13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (3837)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég varð mjög forviða á ræðu hæstv. dómsmrh. og þeirri hótfyndni — ég leyfi mér að segja ómerkilegu hótfyndni — sem þar kom fram. Hæstv. dómsmrh. reyndi að telja hv. þdm. trú um, að það væri ekki rétt mál á fyrstu málsgr. till., en hún er svo orðuð, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita um það álits sérfróðra manna, hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Grjótaþorpinu, eða um það bil þar, sem nú stendur húsið Grjótagata 4.“ Ég er alveg forviða, að hæstv. ráðh. skuli geta komið fram með þá fullyrðingu, að það sé málfræðilega eitthvað við þetta orðalag að athuga. Ég vænti, að hæstv. ráðh. og aðrir geti skilið, að sé einhver t. d. í vafa um það, hvort tiltekinn þm. hafi komið inn í deildina, þá geti hann spurt, hvort sem hann vill: Hefur þm. komið inn í deildina? eða: Hefur þm. ekki komið inn í deildina? Báðar spurningarnar eru málfræðilega réttar. En það er svolítill efnismunur á þessu tvenns konar orðalagi. Það er á því nokkur blæmunur. Ef ég spyr t. d.: Hefur hv. þm. komið inn í þingsalinn, þá gefur orðalagið til kynna, að ég búist við því, að svarið verði annaðhvort já eða nei, ekkert frekar annaðhvort, en ef ég spyr: Hefur hv. þm. ekki komið inn í þingsalinn? Þá liggur það í orðalaginu, að ég býst frekar við jákvæðu svari. Þetta á hverjum manni með barnaskólamenntun í íslenzku að vera ljóst, og þykir mér undarlegt, ef það vefst eitthvað fyrir hæstv. utanrrh. Um það er ekki ágreiningur, að það er blæmunur á þessu tvennu, en það er fullkomlega út í bláinn að segja, að báðar setningarnar séu ekki málfræðilega réttar. Ég orðaði einmitt þessa setningu svona — en ég samdi þennan hluta till., — vegna þess, að ég býst frekar við jákvæðu svari, sem sé að bæjarstæði Ingólfs sé á þessum stað. En það er til þess ætlazt, að gangur málsins sé sá, að fyrst sé leitað álits sérfræðinga um það, hvort bæjarstæðið hafi verið þarna eða ekki. Ef það er álit þjóðminjavarðar og annarra sérfræðinga, að það sé líklegt eða jafnvel fullvíst, að bæjarstæðið hafi verið þarna, þá er eðlilegt, að efnt verði til uppgraftar á lóðum, t. d. á lóðinni Grjótagötu 4. Ef þá kemur í ljós, að þar séu rústir hins forna bæjar, þá liggur það í augum uppi, að kaupa verður fleiri lóðir þar í kring, því að eins og vitað er og forminjavörður hefur bent á, þá væru bæjarhúsin það stór, að rústir þeirra ættu að vera undir fleiri en einni lóð. En eðlilegt er að efna ekki til framkvæmda nema sérfræðingar vilji taka á því ábyrgð, að þarna sé til einhvers að grafa. Komi í ljós, þannig að tvímælalaust sé, að bærinn hafi staðið þarna, þá verður vonandi ekki um það ágreiningur, að kaupa beri þarna allstórt svæði. Hæstv. utanrrh. mun ekki hafa verið við, er fyrri umr. fór fram um þetta mál — ég dreg þá ályktun af ræðu hans. Þá gerði ég ýtarlega grein fyrir rökum fræðimanna um það, hvar bærinn hafi staðið, en ég vildi í því efni engu slá föstu, heldur áleit ég, að leita bæri álits fræðimanna, t. d. forminjavarðar. Hann telur, samkvæmt því, sem hann hefur látið í ljós við n., að það sé líklegt, að þarna hafi bærinn staðið, en það er eðlilegt að snúa sér til fleiri fræðimanna, áður en efnt er til