18.03.1950
Efri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að meiri hl. fjhn. sér sér ekki fært að mæla með öðrum brtt. en þeim, sem hann flytur á þskj. 461.

Vegna brtt. hv. þm. um önnur atriði sér meiri hl. ekki ástæðu til, að veittur sé frestur til að athuga þær, þar sem þegar hafði verið ráðgazt um það milli funda, hversu langt brtt. meiri hl. n. skyldu taka, og hún hafði ekki hug á öðrum breyt. En um atkvgr. um einstakar brtt. fer eftir því, sem hver hv. þm. álítur sér fært.

Vegna ummæla hv. þm. Barð. varðandi framleiðslugjöld af afla togaranna, sénstaklega af saltfiskinum, þar sem hann harmar það, að meiri hl. n. hafi ekki tekið til greina óskir hans um fasta reglu í því efni, m.ö.o., að slíkt gjald sé ekki heimt inn, nema sýnt sé, hvernig reksturinn muni fara, vil ég taka það fram, að þetta atriði var rætt við hæstv. ríkisstj., og var eigi sýnt, að hægt yrði að ná samkomulagi um þetta, nema um „ordru“ væri þá að ræða í þessu, og meiri hl. n. taldi sér því eigi fært að leggja út í baráttu um það. En í ljós kom og hefur nú verið staðfest í hv. d. af hæstv. viðskmrh., að ætlunin með gjaldi því, sem um ræðir í 11. gr. frv., hefur aldrei verið sú, að það sé tekið af eða lagt á rekstur, sem tap er á. Ég get tekið undir með hv. þm. Barð. í þessu efni, þótt ég hafi ekki lagt neitt kapp á, að flutt væri brtt. um þetta, þá ósk hans, að viðtöl séu höfð við hæstv. ríkisstj., og það, sem hæstv. ráðh. lýsti yfir í d. í sambandi við eitt atriði í málinu, að við fylgjum þessu óbreyttu, eins og það er í frv., í fullu trausti þess, að framleiðslugjaldið sé eigi nokkru sinni heimt inn, þegar sýnilega verður um taprekstur að ræða.

Þá vil ég taka undir skilning hv. 11. landsk. varðandi ákvæði 12. gr. frv., þar sem greinir um mat á verðmætum eigna, og í sambandi við, að þar sé það talin hrein eign, sem í frv. er ákveðið. Legg ég þann skilning í, að tekið sé fullt tillít til skattakvaða, sem þá hvíla á slíkum eignum. Þar er ég sammála hv. þm.

Brtt. hv. 4. þm. Reykv. eru margar og að vísu mikilvægar, en meiri hl. fjhn. treystir sér ekki til að leggja til, að þær verði samþykktar. Hv. þm. taldi 2. lið brtt. meiri hl. n., þann sem er við 7. gr. og fjallar um, að í stað „maí 1950“ í 2. málsl. l. málsgr. komi: „apríl 1950“, ekki skýran og taldi þar breytinga þörf. Ég lít svo á, að það sé ekki nauðsynlegt. Raunar er dálítil fyrirhöfn að koma þessu þannig fyrir, að launin reiknist fyrsta skipti fyrir aprílmánuð, en það er engan veginn ókleift, og því hefur ekki orðið samkomulag um að gera brtt. við þetta.

Ein er sú brtt., sem ég vil sérstaklega taka fram um, en það er brtt. frá hv. 4. þm. Reykv., við 13. gr. frv. Þetta er brtt., sem Landsbanki Íslands hefur sótt mjög fast, að borin yrði fram. Þótt meiri hl. n. hafi eigi getað fallizt á að gera það, þá mun ég fylgja brtt. hv. 4. þm. Reykv., því að ég er sannfærður um, að sú meðferð á úthlutun bótanna er þægari í meðferð og nær betur takmarkinu, sem á að ná með 13. gr. frv., að menn fái peningana bætta, sem í frv. er gert ráð fyrir. Er höfuðgalli, að í þetta skuli vera blandað innstæðum í verzlunarreikningum.

Ég man svo ekki eftir fleiru, sem þarf að taka fram, hvorki frá meiri hl. fjhn. né frá eigin brjósti. Held ég, að ég hafi drepið á það, sem nauðsynlegt var að drepa á.