03.03.1950
Neðri deild: 59. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

43. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka landbn. fyrir þá nánu athugun, sem hún hefur gert á þessu merkilega frv., sem hér liggur fyrir. Það er auðséð, að n. hefur lagt mikla vinnu í að athuga frv., og það var líka nauðsynlegt, og fyrir það er ég henni þakklátur.

Hv. frsm. sagði eitthvað á þá leið, að það mundi kannske ekki þykja skörulegt af n. að leggja til að lækka þann styrk, sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. Ég er á annarri skoðun, ég álít það einmitt skörulegt. Hluturinn er að vísu sá, að landbúnaðarmenn þurfa á miklu fé að halda til jarðræktar og annarra landbúnaðarframkvæmda, en ég get látið það í ljós, að ég var ekki alveg laus við ótta, að hér yrði skotið yfir markið og of langt gengið í kröfum. Ég get því verið sammála n. varðandi þetta atriði. Ég hef þó ekki athugað nákvæmlega, hvort einhver atriði kunni að vera þar athugaverð. Ég hef þó athugað þessar till. varðandi styrkinn, og eftir því sem mér virðist fljótt á litið, þá er ég þeim samþykkur.

En það eru, hér tvö atriði í brtt. n., sem mér virðast nokkuð orka tvímælis og n. ekki heldur vera algerlega sammála um. Annað er 3. brtt. n., varðandi héraðsráðunautana. Samkv. till. undirbúningsn. er gert ráð fyrir því, að það væri hámark á tölu héraðsráðunauta, að þeir væru 10. Mér finnst fyrir mitt leyti, að það ætti að vera nægilegt að hafa svo marga ráðunauta eins og n. lagði til, en hafa það ekki alveg óbundið á valdi Búnaðarfélagsins og samþykki landbrh. að fjölga þessum ráðunautum meira. Að öðru leyti vil ég svo segja það, að mér finnst það ætti ekki einasta að vera heimilt, heldur sjálfsagt, að héraðsráðu,nautarnir hefðu með höndum eftirlit og yfirstjórn bæði með jarðrækt, búfjárrækt og mælingum í viðkomandi héruðum.

Þá er annað atriði, sem er miklu stærra, en það er 9. brtt. n. og afleiðingar af henni, 10., 11., 12. og 13. brtt., en aðalbrtt. er 9. brtt., og það er um verkfæranefnd. Eins og nú er, þá er framkvæmdastjóri og skrifstofa, sem annast um undirbúning eða hefur með að gera kaup á vinnuvélum og hefur yfirstjórn yfir rekstri jarðyrkjuverkfæra, ekki aðeins á skurðgröfum, heldur allra stórra jarðyrkjuverkfæra og hefur samband við þau viðgerðarverkstæði, sem eru í landinu, en samningar heyra undir Búnaðarfélag Íslands. Nú er hér gert ráð fyrir, að skipaður sé nýr starfsmaður, sem er verkfæraráðunautur Búnaðarfélagsins, en mér vitanlega er hann enginn til síðan Árni Eylands var það og jafnframt starfsmaður S.Í.S., sem er stærsti verkfærainnflytjandinn. En ef verkfærin eru lögð þannig undir vélanefnd, eins og mér finnst eðlilegt, þá þarf engan verkfæraráðunaut hjá Búnaðarfélaginu, því að þá er þessi framkvæmd hjá stjórn vélanefndar.

N. leggur til, að þessi n. verði skipuð þannig, að þar skuli vera verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands, jarðræktarráðunautur Búnaðarfélagsins, og einn tilnefndur af búnaðarþingi. Landbrh. skal skipa formann n. Nú er búnaðarþing í raun og veru ekkert annað, en aðalfundur Búnaðarfélagsins. Hér eru því allir mennirnir nema einn skipaðir af Búnaðarfélagi Íslands. Nú hefur það verið svo undanfarin ár, að einn maður hefur verið beint skipaður af landbrh., og má segja, að það hafi verið of rausnarlegt eins og það var, þegar ráðh. sjálfur var í verkfæranefnd og enn fremur formaður Búnaðarfélagsins. Mér finnst það eðlilegt, að ef við höfum n. eins og verkfæranefnd og ef hún hefur eins mikið starfssvið og hún hefur haft og ef hún á að yfirtaka og hafa með höndum stjórn jarðræktarverkfæra, þá skipi landbrh. formann, hver sem hann er, svo sé landnámsstjóri í n. og einn kosinn af búnaðarþingi eða stjórn Búnaðarfélagsins. Ég vildi gera þessa aths. og fara fram á það við n. að geyma afgreiðslu á þessum till., 2. og 9.—13. brtt., til 3. umr., og við gætum þá haft samræður um það, hvort við gætum ekki náð samkomulagi um það, hvernig þessum málum yrði skipað.