10.03.1950
Neðri deild: 63. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég vil ekki, að það standi ómótmælt, að þessi hv. þm., sem síðast talaði, beri hér á þá hagfræðinga, sem unnið hafa mest að þessu máli, að þeir skilji hvorki upp né niður í sínu áliti, ef hann meinar eitthvað af því, sem !hann sagði nú síðast. En ég veit hins vegar, að hann er þeim ekki sammála í niðurstöðum þeirra. Ég þekki vel rök þessa hv. þm., — og hann þyrfti í raun og veru ekki beinlínis að segja neitt um það þess vegna. Ég gæti ósköp vel búið til ræðu fyrir hann, sem hann gæti flutt, og þá tekið fram hans venjulegu orð um Unilever, um Marshall, auðvaldskúgun og hringa. Ég kann þetta allt saman utan að. En ég hef aldrei skilið neitt í þeirri vitleysu.