uppgraftar þarna. Hæstv. utanrrh. vildi, að í till. væri heimild til eignarnáms fyrir ríkisstj. Við ræddum þetta nokkuð okkar á milli, flm., en okkur kom saman um, að ekki væri rétt að fara fram á eignarnámsheimild á þessu stigi, heldur ætti ríkisstj. fyrst að leitast við að ná frjálsu samkomulagi við eigendur lóðanna, en ef það næðist ekki, þá væri eðlilegt, að ríkisstj. leitaði eignarnámsheimildar hjá Alþingi, og til þess er vissulega nægur tími. Við vildum og síður nefna eignarnámsheimild, til þess að ekki væri hægt að segja, að farið væri á stað með neinu offorsi, enda er alltaf opin leið til að fá þá heimild, ef almennir samningar takast ekki. Mér kom fyrst í stað mjög á óvart málflutningur hæstv. utanrrh., en er ég hugleiddi málið, varð mér skiljanlegra, hvers vegna hann hefur horn í síðu þessarar till., og kom hv. frsm. raunar inn á þetta, en svo er mál með vexti, að fyrir 13 árum, eða árið 1937, var á Alþingi flutt till. um nálega alveg sama efni og þessi till., eða þess efnis, að samstarf yrði milli ríkisstjórnar og bæjarstjórnar um að hrinda í framkvæmd því sama og um getur í till. okkar. Flutningsmenn þessarar till. voru Ásgeir Ásgeirsson, Jakob Möller, Stefán Jóh. Stefánsson og Bergur Jónsson, og í henni var sem sagt gert ráð fyrir því, að ríkisstj. og bæjarstj. Reykjavíkur hefðu með sér samvinnu og létu rannsaka, hvað kosta mundi að kaupa lóðirnar á öllu þessu svæði, eða nánar tiltekið milli Túngötu, Aðalstrætis, Brattagötu og Garðastrætis, og svo kirkjustæðið austan Aðalstrætis. Í þessu máli var svo ekkert gert, þrátt fyrir þessa samþykkt Alþ., og á því ber náttúrlega ábyrgð þáv. hæstv. ríkisstj. og ekki þó síður bæjarstjórn eða bæjaryfirvöld Rvíkur, sem hafa látið það viðgangast, að þessu merkilega máli væri ekkert sinnt, en eftir að þessi till. var samþ., varð hæstv. utanrrh. borgarstjóri í Reykjavík. Sú vanræksla, að ekki var þegar hafizt handa um að koma þessum lóðum í opinbera eign, hefur óbeint skaðað bæjarsjóð um milljónatugi, ef marka má ummæli glöggs fjármálamanns, hv. þm. Barð. Þess vegna er tónninn í ræðu hæstv. utanrrh. eins konar samvizkubit út af því að hafa ekki staðið sig betur í þessum málum, meðan hann var borgarstjóri, en orðið til þess, að þær ráðstafanir, sem fyrr eða síðar hljóta að verða gerðar, koma til með að verða tugum milljóna dýrari en ella.

Út af ummælum hv. þm. Borgf. um, að till. væri óþörf, vegna þess að samkvæmt áætlun skipulagsyfirvalda bæjarins ætti að reisa þarna fagrar og miklar byggingar, þá tek ég undir það, sem hv. frsm. sagði, að það skiptir miklu máli, hvers konar byggingar þetta eru. Það er ekki nóg, að þær séu fagrar og reisulegar, heldur þurfa þær að samsvara helgi staðarins, en ég tel það t. d. ekki samsvara helgi staðarins, að þarna yrði reist fagurt verzlunarhús eða samstæða verzlunarhúsa. Þarna, á þessum mjög merka stað, eiga að koma opinberar byggingar, eða þar á að vera autt svæði með minnismerki Ingólfs Arnarsonar, og fleira kæmi til greina, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér. Það er fullkominn misskilningur hjá hv. þm. Barð., að till. sé flutt til skemmtunar eða gamans. Hér er um að ræða mikið menningarmál, sem m. a. sést af því, að Alþingi sá fyrir 13 árum ástæðu til þess að samþykkja svipaða till.