15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

109. mál, Helicopterflugvél

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Mig undrar þessi svör hv. form. fjvn., því að mér er kunnugt, að meiri hluti n. er því fylgjandi, að vélin sé keypt, og hefur því allt aðra skoðun á þessu máli, en hv. form. n. En það var vegna þess, að n. var klofin, að ég vildi ekki taka ákvörðun um það sem ráðh. að binda ríkinu þennan bagga, þó að meiri hl. n. væri með því. Ég taldi rétt, að Alþ. tæki þessa ákvörðun. Það er því einkennilegt að heyra því lýst yfir, að það sé rusl, er meiri hluti n. hefur óskað eftir og hlutazt til um, að keypt yrði. En ef þetta er vilji n., þá þarf það að koma fram. Það nægir ekki, að mér séu kunnugar skoðanir einstakra nm. Málið verður að fá formlega afgreiðslu í n., og hvorki ég né fyrrverandi ráðh. hafa sent n. málið til umsagnar, heldur Alþ. — Ég réð því ekki, að málið var tekið fyrir, er n. var burtu, en það ætti ekki að vera mikill skaði, þar sem málinu var vísað til n. Það er engin launung, að meiri hl. n. hefur lagt það til, að rekstur vélarinnar verði kostaður af ríkissjóði. Það eru bara tveir á móti, form. og annar. Einn sat hjá, en ég hygg, að hann sé málinu hlynntur, annars hefði hann ekki lagt til, að ríkið tæki á sig byrði í þessu sambandi, þó að hann vildi ekki, að það væri eins mikið og ráðgert er. Það verður því ekki annað séð, en að meiri hlutinn sé málinu hlynntur. — Þetta er svo mikið mál, að ég taldi rétt, að Alþ. tæki ákvörðun um það, og þess vegna flutti ég till. Mér finnst ekki til mikils mælzt, að n. láti í ljós álit sitt, svo að Alþ. geti kveðið á um þetta.