10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (4081)

155. mál, lán Búnaðarbankans af gengishagnaði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Til þess að komast að niðurstöðu um það, hver sé nettógjaldeyrishagnaður bankanna, þarf að vera lokið öllum viðskiptum, sem til greina koma og þar að lúta, og hef ég beðið um skýrslur varðandi þetta mál, en ekki enn þá fengið endanleg gögn um það, heldur með fyrirvara um, að þetta geti breytzt eitthvað, þegar lokaskilagrein verður lögð fyrir ráðuneytið. Sá fyrirvari er hafður hjá báðum bönkunum. Enn fremur getur verið hér um að ræða nokkurt vafaatriði, þó að það sé ekki stórt. Mér virðist, að þessir liðir muni nema 16–18 millj. kr. og verði a. m. k. ekki undir 16 millj. kr. Ég hygg þetta varlega tiltekið. Gengishagnaðurinn hefur enn ekki verið afhentur ríkissjóði, en ég geri ekki ráð fyrir, að nein fyrirstaða verði á því, að afhending hans geti farið fram og fari fram alveg á næstunni og honum verði þá skilað í þá staði, sem hann á að fara í samkv. lögum. Ég get ekki skilgreint þetta nánar nú, en ég hygg, að óhætt sé að segja, að þetta muni leika á þessum tölum, að gengishagnaðurinn geti ekki orðið undir 16 millj. kr., eða 16–18 millj. kr.