02.05.1950
Efri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

46. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta mál eða efni þess hefur áður verið á ferðinni, um sjúkdómana, og oft hafa orðið langar umræður um það. Hefur fé verið lagt fram undanfarin ár, og l. 1947 voru meginátökin hjá bændum að hreinsa svæði sin að sóttveiku fé og fá heilbrigðan stofn í staðinn. Þetta virðist hafa tekizt, og við þökkum Vestfirðingum fyrir að hafa verið á undan. Þeim hafa heppnazt framkvæmdirnar, og því hafa hugir annarra hneigzt að því að feta í fótspor þeirra og fá heilbrigðan stofn. Er það meira vert, þótt fé sé sums staðar lélegt af Vestfjörðum, að bændum hefur tekizt ræktun þess vel og fjölgað því. Hefur það orðið að allgóðu fé. Er fjárkyn á Rauðasandi og víðar heldur lélegt, en bændum hefur tekizt þetta vel. Nú hefur verið áhugi meðal manna um að hrinda þessari veiki, og var skipuð nefnd af hæstv. ríkisstj. í sumar til þess að gera tillögur um breytingar á fjárskiptunum, svo að þau gætu gengið hraðar, og kom þar mikið til greina, að kostnaðurinn yrði minni við girðingar, þannig, að tekin væru stærri svæði, sérstaklega, að girðing kæmi úr botni Hvalfjarðar fram til jökla. Yrði það margra hundraða þúsunda króna sparnaður að geta tekið fyrir slíkar girðingar, um leið og flýtt væri fyrir bændum að fá ósýkt fé. Nú er svo háttað á miklu svæði í Borgarfirði og á Mýrunum, að þar eru mjólkursvæði og bændur hafa aðallega kúabú, svo að þeir þurfa ekki að reiða sig á fjárframleiðsluna eina. Nú má láta bændur, sem hafa næga mjólk, bíða og fái þeir lítinn stuðning í ár, og á þann hátt virðist mönnum, að takast megi að ljúka þessu á næsta hausti. En peningavandamálið er oft Þrándur í Götu, og svo er hér. Um það er alkunnugt. Virðist ríkissjóður eigi fær um að greiða í sumar það er þarf í bætur og skuldir, og er því létt undir með ríkissjóði hér í frv., þannig að hann megi greiða í skuldabréfum, svo að þetta skiptist niður á mörg ár.

Yfirleitt eru breyt. í frv. fyrst og fremst fólgnar í ákvæðum um það, hvernig fara skuli um girðingar, hverjir skuli eiga þær o.s.frv. (1. gr.). 2. gr. talar um það skýrar og hitt, hvernig hagkvæmast sé, að fari um fjárfærslu milli hólfanna. Hafa menn þar reynslu fyrir sér, hvernig því yrði hagkvæmlega komið fyrir, en öryggið er látið standa framar, en þægindin fyrir bændurna.

Þá eru ákvæðin í 3. gr. um það, hversu langt skuli farið aftur í tímann í bótagreiðslum, og var horfið að því í hv. Nd. að láta þau standa svipuð og áður, þannig, að bæturnar séu látnar ná aftur á þriðja ár, áður en fjárskipti hefjast, þegar svo stendur á sem þar segir. Þetta virðist ruglingslegra, en n. telur rétt að hafa það svo, og má ýmislegt fínna því til stuðnings. Var því eigi ástæða til að breyta þessu.

Þá er það 4. gr. Þar fer kostnaðarhliðin að koma. Fyrst og fremst var áður í frv. ákveðið hámarksverð á lömbum, er bótaskyld eru, en þá um leið eru ákvæði um það, að þetta breytist, ef sveiflur verði á peningaverði. Við töldum eigi rétt að hafa hámark, en ákváðum, að meðalverð skyldi ákveða eftir því, hvert niðurlagsverðið hefði reynzt vera tvö árin næstu á undan, þannig, að þeirri tölu sé deilt með tveim og þannig fengið meðalverð á lambí. Var álitið, að hitt væri dragbítur á framkvæmdunum. — Svo hafa verið sett skýrari ákvæði um flutning fjár inn á niðurskurðarsvæði. Þarna hefur verið prentvilla, í 4. efnismgr. 4. gr., og stendur „fjártöku“, en á að vera: fjártölu. Ég hef þó eigi séð ástæðu til að flytja brtt. við þetta.

Þá eru ákvæði í 5. gr. um fyrirkomulag á bótaskyldu, þar sem svæðum hefur verið skipt í hólf og sum sauðlaus.

