23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfáar fyrirspurnir til yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins og þá aðallega í sambandi við 19. gr. fjárl. Ég er ekki fróður um þessi mál, en ég hef haldið, að sú grein væri til þess ætluð að taka á móti því, sem ekki ætti annars staðar heima á fjárl. Ef við lítum yfir þessa grein, þá kennir þar margra grasa. Þar á meðal er bifreiðakostnaður stjórnarráðsins rúmlega 117 þús. kr. Ég vildi nú spyrja um, hvort þessi liður ætti þarna heima. Annan kostnað við ráðuneytið er að finna á öðrum stað, og ég hefði ætlað, að þetta ætti þar einnig heima. Það er auðvitað ekki við að búast, að yfirskoðunarmennirnir fari að gera aths. út af þessu, þar sem svo langt er um liðið og tilgangslaust að fara að rifja það upp, en ef yfirskoðunarmennirnir vildu gefa upplýsingar um, hvort hér væri um allan bilakostnað stjórnarráðsins að ræða eða aðeins einhvern hluta hans; þá þætti mér vænt um það, en ég undrast, að þessi liður skuli vera í 19. gr. — Þá er í sömu grein að fínna greiðslur fyrir prófdómarastörf, 25 þús. kr., og er það líklega við ríkisskóla, en eðlilegast er, að þessar greiðslur hefðu verið undir viðkomandi skóla eða skólum. Þá er kostnaður í sambandi við skattdómara, en sá liður er annars staðar, og virðist því eðlilegast, að þessi kostnaður hefði einnig verið þar, en hér er sennilega um að ræða kostnað, sem ekki hefur verið búizt við. En ég hefði löngun til að vita, hvernig á því stendur, að þessir liðir eru í 19. gr., og hvort yfirskoðunarmennirnir telja ekki, að þessir liðir eigi að koma á sína réttu staði.

Þá er í 19. gr. getið um kostnað við reikningsúrskurði, en ég veit ekki, hvað við er átt með því, en það má ætla, að um sé að ræða úrskurð á því, hvort greiða skuli vissa reikninga, sem á ríkissjóð berast, en slíkt finnst mér, að eigi heima í fjármálaráðuneytinu.