09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað fylgt þeim 3 meðnm. mínum. sem leggja til, að þetta frv. sé samþ., og ég hygg, að 4. meðnm., hv. þm. Siglf., hafi ekki verið á fundi þegar frv. var afgr. Á sínum tíma var breyt. þessi, sem nú er verið að afnema í bifreiðal., gerð með mjög ráðnum huga og eftir till. frá hæstaréttardómara, sem var til kvaddur að endurskoða bifreiðal. og taldi nauðsynlegt að setja þetta ákvæði í þau til þess að reyna að koma í veg fyrir þau mjög tíðu bifreiðaslys, sem eiga sér stað mjög mörg af völdum áfengisneyzlu. Ég hygg, að það sé ekki ofsagt að þessi ákvæði hafi orðið til þess að hamla nokkuð upp á móti þeim vanda, sem það yrði öllum vegfarendum að hafa menn undir áhrifum áfengis akandi á vegunum. Má vera, að eitthvað hafi dregið úr því í seinni tíð, vegna þess að ekki hafi verið fangelsi til þess að setja alla inn, sem gerðust sekir og voru dæmdir fyrir að aka bifreið undir áhrifum áfengis, og á seinni árum hefur verið tekinn upp sá háttur að náða menn frá þessum dómum, jafnvel svo hundruðum skiptir, og breyta refsingunni í sekt með tilliti til efnahags viðkomandi manns. Nú veit ég ekki til þess, að nokkurs staðar sé fordæmi fyrir því í l. né heldur réttur til þess samkv. þeim, að sekt fyrir brot á umferðarreglum megi fara eftir því, hver efnahagur manna er, heldur mun það vera föst regla, að sekt fari eftir því, hversu brotið er metið af hálfu dómstólanna. Ég hygg þess vegna, að þessar ráðstafanir, þar sem mönnum eru gefnar eftir fangavistir eftir því hvað þeir borga mikinn skatt í ríkissjóð, séu eins dæmi í okkar réttarfarssögu, og verð ég að harma, að hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur til þess að gefa skýringu á þessu fyrirbæri. Þetta er kapítuli út af fyrir sig. En það, sem ég tel alvarlegast, er, að í stað þess að reyna að bæta úr þeim mikla skorti, sem er á fangelsum í landinu, þá er fangelsiskostur okkar alls ekki miðaður við þann fólksfjölda, sem hér er í landinu. Ég hygg, að afnám þessa ákvæðis geti valdið því, að menn verði nokkru kærulausari en þeir hafa verið áður um akstur á vegum, og er þó sannarlega ekki á bætandi, og ég hygg, að það hefði verið nær að leita einhverra ráða til þess að reyna að leysa þetta mál á annan hátt en með því að flytja þetta frv., sem hér er fram borið, — ég hygg, að það hefði í alla staði verið meiri trygging í því fyrir öryggi almennings. Einnig verð ég að finna að því, að þessu frv. er hraðað í gegnum Alþ. án þess að leitað sé umsagnar þeirra manna, sem mest hafa með þessi mál að gera, svo sem sakadómara og þeirra hæstaréttardómara, sem á sínum tíma voru hafðir í ráðum um samningu á þessari breyt. Ég verð að lýsa óánægju minni yfir því, að ekki hefur verið leitað annarra ráða til þess að reyna að bæta úr þessum vandræðum, þó að ég skilji fyllilega þann vanda, sem hæstv. dómsmrh. er í gagnvart þeim skorti, sem ríkir um fangahúsakost hér á landi.

Annars gætu einmitt ástæðurnar fyrir þessu frv. orðið til þess, að það vaknaði hjá mönnum sú spurning, hvort það mundi ekki vera nauðsynlegt að breyta ýmsu öðru í okkar löggjöf vegna þess, að okkur vantar fangelsi. En það fer þá að verða einkennilegur grundvöllur undir okkar réttarríki, ef það verður að ákvarða refsingu eftir því, hvort til eru fangahús eða ekki. Mér finnst full ástæða til þess að varpa þessum spurningum fram til hæstv. dómsmrh. í sambandi við afgreiðslu þessa máls.