18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það verður ekki á þessum tíma sólarhrings svarað nema fáu af því, sem hér hefur komið fram, en hér hafa þó fallið ummæli, sem ástæða þykir að svara, a.m.k. að einhverju leyti, og þá ekki sízt ummælum, sem hv. 6. landsk. hefur látið hér falla. Það er vitað mál, að þegar sett var í umferð eftir styrjöldina, og raunar fyrr, meira af peningum en vörur voru til fyrir, að svona mundi fara, eins og nú er komið á daginn.

Það var áðan verið að vitna í hæstv. fjmrh., og mun ég svara því að nokkru, af því að hann er ekki hér viðstaddur. Ég held, að það hafi verið í síðustu ræðunni, sem hann flutti áður en hann fór frá völdum, sem hann sagði, að peningaflóðið hlyti að valda gengislækkun fyrr eða síðar. Þetta er ekkert nýtt, heldur það, sem alls staðar skeður, þar sem ástandið er svipað og það var hjá okkur, og þar sem peningar eru gefnir út og settir í umferð fram yfir það, sem framleiðslan þolir. Og þetta var ástæðan til þess, að Eysteinn Jónsson vildi ekki sitja áfram í ríkisstj. Á meðan við áttum mikla peninga erlendis, eða um 600 millj. kr., þá bar ekki á þessu. En af hvaða ástæðu? Jú, þá var hægt að dreifa út peningunum, og þá var hægt að kaupa fyrir þá allt, sem við girntumst, og þá var enginn vöruskortur í landinu. Það, sem svo gerist, er það, að haldið er áfram þessari pólitík, og í stjórnartíð Alþfl. er safnað um 200 millj. kr. skuld og peningunum enn dreift út. Það er gengið í ríkisábyrgð og peningunum dreift út á þann hátt, og niðurstaðan varð svo auðvitað sú, sem alltaf verður, þegar þeim er dreift svo út, að þeir verði verðlausir, vegna þess að þjóðin hefur ekki getu til að flytja út og safna peningum erlendis á móti peningum þeim, sem dreift er út innanlands. En þetta gerði stjórn Alþfl. Ef við hv. 6. landsk. mundum gefa út og dreifa út skuldabréfum upp á 1/2 eða 1 millj. kr. á okkur persónulega, — hvað mundi þá ske? Ætli það mundi ekki ske, að menn mundu heldur vilja skuldabréf, sem væru stíluð t.d. á hv. þm. Barð., sem menn mundu þá treysta betur? Bréfin mundu því falla í verði vegna þess, að menn mundu ekki treysta því, að við værum borgunarmenn fyrir þeim. Þetta sama hefur gerzt með ísl. peninga, þeim hefur verið dreift út fram yfir það, sem vörur eru til til að standa á bak við þá, og því hafa þeir fallið í verði. Það sama gerðist í Vestur-Þýzkalandi eftir stríðið, þar sem eitt nýtt mark var látið koma á móti 10 gömlum, og í Rússlandi, þar sem 1 rúbla var látin koma á móti 5. Í Bretlandi lækkaði jafnaðarmannastjórnin gengið um 20%, án þess að nokkur uppbót kæmi á móti. Aftur á móti standa svissneskir peningar hátt, af því að þeir hafa stjórnað svo peningamálum sínum, að alls staðar í heiminum er hægt að fá vörur fyrir svissneska peninga. Kanadadollar var skráður lágt, en fyrir nokkru varð að hækka skráningu hans, þar sem landið var orðið svo ríkt, að hann var seldur hærra verði en hann var skráður, því að framleiðslan var svo mikil, að ávísunin var góð. Þegar núv. ríkisstj. tók við eftir ríkisstj., sem fór frá fyrir um það bil ári, þá var þetta raunar þegar skeð, og gengislækkunin var um garð gengin, þegar við tókum við. Ef við hefðum skráð ísl. kr. lægra en hún var skráð, þá hefði hún selzt hærra verði en hún var skráð; ef gengislækkunin hefði ekki verið um garð gengin; þá hefði því ísl. kr. selzt hærra verði en hún var skráð, en það er nú síður en svo, að það hafi skeð, og um það höfum við ljós dæmi. Ef okkur tækist að stjórna framleiðslunni þannig, að hún ykist, þá getur farið svo, að ísl. kr. hækkaði. Það er eftirtektarvert, að þegar fjmrh. Breta fór frá fyrir um það bil mánuði, maðurinn, sem lækkaði gengi pundsins, þá hafði hann rétt fjárhag þjóðar sinnar svo við, að hér um bil jafnmikið gullmagn var á bak við hvert pund og 1939, en hann valdi öfuga pólitík við hv. 6. landsk. Hann fór til verkalýðsfélaganna og sagði: Til þess að það takist að ná þessu, þrátt fyrir gengislækkunina, þá megið þið ekki hækka kaupið. — En síðar samþ. hann þó að hækka kaupið hjá þeim lægst launuðu. Og söm er sú pólitík, sem Norðmenn höfðu, og söm er sú pólitík, sem þeir ráðgjafar, sem A.S.Í. kallaði til, þegar gengisbreytingin var gerð, ráðlögðu.

