01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

53. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala meira í þessu máli, en umr. í gær voru svo sérstakar, að ég gat ekki látið vera að kveðja mér hljóðs, og sérstaklega voru það umr. þess ráðh., sem hefur verið fjmrh. og hafði með þessi mál að gera, og hv. þm. Barð., sem voru þess valdandi, að ég get ekki annað en sagt nokkur orð.

Fyrst vil ég leyfa mér að benda á, að orðin í 17. gr., sem verið er að breyta, hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta: „Af því, sem umfram kann að vera, greiðist skattur samkvæmt gildandi lögum, án skattsektar.“ Þegar þetta var sett inn, þá var hverjum manni í þinginu ljóst, hvernig átti að gera þetta. Það átti að leggja það, sem umfram var, við tekjur þess árs, sem undandrátturinn hafði átt sér stað á, og reikna svo skattinn, og af þeim praxís skapaðist, að skattyfirvöldunum um landið var ljóst, hvernig átti að gera þetta, þegar ekki lá fyrir, hvaða ár var um að ræða. Þá átti að áætla sem viðbót það ár, sem víst var um undandráttinn, og skattleggja eftir því. Þess vegna þurfti engin ákvæði um það, hvernig átti að gera þetta, ef menn vilja framkvæma þetta eins og l. gera ráð fyrir. En það, sem átt hefur sér stað, er það, að þeir, sem með málið hafa að gera, og þar með hæstv. ráðh., þeim fannst þetta of há skattlagning, og þess vegna er ákvæðið um 15% komið fram. Það er auðvitað ekki annað en fjarstæða, þegar hæstv. ráðh. segir, að þetta hafi verið fellt í fyrra af því, að menn hafi ekki áttað sig á því, um hvað var að ræða. Þetta var fellt af því, að menn vildu ekki láta þá sleppa vægar, en það að verða fyrir það án alls skatts í fleiri ár og borga svo af því venjulegan skatt. Þetta er þess vegna fjarstæða. Því meir undrar mig, þegar ég heyri annars vegar hv. þm. Barð. lýsa því yfir, að það séu föðurlandssvik að svíkja ekki skatt, og hins vegar hæstv. ráðh., að skattal. séu þannig, að það séu gereyðandi skattal., sem eru hér á landi. Þetta segir ráðh. þess flokks, sem búinn er að sjá um framkvæmd skattal. og fjárl. hér á landi milli 10 og 20 ár, hefur setið og haldið að sér höndum, sannfærður um, að hér á landi væru gereyðandi skattal., og ekki hreyft hönd eða fót til að breyta því, og samþm. hans, hv. þm. Barð., lýsir yfir, að það séu föðurlandssvik að svíkja ekki skatt, og hæstv. ráðh. hlustar á og kinkar kolli sammála þessu og situr í sínu sæti öll árin og gerir ekkert til að breyta þessu ástandi í landinu. Ekki er að marka, þó að áætla þurfi skatta á þm. Barð. og fyrirtæki hans vegna ófullnægjandi framtala, fyrst hann álítur það vera föðurlandssvik að telja rétt fram. Þetta eru menn, sem hafa málefni, sem þeir vilja framkvæma og láta ganga vel hjá sinni þjóð. Þegar ég sagði, að ég gæti fallizt á þetta frv. eins og það væri, þá gerði ég það af því, að það er þó svolítið í áttina við það, sem hugsað var, þegar 17. gr. var sett inn í l. Það er eftirgjöf frá því, sem er í l., en það er þó í áttina, og þess vegna gat ég sætt mig við það sem sætt í málinu eða miðlun, þó að ég hefði helzt kosið, að frv. væri aftur fellt á Alþ. og aftur væri látið framkvæma þetta eins og á að gera eftir l., því að 17. gr. er ekkert óskýr um þetta. Það er bara af tilbúnum misskilningi, að menn hafa haldið að hún væri ekki skýr, og sá misskilningur hefur jafnvel verið notaður til að ívilna skattsvikurum.

