athygli þeirra og áhuga fyrir sögu lands og þjóðar. Hér við bætist, að enginn landnámsmannanna er íslenzku þjóðinni eins hugfólginn og kær eins og Ingólfur Arnarson; þjóðin hefur litið á hann sem eins konar allsherjar ættföður sinn og hinn raunverulega og ógleymanlega upphafsmann að byggð landsins. — Reykvíkingar sýndu á sínum tíma minningu Ingólfs mikinn sóma, þegar Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík gekkst fyrir því, með nokkurri almennri þátttöku, að reist var á Arnarhóli hin fagra Ingólfsstytta eftir Einar Jónsson. — Höfuðtilgangurinn með þessari tillögu er sá, að gæta þeirrar söguhelgi, sem allri þjóðinni, og Reykjavík einnig sérstaklega, er skylt að vernda í sambandi við minninguna um landnám Ingólfs. — Hins vegar er hin hagnýta hlið þessa máls. Skipulag Reykjavíkur á þessum slóðum er svo bágborið og úr sér gengið, að bót verður á að ráða sem allra fyrst. Bæinn vantar einnig hentug svæði fyrir opinberar byggingar. 4. liður till. miðar einkum að því, að ríkið og Reykjavíkurbær gætu hér tekið höndum saman um þjóðlegt menningarmál öðrum þræði, en hins vegar aðkallandi nauðsynjamál í framkvæmdum Reykjavíkurbæjar.“ Till. þessi mun hafa verið samþ., en því miður án þess að úr framkvæmdum hafi orðið samkvæmt henni, og harma ég það mjög, því að ef þá þegar hefði verið hafizt handa skv. efni till., þá hefði hið opinbera fyrir lítið fé getað eignazt þessar lóðir, sem nú eru tugmilljóna króna virði. Það voru því alvarleg mistök, að till. var ekki framfylgt, eins og Alþingi ætlaðist til, og má nú ekki dragast, að úr því verði bætt, því að þótt 12 ár séu síðan hún var samþ., þá er þetta svæði enn þá byggt gömlum húsum og ekki dýrum né til frambúðar, svo að það ætti ekki að þurfa að hafa ókleifan kostnað í för með sér að hrinda af stað þeim framkvæmdum, sem hæfa helgi þessa staðar. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að hv. Alþingi sjái sér fært að taka þessari till. með vinsemd, og legg til, að till. verði vísað til hv. allshn.