Og hvað er það svo, sem hagfræðingarnir hafa um þetta að segja, t.d. hagfræðingar eins og Torfi Ásgeirsson og Jónas Haralz? Þeir segja skýrum stöfum þetta: Ef það sýnir sig, að framleiðandinn getur ekki borgað hærra kaup af gróða, þá er það skaðræði fyrir verkalýðinn að hækka kaupið, og annaðhvort skeður, að atvinnutækin stöðvast, eins og t. d: samvinnufélagið á Ísafirði, og svo skapast atvinnuleysi, eða þá hitt, að ríkisstj. grípur í taumana og leggur á nýja skatta. — Þetta er skoðun tveggja hagfræðinga, sem Alþýðusambandið kallaði til að segja sitt álit, og sú skoðun þeirra er í samræmi við ráðleggingar brezku verkamannaflokksstjórnarinnar til síns verkalýðs.

Hv. þm. talaði einnig um, að álagningin væri of mikil, og kenndi hann ríkisstjórninni um það. En ef atvinnulífið ber sig ekki, þá er ekki annað til en að vörurnar séu annaðhvort seldar með óhagkvæmu verði og verzlunin beri sig þá ekki, eða kaupgetu almennings sé meira eða minna ofboðið. Og ég get upplýst hv. þm. um það, að alltaf eru að berast bréf frá verzlunarmönnum, 4. bréfið á skömmum tíma núna á dögunum, sem er m.a. undirskrifað af Kron, þar sem heimtuð er hærri álagning, ef þessi atvinnurekstur eigi að geta borið sig. — Það er líka verðgæzla í landinu, og hún er í höndum flokksmanna hv. 6. landsk., og hann ætti í því efni að geta fengið allar þær upplýsingar, sem hann vill. En ég vil benda honum á, að ef félög eins og Kron treysta sér ekki til að halda uppi sínum atvinnurekstri með þeirri verðlagningu, sem nú gildir, þá er bersýnilegt, að hún er ekki of há.

En þá er það með afurðasöluna. Hvernig er það með afurðasöluna? Er ekki bæjarútgerð bæði hér, á Siglufirði, í Vestmannaeyjum, Norðfirði og á Akureyri? Sigla ekki togararnir til útlanda og selja fyrir hæsta fáanlegt verð hvar sem er, — í Þýzkalandi, í Frakklandi, í Ítalíu og á Englandi? Og hver er útkoman? — Er peningunum máske stolið þar?