Þá kemur 6. gr. frv., en hún er meginmergurinn málsins, og höfum við nm. talið nauðsynlegt að breyta henni að töluverðu leyti, og sé hún borin saman við brtt. okkar, þá er, svo að við byrjum aftan frá, aðeins um breytt orðalag að ræða. Sauðfjársjúkdómanefnd taldi, að auðveldara yrði fyrir sig að ákveða undanþágur frá því, að bændur tækju við greiðslum í skuldabréfum. Orðalagið var þannig, að það misskildist af sumum, en nú held ég, að það sé ótvírætt. — Þá er það 2. mgr., þar sem breytt er töluverðu. Við töldum eigi fært að skipa einstaklingum að taka við bréfunum á nafnverði upp í skuldir annarra, þótt þeir yrðu að taka við þeim upp í bæturnar. Það mundi kosta málaferli, og mun víst vera, að eigi ber þeim skylda til þessa. En hins vegar eru bankarnir. Þeir eru skyldir til að taka við bréfunum. Útvegsbankann snertir þetta þó eigi. Landsbankanum getum við boðið að gera þetta, hann er svo undir áhrifum þingsins, og meir að segja Útvegsbankanum einnig, en í Landsbankanum kváðu eigi vera önnur af fasteignaveðum um landið, en gömul veðdeildarlán, og er vafasamt, að bankinn hefði hag af þessu. Þá er Búnaðarþankinn. Formaður bankaráðs, hæstv. landbrh., er nú eigi viðstaddur, en bankaráðið og bankastjórinn eru sammála um að láta við þetta sitja, þannig að byggingarsjóðslán og ræktunarsjóðslán mætti greiða með skuldabréfunum, en það nær eigi lengra, en til afborgana og vaxta á þennan hátt. Hitt yrði skaði fyrir bankann, t.d. að greiða út 200 þús. kr. árlega. En við töldum rétt að ganga að þessu og taka á móti því, að þar yrði eigi lengri lánstími en 5 ár. En til þess að regla verði höfð á þessu og keðjusala eigi sér ekki stað, en frv. segir, að þeir einir megi borga, sem tekið hafi við bréfunum upp í bótagreiðslur til sjálfra sín, þá verður að setja reglugerð. Verður að tölusetja hvert skuldabréf og láta bankana fá lista yfir það, hvert númer hver maður hefur fengið á skuldabréf sín, því að þannig er hægt að stjórna því, að þeir borgi einir með skuldabréfum, sem sjálfir hafa fengið þau upp í bótagreiðslur. Það er eigi sagt í brtt., en bent er á það að vissu leyti, að reglugerð eigi að setja. — Þá er breyt. á 4. stafl. 6. gr., þeim er áður var og kvað á um, að skyldan næði aðeins til þess, að skuldabréfin skyldi greiða á árinu. Þessu er breytt svo, að ríkissjóði beri að greiða skuldabréfin að fullu, er 5 ár séu liðin frá útgáfudegi þeirra. Höfum við í huga og teljum rétt, að bætur hafi verið greiddar til héraða jafnvel fyrr, en ráð hafi verið fyrir gert, að nokkru leyti verið greiddar á fyrrverandi ári, t.d. í Húnavatnssýslu, þar sem búið er að greiða 60 kr. á kind, en 20 kr. eru eftir. Við höfum gert ráð fyrir, að einmitt það sé eftir, sem mundi verða greitt í ríkisskuldabréfum, þ.e. þessar ca. 20 kr. En þó sleppa þeir betur en aðrir, sem verða að taka upphæðirnar að 2/5 og 4/5 í skuldabréfum.

Þetta er þá mergurinn málsins, þess er í frv. finnst. Við viljum þó að sumu leyti fara lengra, en vildum eigi hætta því, að því yrði þá breytt aftur í hv. Nd., því að hér er nokkur hluti landsins, austan frá Skeiðarársandi vestur að Breiðafirði, sem á afkomu sína undir því, að þetta mál geti greiðzt sem fyrst og vel úr hendi. E.t.v. höfum við eigi rætt þetta mál nægilega, en ég hygg, að þetta sé aðalstefna okkar. Sumum er óljúfara, að greitt sé með skuldabréfum, en allir erum við sammála um, að mikil þörf sé á að fá þetta leyst af höndum. Er velferð landsins okkar í húfi, a.m.k. varðandi framleiðslu sauðfjárins hér á landi.