11.01.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3998)

78. mál, skipun læknishéraða

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. upplýsingarnar. Þegar rætt var um frv. til l. um breyt. á skipun læknishéraða, upplýsti hv. 1. þm. N-M., að fyrir störf sín í n. hefði Gunnar Thoroddsen fengið 2.000 kr. greiddar fyrsta árið. Mér skilst þá á nýfengnum upplýsingum, að hér hafi verið farið rangt með af hv. þm. Vænti ég þess, að hann fái tækifæri til að leiðrétta þessi ummæli sín um hv. 7. þm. Reykv., og er það þó eigi nema brot af því, sem leiðréttingar þarf á varðandi þann góða mann.

Ég þakka hæstv. ráðh. að öðru leyti og vænti þess, að honum megi takast að fá nefndina til að skila áliti fljótt. Er beðið eftir till. frá henni í sambandi við það mál.