12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, út af því, sem hæstv. ráðh. sagði nú, benda honum á það, sem ég geri ráð fyrir, að allir aðrir hafi tekið eftir, þó að hæstv. ráðh. virðist ekki hafa gert það, en ég fer að gruna hann um látalæti í þessu sambandi, ef hann hefur ekki veitt því athygli, að auðvitað á framkvæmdin að vera þannig, að lágmarksverðið á að vera kr. 1,30 fyrir lifrarlítrann, og ríkisstj. á að segja til strax, hvaða ábyrgð hún tekur á verði á útfluttu þorskalýsi, og reikna það út, með aðstoð sinna sérfræðinga, hvað þetta lýsisverð þurfi að vera, til þess að hægt sé að borga kr. 1,30 fyrir hvern lítra af lifur. Þetta virðist ekki erfitt að skilja, og hæstv. atvmrh., sem búinn er síðan 1946 að framkvæma fiskábyrgðarlögin, ætti að kannast við þessar aðferðir. — Hæstv. atvmrh. segir, að það sé broslegt að taka frá mönnum aðhaldið um að reyna að ná sem allra beztu verði fyrir útflutningsvörur sínar, sem gert sé með ríkisábyrgð á útflutningsverði. Hann er nú samt sem áður búinn að framkvæma ríkisábyrgðir á fiskútflutningi. Þetta segir hann því eftir að í mörg ár er búin að vera í gildi löggjöf um að verðbæta bátafiskinn. Og þegar nú á að bæta einu litlu atriði við þær uppbótagreiðslur, þá segir hæstv. ráðh., að þetta sé broslegt.