Þó að eignakönnun sé búin að fara fram hér á landi, þá eru til skattsvik. Það hafa komið upp skattsvik hjá tveimur merkum mönnum, eftir að eignakönnunin fór fram. Annar sveik undan eignakönnuninni um 800.000 kr., þegar hún fór fram, en hinn nokkur hundruð þúsund. Hvernig sem með það fer, þá er víst, að eignakönnunin hefur ekki megnað að koma öllu á réttan kjöl, svoleiðis að allir telji rétt fram hér eftir. Sannleikurinn er sá, að það er út af fyrir sig rétt, að skattar eru þungir á mönnum hér á landi. En að segja aðra elns fjarstæðu og það, að það séu föðurlandssvik, eins og hv. þm. Barð. segir, ef menn ekki svíki skatt, og að segja það, að skattaálögur séu gereyðandi fyrir allt athafnalíf manna, — að segja það af manni, sem hefur haft aðstöðu til að gera breyt. á þessu sem fjmrh., er svo dæmalaust, að mig undrar að heyra slíkt. Ég held nú, að þeir menn, sem komu undir eignakönnunina, hafi ekki verið svo ákaflega fátækir sem hæstv. ráðh. heldur fram. Þó skal það viðurkennt, að það eru nokkuð margir menn, sem koma undir eignakönnunina, sem ekki eru vel stæðir. Ákaflega margir af þeim sköttum, sem menn lenda í úti á landi vegna eignakönnunarl., komu fram af því, að menn höfðu byggt sér íbúðarhús, sem virt voru af þeim mönnum, sem voru í eignakönnunarnefnd, og metin eftir því, hvað kostnaðarverð húsa mundi vera með Reykjavíkurverði. sem reyndist vera annað og það hátt, að tekjur manna árin, sem þeir höfðu verið að byggja húsin, voru ekki nógar til að standa undir kostnaðarverðinu, eftir mati eignakönnunarnefndar. Sumir af þeim mönnum, sem á þennan hátt lentu í nokkur hundruð króna, upp í 2.500 kr. skatti. voru í rauninni fátækir menn, enda var mikið af þeim skatti, sem svona var til kominn, leiðrétt, því að það byggðist á misskilningi á því, að þeir höfðu verið lengur með húsin í smíðum en eignakönnunarn. hafði gert ráð fyrir, og stundum af því, að hún hafði ekki tekið tillit til þeirra eigin vinnu í húsbyggingunni. Ég viðurkenni, að það eru til menn, sem fengu á sig einhvern skatt, þó að það væri ekki fyrir undandrátt, þó að þeir væru ekki vel stæðir menn. Annars held ég að þeir, sem eignakönnunarskatturinn lenti á, hafi yfirleitt verið vel stæðir menn. Ég skal viðurkenna, að það er óviðkunnanlegt að þurfa að senda mönnum, sem búnir eru að borga þennan skatt, reikning á ný, af því að Alþ. nú ákveður annað en ráðh. hafði ákveðið, ég vil segja í fullu heimildarleysi, þegar hann ákvað 15%. En með tilliti til þess, að þetta eru sárafáir menn, innan við 20, þá held ég, að það verði svo að vera, enda er það ekki neitt nýtt, þó að ríkisstjórn fái Alþ. til að koma aftan að mönnum. Það var gert, þegar samþ. var með brtt. á miðju ári að hækka skatt á benzíni frá áramótum, og það var gert þegar við ákváðum um miðjan janúar að láta skatta gilda frá 1. jan. Hér er aðeins leiðrétt skekkja, sem ráðh. hefur gert, og mönnum þó ívilnað frá l., því að ef l. hefði verið fylgt, hefðu allir lent hærra en 20–25%, sem nú er gert ráð fyrir. Það er hagur að samþykkja það, sem liggur fyrir frá n., miðað við fyrrv. l., þó að það sé ekki eins mikill hagur og ráðh. vildi vera láta með því að samþ. frv., sem hann lagði fyrir.

Hv. þm. Barð. sagði í gær þá fjarstæðu, að hann legði ákaflega mikið upp úr því, að framtalsnefndarmenn hefðu árum saman ekkert gert annað, en að vinna að þessum málum og hugsa um þau. Ég fór að hugsa um, hverjir þetta væru. Ingimar Jónsson skólastjóri fannst mér hafa gert ýmislegt annað, en vera í framtalsnefnd. Hörður Þórðarson er formaður Sparisjóðs Reykjavíkur, og Kristinn Guðmundsson er skattstjóri á Akureyri. Þessir menn hafa allir gert eitthvað annað, en að vera í framtalsnefnd, svoleiðis að þótt það séu mætir menn, þá er fjarstæða að segja, að þeir hafi varið lífi sínu í það að rannsaka þessi mál og vinna að þeim. Ég held, að þeir menn, sem í þessum skatti lentu, megi vel við una, að Alþ. lækki hann með því að samþ. þetta frv., því að með því lækkar hann verulega frá því, sem ætlazt er til í 17. gr., og frá því, sem hefði orðið, ef þeir hefðu ekki verið þeir föðurlandsvinir að svíkja skatt og því greitt hann eins og aðrir um leið og tekjurnar urðu til.