25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt sem afleiðing brbl., sem ríkisstj. taldi sig tilneydda að setja í miðjum ágúst s.l., en þá var ástandið hjá fjölda af þeim bátum, er stunduðu síldveiðar, þannig, að þeir höfðu lítið eða ekkert getað greitt hásetum sínum og skulduðu mikið að öðru leyti. Síldveiðitíminn var þá engan veginn á enda, og þótti hætta á, að menn mundu hrökkva frá útgerðinni, ef ekki væri gert eitthvað, sem sætti þá betur við tilveruna, en þá var orðið. Um þetta leyti var í útvarpi og blöðum oft auglýst atvinna í landi víðs vegar, og mátti af þeim orsökum eðlilegt heita, að það væri mikil freisting fyrir þá, sem búnir voru vikum saman að fara stað úr stað í aflaleit fyrir Norðurlandi og lítið höfðu úr býtum borið, að fara heldur í land til vinnu, en á hinn bóginn ekki hægt til þess að ætlast, að sjómenn, sem margir hverjir eru heimilisfeður, gætu, unað því að koma í land og hafa úr engu að spila og geta ekki sent heimilum sínum neina peninga. Af þessum ástæðum þótti ríkisstj. skylt að veita nokkurn stuðning til þess að bátarnir gætu fengið bráðabirgðalán, sérstaklega í því skyni að borga sínu fólki að meira eða minna leyti eftir ástæðum, og var þetta gert í því trausti, að menn mundu þá frekar halda áfram veiðunum, en ekki hvarfla frá þeim. Bankarnir fengust báðir til þess að sinna tilmælum ríkisstj. í þessu efni, og ég held mér sé óhætt að fullyrða, að þessi aðstoð, sem ríkisstj. gekkst fyrir á þennan hátt, hafi borið töluverðan árangur. Það er að minnsta kosti fullyrt af kunnugum mönnum fyrir norðan, að ef þetta hefði ekki verið gert, hefðu margir hætt veiðum, sem héldu áfram og fengu talsverðan afla eftir þetta, margir hverjir. Ég vona þess vegna, að þingið geti fallizt á réttmæti þessara ráðstafana, sem gerðar voru á þeim tíma, sem ég hef lýst, og í þeim tilgangi, sem ég hef frá skýrt, og vil ég mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.