27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. heldur sig enn við þetta heygarðshornið, að málið sé um gengislækkun og þar megi ekkert annað vera en hæstv. ríkisstj. hefur sett, og það sé áreitni við málið og tilraun til að spilla því, að þar sé fleira tekið með. Hann má endurtaka þetta eins oft og hann vill, en það verður ekki til bóta fyrir málið og ekki til að sannfæra þá, sem hefur auðnazt að hugsa þetta skýrar, en hæstv. ráðh. Svo belgir hann sig upp og er með ásakanir í garð minn og annarra fyrir það, að við séum svo fátæklegir og lágkúrulegir í hugsunarhætti, að við teljum að makka þurfi um öll stórmál, áður en þau séu lögð fyrir Alþingi. Nú hef ég sýnt fram á, að það var ríkisstj., sem stofnaði til þess, að makkað væri um málið í 3 vikur, og hæstv. landbrh. hefur játað að hafa sjálfur staðið að þessu makki, og má vel við una þessa játningu hæstv. landbrh.