Nei. Það vissu allir, að þegar gengislækkunin var gerð, þá var það eina ráðið. Við vitum allir, að þegar hún var í undirbúningi, þá gengu jafnvel flokksmenn hv. 6. landsk., eins og hæstv. forsrh. upplýsti hér í umræðunum, hér um og spurðu: Á ekki að fara að gera gengislækkun? Enda veit allur fjöldi manna, . að sjálfar bæjarútgerðirnar voru að stöðvast og þannig t.d. komið á aðra millj. kr. í töp í Vestmannaeyjum og svipað á Siglufirði. Og þrátt fyrir gengislækkunina og þó að togararnir hafi aðstöðu til að selja fyrir rétt verð og hvar sem er, þá halda þeir samt áfram að tapa. Það var engin leið að halda þessum atvinnurekstri gangandi, þegar gengislækkunin var gerð, nema hækka meðgjafirnar. Og það var enginn einasti hagfræðingur, sem leyfði sér að halda því fram, að sú leið eða nokkur önnur væri heppilegri en gengislækkunin. — Eða vill hv. 6. landsk. nefna þann hagfræðing? (Rödd úr þingsal: Já, það vil ég; Ólafur Björnsson og Benjamín Eiríksson bentu t.d. báðir á verðhjöðnunarleiðina í sinni álitsgerð.) — Já, en þeir mæltu ekki með henni. Enda fer að verða skammt á milli, ef það þarf t.d. að stimpla hverja sparisjóðsbók, sem er upp á 100 þús. kr., með 50 þús. kr. o.s.frv. Það vita allir, að sú leið er ekki fær með öðru móti. Og hagfræðingarnir voru sammála um, að sú leið væri allt of umsvifamikil í okkar litla þjóðfélagi. Ég skil satt að segja ekki, að hv. 6. landsk. skuli leyfa sér að halda þessu fram, því að ég er sannfærður um, að hann veit vel, að gengisslækkunin var eina leiðin. Seðlarnir voru raunverulega fallnir í verði. Og það var ekki um annað að ræða en skrá þá á réttu gengi. Annað þýðir ekki. En gengisskráning er t.d. gerð niður á við á peningum, sem standa í

hærra verði, þá seljast þeir eftir sem áður fyrir hærra verð en þeir eru skráðir, t.d. sænskur og svissneskur gjaldeyrir. Það er þannig aldrei unnt að búa til falska gengislækkun. Nei, sannleikurinn er sá, að verðfallið var orðið fyrir þessa gengislækkun; en þar með er ekki sagt, að hún hafi verið neitt þjóðráð. Því hefur aldrei verið haldið fram. Hún var þvert á móti eins og hættulegur holskurður, sem enginn veit, hvort heppnast eða heppnast ekki. En það var í þessu tilfelli ekki um annað að ræða en gera hann, og það er áreiðanlegt, að hv. 6. landsk. getur fengið það álit hjá þeim, sem eru nær honum daglega en þeir, sem hann deilir nú á.

Ég skal nú ekki fjölyrða frekar um þetta eða rekja einstök atriði nánar. En út frá því, sem almennt er vitað, þá verða skiljanleg ummæli hæstv. fjmrh., sem ég efast þó um að séu alveg rétt eftir höfð, að enn væri það svo, að kaupgetan innan lands væri of mikil. Sannleikurinn er sá, að þetta er hægt að laga með aðeins einu móti, eða með því að framleiða nógu mikið til þess að afla nógu mikils erlends gjaldeyris, svo að unnt sé að flytja inn nægar vörur.

