17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera lengi á leiðinni hér í Nd., enda er bæði um viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Landbn. hefur fengið sendinefndir frá bændum á sinn fund, sem borið hafa fram ýmsar óskir. N. hefur rætt við þessar sendinefndir og gengið til móts við óskir þeirra, eftir því sem kleift hefur þótt. Þá hefur n. haft fund með landbn. Ed. til þess að leita að lausn, sem báðar d. gætu sætt sig við og tryggt með því framgang málsins. Nefndir beggja d. náðu samkomulagi með þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 528, og skal ég fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er við 4. gr., a-liður þeirrar brtt., og er hann um það, að bætur skuli miðaðar við niðurlagsverð næstu tveggja ára á undan því, er bæturnar eru greiddar, en í frv. er gert ráð fyrir meðalverði næsta árs á undan. Þessi breyt. er eðlileg vegna þess, að miklar sveiflur eru á þessum árum bæði á vænleik og verði niðurlagsfjár, og má vænta, að með þessu ákvæði verði bæturnar réttlátari. Þá er lagt til, að hámarksákvæði um bætur fyrir bótaskylda kind, sem í frv. er 75.00 kr., falli niður og um það fjallar b-liður brtt. við 4. gr. Eins og kunnugt er, hefur þetta ákvæði verið mjög óvinsælt og þótt óréttlátt og hefur n. fallizt á að fella það niður, einkum með hliðsjón af því, að hún leggur til, að bætur verði miðaðar við meðalverð tveggja síðustu ára.

Þá vil ég víkja að c-lið 1. brtt. n. við 4. gr., en hún fjallar um að láta bændur, er hafa litla eða enga aðstöðu til mjólkursölu eða annarrar framleiðslu, sitja fyrir um líflambakaup, ef ekki fæst áskilin fjártala til úthlutunar. Þessi till. er eðlileg afleiðing af því, að aðstaða bænda á því svæði, þar sem fjárskipti standa fyrir dyrum, er allmisjöfn. Margir hafa mikla mjólkurframleiðslu, og hafa þeir miklu betri aðstöðu, en hinir, sem stunda sauðfjárrækt, og eingöngu þess vegna þykir n. rétt, að þeir verði látnir ganga fyrir um líflambakaup, ef ekki fæst áskilin fjártala til úthlutunar.

Nokkrar breyt. vill n. gera á 6. gr., en a-liður þeirra breyt. er, að fyrir orðið „vaxtalausu“ komi: 4%. — Þetta ákvæði í frv. er mjög óvinsælt, enda munu margir bændur þurfa á þessum bréfum að halda til nauðsynlegra greiðslna í sambandi við búreksturinn, en með því, að þau séu vaxtalaus, yrði sú notkun erfið, og sömuleiðis yrðu þau ekki eftirsótt veð. Á þessar röksemdir hefur n. fallizt og leggur því til, að þessi breyt. verði gerð, það er að segja, að greiddir skuli vera 4% vextir af bréfunum. Þá hefur n. gert nokkra breytingu á hlutfallinu milli þeirrar upphæðar, sem greiðast skuli í þessum skuldabréfum, og um það fjallar bliður brtt. við 6. gr. Þar er gert ráð fyrir, að upphæð sú, sem bændum er skylt að taka í skuldabréfum af bótagreiðslunni, verði nokkuð hækkuð, eða úr 1/5 og 3/5 í 2/5 og 4/4. Með þessu er þó ekki gert ráð fyrir, að skuldabréfaupphæðin verði aukin verulega í heild, heldur er gert ráð fyrir, að heimilt verði að greiða þeim, sem búa við örðugan fjárhag, hærra hlutfall í peningum og leysa þá með því undan þeirri fjárbindingu, sem í skuldabréfunum felst, og má gera ráð fyrir, að þetta geti orðið til verulegra hagsbóta fyrir þá, sem illa eru stæðir, en ætti hins vegar ekki að vera þungbært fyrir hina, enda þótt þeir þurfi að taka við nokkru hærri upphæð í skuldabréfum en áður var gert ráð fyrir. Þá hefur náðst samkomulag við Búnaðarbankann, að hann tæki þessi skuldabréf á fullu nafnverði, sem vaxta- og afborgunargreiðslur af fasteignalánum, sem bankinn hefur veitt, og er mikil bót að slíku samkomulagi, enda þótt bankinn taki bréfin ekki sem almennan gjaldmiðil, þar sem samkomulagið er bundið við vexti og afborganir af fasteignalánum frá bankanum. Eins og þm. mun vera ljóst, er þessi breyt. á l. flutt til þess að unnt verði að halda áfram fjárskiptunum með sem mestum hraða, svo að þeir, sem lengst hafa búið við þennan vágest og lamazt fjárhagslega, verði leystir eins fljótt og mögulegt er undan þeirri möru. En auk þess eru þeir, sem þegar hafa skipt um fjárstofn, í stöðugri hættu meðan ekki er lokið öllum fjárskiptum, og enda þótt allt sé gert til að verja samgang fjár á milli þessara staða, þá er alltaf hætta fyrir hendi. Af þessum ástæðum er líka mikil nauðsyn að hraða fjárskiptunum eins og mögulegt er. En vegna þess að fjárhagur ríkissjóðs er ekki góður, getur ríkið ekki borið allan þann kostnað, sem af fjárskiptunum leiðir, nema á löngum tíma, enda er sá kostnaður áætlaður allt að 20–25 millj. kr. Þetta vandamál þarf að leysa, og hefur því verið gripið til þess ráðs að greiða bæturnar að nokkrum hluta í umræddum bréfum, og þó að þessi leið verði erfið fyrir marga bændur, þá vilja þeir vinna það til, ef það getur tryggt lausn málsins og fjárskiptunum verður haldið áfram með þeim hraða, sem nauðsynlegur er. Ég vil geta þess, að verði till. um að fella niður hámarksbæturnar fyrir hverja kind felld, þá vill n. leyfa sér að flytja skriflega brtt., sem þó kemur því aðeins til atkv., að hún verði felld.