26.04.1950
Sameinað þing: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3846)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. (BBen) flutti hér 2 mjög óvenjulegar ræður, þegar þetta mál var til umræðu síðast. Í ræðum sínum staðhæfði utanrrh. meðal annars, að málfarið á þessari till. væri beinlínis rangt, svo rangt, að ekki kæmi til greina, að Alþ. samþykkti till. þegar af þeirri ástæðu. Hér er um svo óvenjulega staðhæfingu að ræða, að ég sé ekki annað fært en að fara um þetta örfáum orðum. Ráðh. mun vafalaust hafa ætlað sér að hirta mig sérstaklega með þessum aðfinnslum sínum, en gáði ekki að því, að höggin lenda einnig á allri allshn. Sþ. og þar með þrem ágætum flokksbræðrum hans, sem allir eru mjög vel að sér í íslenzkri tungu, en þeir höfðu afgreitt till. og mælt með henni athugasemdalaust, án þess að sjá nokkuð við málfar hennar að athuga. Við því var heldur ekki að búast, enda tók enginn þm. undir þessar aðfinnslur ráðh., sem ekki var heldur von, því að bókstaflega allt, sem ráðh. sagði um þetta mál, var fullkomlega út í bláinn. Er hér um að ræða mjög óvenjulegt frumhlaup, og sé ég ekki ástæðu til annars en að vekja nokkra athygli á því. Ég man ekki eftir, að það hafi nokkurn tíma áður verið gert veður út af málfari þingskjals, enda yfirleitt engin ástæða til þess. Þm. eru það vel máli farnir, að gengið hefur verið sómasamlega frá þskj., sem auk þess hafa verið yfirfarin af skrifstofunni. Ráðh. sagði, að það væri rangt mál að segja eins og komizt er að orði í upphafi till.: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita um það álits sérfróðra manna, hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst, að bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Grjótaþorpinu, eða um það bil þar, sem nú stendur húsið Grjótagata 4.“ Hann sagði, að það væri rangt að hafa neitun í þessari setningu, „hvort eigi megi telja líklegt eða fullvíst“, og taldi, að með þessu væri verið að staðhæfa, að bæjarstæðið hafi ekki verið á þessum stað. Hann virðist vera á þeirri skoðun, að neitun í beinni eða óbeinni spurnarsetningu snúi merkingu setningarinnar við. En þetta er mikill misskilningur. Það er alþekkt lögmál, að spurt sé með neitun í beinni eða óbeinni spurnarsetningu, og breytist merking spurningarinnar í engu við það. Ef maður er spurður: Hefur þú gert þetta —, og hann hefur ekki gert það, segir hann nei. En það hefði líka eins mátt spyrja: Hefurðu ekki gert þetta - og er þá yfirleitt búizt við jákvæðu svari —, og ef maðurinn hefur ekki gert það, segir hann nei, þó að spurt sé með neitun. Athugasemdir hæstv. ráðh. eru því fullkomlega út í bláinn. Sé málfar till. rangt eða ambögulegt, þá hafa bæði höfundur Njálu og Jón Árnason þjóðsagnaritari skrifað rangt eða ambögulegt mál. Ég gerði það að gamni mínu að blaða í Njálu til þess að athuga, hvort ekki væri þar einhvers staðar tekið til orða hliðstætt því, sem gert er í till. og hæstv. ráðh. telur rangt. Og ég þurfti ekki að lesa lengi. Þegar Gunnar afræður, að þeir Kolskeggur skuli ríða til heimboðs í Tungu til Ásgríms Elliðagrímssonar, segir: „„Skal nú ekki orð gera Njálssonum?“ sagði Kolskeggur. „Ekki,“ sagði Gunnar. „Eigi skulu þeir hljóta vandræði af mér.““ Höfundur Njálu lætur Kolskegg spyrja með neitun í spurningunni. Sú neitun snýr ekki við merkingu setningarinnar, og þess vegna lætur hann Gunnar svara eins og hann gerir, það er neitandi, fyrst hann vill ekki, að Njálssonum séu gerð orð. Mig langaði og til að finna hliðstætt dæmi úr síðari tíma bókmenntum og leit því í Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Þar segir á einum stað: „Eitt sinn spyr kaupamaður ekkjuna, hvort bóndi hennar hefði eigi átt mikla peninga.“ Svarið: „Hún kvað svo vera“ þýðir auðvitað, að bóndi hennar hafi verið ríkur, enda var svo, en ekki að hann hafi ekki verið ríkur, eins og hæstv. ráðh. virðist halda. Hér eru því tvö dæmi úr fornum og nýjum bókmenntum, sem sýna, að málið á till. er rétt, en að hæstv. ráðh. hefur annaðhvort orðið á furðuleg fljótfærni eða þá að hann er verr að sér en ég hefði haldið. Hæstv. ráðh. ætti því að læra af þessu að gagnrýna ekki málfar þm. Hann er ekki fær um það. Hann ætti og að stilla betur skap sitt og gæta betur orða sinna en hann hefur gert hér, þar sem hvert orð hans er blaður og fjarstæða.

