06.03.1950
Neðri deild: 60. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

43. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Fyrst vil ég snúa máli mínu til hv. þm. Ísaf. (FJ). Hann spurði, hvort ekki mundi hægt að gefa ákveðnar upplýsingar um þann heildarkostnað, er framkvæmd þessara l. bakaði ríkinu- Ég gat þess hér í fyrstu ræðu minni, að sá heildarstyrkur, er ríkissjóður galt til jarðabóta yfir s.l. ár, muni hafa numið um 41/2 millj. kr., en frv. þetta gerir ráð fyrir 51/2 millj. kr., miðað við sams konar framkvæmdir. Hér ber og að geta þess, að ef brtt. landbn. verða samþ., lækka útgjöld ríkisins og verða þá 4.8 eða 4.9 millj. kr., miðað við sömu forsendur og ég hef áður sagt. Nú má búast við, að hækkun á framræslustyrk verði um 600–700 þús., en þar á móti kemur lækkun á sjálfum ræktunarstyrknum, og er sú lækkun réttlætt með því, að nú eru notuð miklu stórvirkari áhöld við allar ræktunarframkvæmdir. Því hefur framræslustyrkurinn verið aukinn, en dregið úr styrkjum til annarra framkvæmda jarðræktar. Við vitum, að byggingarkostnaður er orðinn mikill, svo að raunverulega hefur styrkur til þessara framkvæmda lækkað. En ég tel styrk varðandi ræktun vera grundvallarstyrk landbúnaðarins.

Ég treysti mér ekki til að svara hér fyrirspurn hv. þm. Ísaf. um það, hvaða áhrif afnám hámarksákvæðisins hefur. Ég hygg þó, að þau muni ekki verða eins mikil og menn almennt halda, því að áreiðanlega hefur verið farið í kringum þetta ákvæði. Ef bændur hafa t.d. sléttað svo mikið á einu ári, að það færi yfir hámarkið, hafa þeir ekki látið mæla það allt upp þá, heldur geymt eitthvað af því til næsta árs, því að einstakir bændur hafa auðvitað ekki náð hámarkinu árlega. Því býst ég við, að afnám hámarksins varði minna en áður. En hitt er vitanlegt, að ef eitt félag hefði rifið niður t.d. 100–200 ha lands, þá hefðu það orðið geysilegar upphæðir fyrir ríkið. Þetta mun hafa gert það að verkum, að hámarksákvæðið var sett. Því mun líka ekki hægt að gefa neinar upplýsingar um, hvaða áhrif afnám hámarksins hefur.

Þá kem ég að öðru atriðinu hjá hv. þm. Ísaf., um það, hvort ég teldi öruggt, að fé úr ríkissjóði, sem varið er á þann hátt, sem þetta frv. leggur til, væri bezt komið á þennan hátt og ekki önnur betri leið til. Ég verð að segja það, að mér finnst erfitt að vera öruggur um nokkurn hlut í þessum heimi. En þó verð ég að láta það álit mitt í ljós, að ég tel öruggt, að við getum ekki varið því fé, sem við leggjum til landbúnaðarins, betur en að þurrka landið. Þannig getum við fengið nýtt land með því að þurrka mýrarnar, og þegar búið væri að þurrka allar mýrar í byggð, mundi það hafa áhrif á loftslagið, gera það þurrara og betra. Þetta getur komizt í framkvæmd, þegar nægar skurðgröfur eru komnar. Nú höfum við um 30 skurðgröfur. Ekki er nú sýnilegt, að hægt sé að fjölga þeim, og þó fara þær gömlu að ganga úr sér, en við þyrftum að eiga um 40. Ef við getum fjölgað þeim svo, mundum við geta komizt býsna langt með að þurrka mýrarnar á næstu 10–15 árum. Ég tel þetta hið mikilsverðasta í ræktunarmálum landsins.

Um það atriðið, er vék að verðlaunum fyrirmyndarbúa, þá tel ég, að það eigi að koma í annarri röð. Ég tel, að það eigi að beina þeirri fjárveitingu, sem ríkið leggur til landbúnaðarins, fyrst og fremst til þess að þurrka landið, og að þessu á þjóðfélagið að styðja. Það mun verða afkomendum okkar til mikils gagns.

Ég ætla ekki að þreyta kappræður við hv. 5. landsk. (ÁS). Ég vil geta þess vegna till. okkar um jarðræktarraðunautana, að þeir geti komizt upp í 20. Ég get fallizt á, að útgjöldin vegna héraðsráðunautanna séu bundin við 10 hella héraðsráðunauta. Væri þá hægt að hagræða þessu þannig, án þess að binda það við ósveigjanleg takmörk. Þetta gæti ég fallizt á, ef d. mundi óska eftir því.

Hv. 5. landsk. hélt því fram, að óhugsandi væri, að útgjöldin minnkuðu við það, að Búnaðarfélagið tæki vélasjóðinn í sínar hendur. Auðvitað eykst skrifstofukostnaður, en ég átti við það, að með hinu sameiginlega skrifstofuhaldi við Búnaðarfélagið væri hægt að spara mikið, og er ég fullviss um það — heldur en ef hafa ætti sérstakt skrifstofuhald fyrir vélasjóðinn.