17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil benda á í sambandi við það, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði áðan, að það er hvorki fráfarandi fjmrh. né núv. fjmrh., sem hafa staðið fyrir skipulagningu þeirra vinnubragða, sem snerta ríkisreikningana eða endurskoðun þeirra. Í öðru lagi vil ég taka fram, að ég hef gert ýtarlegar tilraunir til þess, og kannske ekki að árangurslausu, að fá fleiri reikninga fram lagða fyrir þetta þing en hv. þm. minntist á.

Um fjárlagaræðuna er það að segja, að hægt er að gera að álitamáli, hvort það er fráfarandi fjmrh., sem þegar hefur skilað frv., eða sá fjmrh., sem við tekur, sem á að bera hita og þunga dagsins og halda fjárlagaræðuna. Báðir geta þó ekki gert það, og úr því að það varð að ráði, að núv. fjmrh. gerði það, þá gefur það auga leið, að hann þurfti meiri tíma til að setja sig inn í það mál, en búast hefði mátt við af þeim ráðh., sem sjálfur skilaði frv. í þingið. Ég heyrði, að forseti Sþ. gaf hér yfirlýsingu um það, — sem ég og hafði hugboð um —, að þessi ræða mundi nú bráðlega verða haldin.