03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (4060)

149. mál, ráðstöfun tíu togara

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Ástæðan til þess, að ég hef borið fram þessa fyrirspurn til ríkisstj., er sú, að fyrir skömmu auglýsti ríkisstj. eftir tilboðum í þá 10 togara, sem nú eru í smíðum í Englandi. Nú er sá tími liðinn, sem veittur var til að skila tilboðum, og ég tel mjög æskilegt, að Alþ. fengi upplýsingar um, hvaða horfur eru í þessu máli, eftir að þau liggja fyrir. Enn fremur er, eins og hv. þm. vita, frv. á ferðinni í þinginu, stjfrv., sem er um heimild til kaupa á þessum togurum. Mun það frv. enn þá vera í hv. Ed. Ég álít, að það væri heppilegt, að það fengjust um leið upplýsingar um og hæstv. ríkisstj. skýri frá því, hvað hún hugsar um þetta fyrir sitt leyti og hvort nokkrar ráðstafanir verði gerðar, áður en frv., sem fyrir liggur um þetta efni, hefur verið afgreitt. Mér skilst, að í raun og veru sé það ekki hægt, vegna þess að þetta frv. felur í sér viðbótarlánsheimild til þess að standa undir togarakaupunum, svo að það er óhjákvæmilegt að afgreiða það, áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar um að ráðstafa þessum tíu togurum. Hins vegar er það vitað, að komið hafa fram margar hugmyndir um það, vegna fjárhagserfiðleikanna í sambandi við kaup togaranna, hvernig hægt væri að reka þá hér, t. d. um það, að ríkið ræki þá eða ríkið léti bæjarfélögum eða einstaklingum þá í té með góðum kjörum. Ég held þess vegna, að þm. leiki yfirleitt ákaflega mikill hugur á að vita, hvað ríkisstj. hugsar sér að gera við togarana og hvernig hún hugsar sér að ráða fram úr þeir erfiðleikum, sem skapazt hafa í sambandi við kaup þeirra.