24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

56. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. færði í tal í nefndinni það sjónarmið, sem hann nú hefur gert grein fyrir. Hins vegar gat meiri hl. n. ekki fallizt á hans tillögur, að ríkinu sé skylt að láta unglingafræðslunni líka bækur í té. Eins og kunnugt er, er svo til ætlazt í skólalöggjöfinni, að gagnfræðastig nái yfir fjögur námsár. Tvö hin fyrri námsár er um unglingafræðslu að ræða og eftir það er lokið unglingaprófi, þá miðskólanám og loks eftir hið fjórða skólaár ljúki nemendur gagnfræðaprófi. En nú er þessu svo háttað, að mestur hluti þeirra bóka, sem notaðar eru á gagnfræðastiginu, eru notaðar fleiri en einn vetur. Ef ætti að breyta þessu samkv. till. hv. 5. landsk., þá liggur það í augum uppi, að þetta yrði ekki framkvæmanlegt nema komin væri á alger skipting, þannig að sérstakar bækur væru notaðar fyrir unglingastig og sérstakar fyrir gagnfræðastig að öðru leyti. Og þó að svo yrði, er ljóst, að í gagnfræðaskólum og héraðsskólum yrði niðurstaðan sú, að sumir nemendur þessara skóla fengju bækur ókeypis frá ríkisútgáfunni, en aðrir yrðu að kaupa þær.

Það er eðlilegasta skipunin, að skyldan í þessu efni nái til barnafræðslunnar, en heimildin, sem jafnframt er í lögunum, nái til gagnfræðastigsins alls.

Af þessum ástæðum vildi meiri hl. n. ekki fylgja brtt. á þskj. 179.