10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (4086)

906. mál, byggingarkostnaður síldarverksmiðja

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Út af þessari fyrirspurn hef ég snúið mér til Síldarverksmiðja ríkisins, sem hafa sent bréf, dags. 10. maí, en þar segir svo:

„Hinn 5. maí 1947 var hrl. Guttormi Erlendssyni og hrl. Ragnari Ólafssyni falin endurskoðun á reikningsskilum byggingarnefndarinnar, og skiluðu þeir skýrslu um endurskoðunina 18. okt. 1948. Þessi endurskoðun var einungis reikningslegs eðlis, og ákvað stjórn S. R. því einnig að fela þrem mönnum úr stjórninni, þeim Erlendi Þorsteinssyni, Júlíusi Hafsteen og Jóni Kjartanssyni, að yfirfara reikninga, skjöl og skilríki byggingarnefndarinnar. Skilaði þessi undirnefnd verksmiðjustjórnar skýrslu um endurskoðun sína hinn 14. des. s. l.

Til endanlegrar afgreiðslu hefur ríkisstj. ekki borizt þessi skýrsla, og hef ég þess vegna ekki frekari upplýsingar að gefa á þessu stigi málsins. Ég get þess vegna ekki svarað því, hvort radiogrammófónninn, sem hv. 1. fyrirspyrjandi gat um, er í skuld hjá ríkisverksmiðjunum, né neitt annað í þessum efnum. Mér finnst sjálfum ekkert óeðlilegt, þó að byggingarkostnaður hafi hækkað, því að við þekkjum það af byggingu þjóðleikhússins, að við höfum orðið að sjá sömu myndina þar, og þekkjum það í mörgum öðrum fyrirtækjum, sem reist eru um þessar mundir. Mér finnst hins vegar eðlilegt, að bæði fyrirspyrjendur og aðrir þm. óski að hafa aðgang að þessari skýrslu, og skal ég sjá um, að það verði hægt, ef þeir óska þess. Frekari upplýsingar hef ég ekki að gefa á þessu stigi.