Það er vitaskuld rétt, hve oft sem hitt er sagt og hver sem vísitalan er, að verkalýðnum er frjálst að eigast við atvinnurekendur um kaupgjaldið. Við sjáum að vísu ekki fram á, að hægt sé 'að halda áfram að hækka kaupið á þann vélræna hátt, sem gert hefur verið með vísitölunni hingað til. En við skulum segja t.d., að útgerðarmenn á Ísafirði fengju meira frelsi til að selja sína framleiðslu og kaupfélagið meira frelsi til að kaupa sínar vörur, og þetta geri svo það að verkum, að þessir aðilar geti farið að borga hærra kaup. — Þá gott og vel. — En ef þessir aðilar geta ekki greitt hærra kaup, þá leiðir það aðeins til vandræða fyrir verkamenn að krefjast meiri launa en atvinnureksturinn hefur efni á að greiða. Sú aðferð, sem þar er verið að prédika, er ekki annað en að stinga skildingnum í vasa verkamannsins og taka hann síðan samstundis aftur með sköttum.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég get sagt vegna þess, sem fram hefur komið hér í umræðum, að það stendur alls ekki til að hafa neitt tvöfalt gengi; um það hefur ekkert verið rætt í ríkisstjórninni.

Þá verð ég að segja, að það undraði mig, þegar hv. 1. landsk., sem venjulega er mjög rökvís maður, er hann vill það við hafa, hélt því fram, að það hefði orðið að reikna með síldarleysi í ár, af því síldin hefði brugðizt undanfarin ár. Það var gert ráð fyrir því af ríkisstj., að það mundi fiskast eins og endranær, og með öðru er ekki hægt að reikna. Eða á maður endilega að reikna með því, að síldarlaust verði að ári, af því veiðin hefur brugðizt undanfarið? Það yrði skrýtin útkoma hjá útgerðarmönnum, ef þeir reiknuðu með því.

Hvað snertir togaraverkfallið, þá eru nú skoðanir manna skiptar um það, hvað valdið hafi. Ég skal ekki fara út í að dæma um það. En af því máli hefur ríkisstjórnin engin afskipti haft, enda sjaldan talið ríkisstjórnum til tekna að skipta sér með valdboði af slíku. En tjónið af þessu tvennu, síldarleysinu og togaraverkfallinu, er talsvert á annað hundrað millj. kr. Og ef ekki væri fyrir þessar sakir, þá væri nú geysilega góð útkoma á fjárhag ríkisins og við hefðum auknar vörubirgðir í landinu fyrir á 2. hundrað millj. kr. En þetta er einn af þeim hlutum, sem hin hv. stjórnarandstaða vill ekki taka neitt tillit til.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð fleiri, en segja að lokum, að það, sem vitanlega veldur því, að það er ekki ástæða til að fara lengra út í rökræður um þetta, er það, að það getur ekki verið, að svo glöggur maður sem hv. 6. landsk. sé í raun og veru á þeirri skoðun, að ekki hefði orðið stöðvun í atvinnulífinu, ef gengislækkunin hefði ekki verið gerð. Enda hafa ræður hans um þetta fremur verið fluttar af utangarnahita en af innri sannfæringu og rökum. Hann veit, að það var ekki um annað að ræða en að gera þetta, og það var þá einnig skoðun hans flokks, Alþfl.; hvað sem hann lætur í veðri vaka nú. Sá hv. flokkur ætti annars að reyna að setja fram einhverja ákveðna stefnu í þessum vandamálum og benda á, hvernig hann vill lagfæra ástandið. Þá væri hægt að taka upp rökræður á alvarlegum grundveili. En það hefur skort á það hingað til og einnig í þessum umræðum, að hann benti á ákveðna leið; og hann vissi líka heldur lítið um, hvar hann stóð, þegar hann var í ríkisstjórn. Sú stjórn, sem nú situr, fær að kenna á því. Við fáum núna kröfur um milljónir eftir milljónir, sem lofað hefur verið að greiða á víssum tímum af þeirri stjórn, t.d. núna til hraðfrystihúsanna á 3. milljón, sem lofað var að greiða í október 1950. Með þessu móti var hægt að halda áfram að gefa með atvinnulífinu, svo lengi sem unnt var að fá lán. En sá tími er nú liðinn. — [Fundarhlé 15 mín.]