13.12.1950
Efri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

47. mál, loðdýrarækt

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef kannske átt nokkurn þátt í þeim sáttatilraunum, sem hér hefur verið rætt um, en ég gerði það ekki með það fyrir augum, að leyfið til minkaeldis verði framlengt eftir 5 ár. Við vildum sumir, að leyfið væri aðeins 3–4 ár, en sættum okkur þó við 5 ár, því að með því væri minkaeigendum gefinn svo langur frestur til að koma þessum fénaði í verð, að ekki mundi vera hægt að sækja ríkissjóð til skaðabóta, þótt minkaeldi yrði að þeim tíma liðnum bannað. Hv. 1. þm. N-M. upplýsti, að skaðabæturnar, sem vofðu yfir, ef ráðizt væri í eyðileggingu aliminkanna nú, gætu numið á 2. milljón króna, og vildi ég því láta þetta koma fram, að við teljum minkaeigendur ekki eiga kröfurétt á hendur ríkissjóði, ef svona verður farið að.