17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég tel, að það hafi ekki verið ósanngjarnt að fara fram á að fá að vita, hver vandinn er, áður en lagðar eru fram till. um að leysa hann. Okkar lína er bein. Ég sagði, þegar stj. tók við völdum. að ég byggist við, að við yrðum að fara troðnar slóðir í bili, en svo yrði reynt að leggja grundvöll að varanlegri lausn. Þetta er stefna stj.

Svo fáum við ekki að sjá framan í hina réttu mynd af örðugleikunum fyrr en smátt og smátt. Hún hefur ekki verið skýr fyrir mér, og ég vænti ekki heldur fyrir hv. þm. Ég veit ekki skoðun útvegsmanna enn þá til fulls, en ég er búinn að sjá nógu mikið til þess, að ég álít, að það sé hæpið að biðja þm. um bráðabirgðalausn. En fyrr en fram eru komnar till. útgerðarmanna og þær liggja fyrir stj., get ég ekki gert mér fulla grein fyrir lausn málsins.