Ég hef þó haft fregnir af einni þjóð, sem hugsar í þessum efnum eins og hæstv. ráðh. virðist gera, en það eru Japanir. Í málum allra vestrænna þjóða gildir sú regla, að sé spurt: „Hefurðu gert það“ og sá, sem spurður er, hefur ekki gert þetta, þá svarar hann með nei, og alveg eins þó spurt sé: Hefurðu ekki gert það? Hann svarar líka með nei. En þessu er öðruvísi farið með Japani. Sé Japani spurður: Hefurðu ekki gert það? og hafi hann ekki gert það, lætur hann neitunina í spurnarsetningunni ráða og segir já. Það var einu sinni hent mikið gaman að þessu í Bandaríkjunum, er þau áttu í samningum við Japani, og sagt, að það væri óvarlegt að semja við þjóð, sem segði já, þegar aðrir segðu nei, og öfugt, en það hefur hent hæstv. utanrrh. að segja já, þegar aðrir Íslendingar segja nei, og öfugt, og það er nokkuð langsótt að hugsa upp á japönsku til að geta snúið út úr fyrir öðrum þm. Ég skal ekki ásaka hæstv. ráðh., því að það er mannlegt að skjátlast, en hér skjátlaðist honum herfilega, og það hefði vissulega verið skemmtilegra fyrir hann að hafa um þetta færri og smærri orð, þegar ekki stendur steinn yfir steini í málfræðikenningu hans. Ég hef nú orðlengt svo um þetta af því, hve tildrög málsins voru óvenjuleg og öll gagnrýni hæstv. ráðh. út í bláinn.

Út af brtt. í þskj. 590 vil ég segja það, að þær breyta eðli málsins, því að þær gera ráð fyrir, að fyrri hlutinn verði samþ., en síðari hlutinn felldur. Í þessu sambandi vil ég láta þess getið, að eitt af því, sem hæstv. ráðh. hafði út á till. á þskj. 262 að setja, var, að hún færi fram á að láta rannsaka, hvort bæjarstæðið væri ekki þarna, en hæstv. ráðh. sagði, að öllum væri kunnugt, að bæjarstæðið væri á þessum stað í Grjótaþorpinu, en nú gerist það, að tveir merkir flokksbræður hæstv. ráðh. koma með till., sem ekkert annað felst í, en þetta verði rannsakað, enda sagði hv. 5. þm. Reykv., að vafi léki á þessu, en hæstv. ráðh. taldi þetta vafalaust, svo að nokkuð ber þar á milli. En öll skynsamlegustu rökin í málinu mæla með, að bæjarstæðið hafi verið þarna, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, en ég taldi ekki rétt, að Alþ. slægi slíku föstu, heldur leitaði álits sérfróðra manna í þessu efni. Þjóðminjavörður telur nær fullvíst, að bærinn hafi staðið þarna, og svo er um fleiri fræðimenn. Ef þetta reynist rétt, á staðurinn að vera í opinberri eign, svo að hann verði notaður í samræmi við helgi sína.