08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Gísli Jónsson:

Til að fyrirbyggja misskilning skal ég taka það fram, að þær aths., sem ég flutti fyrir hönd fjhn., eru ekki gerðar sem nein ásökun, hvorki á núv. né fyrrv. fjmrh., heldur er það aðeins gert vegna þess, sem fram hefur komið í reikningnum.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að rétt væri, að endurskoðendur spyrji um þetta næsta ár, þá tel ég betra fyrirkomulag, að endurskoðendur og ríkisstj. komi sér saman um endanleg svör, áður en ríkisreikningurinn er lagður fram, en ekki sé verið að skjóta þessu til næsta árs, eins og hæstv. ráðh. talar um. Auk þess vil ég benda á í sambandi við 1. lið, eftirstöðvar, að á reikningnum 1948 hafa eftirstöðvarnar hækkað stórkostlega á þessu árí, og hafa þó endurskoðendur fylgt þeirri reglu, sem hæstv. ráðh. talaði um, að finna að því næsta ár á eftir; það mun hafa verið fundið að þessu frá ári til árs. Hér á reikningnum fyrir árið 1948 hafa eftirstöðvarnar hins vegar aukizt um milljónir. Nú má ekki skilja þessi orð mín þannig, að ég telji nokkuð óeðlilegt, að eftirstöðvar aukist frá ári til árs, en hitt er annað atriði, að ég tel sjálfsagt, að endurskoðendur geti um þær aths. í reikningnum 1948, því að þá eru stórkostlega auknar útistandandi skuldir um áramót.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það hefðu verið settir á dráttarvextir, sem ég hefði ekki verið glaður við. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að blanda því ekki saman, hvort verið er að setja dráttarvexti til þess að innheimta eða eins og hér, þar sem eru hærri vextir en hjá verstu okurkörlum, og Alþ. hefur búið til l., þar sem þessu er misbeitt. Rök mín fyrir því að hafa ekki dráttarvexti eins og þeir eru settir í frv. eru þau, að ríkissjóður tekur 121/2%, en þegnarnir fá ekkert, þegar þeir hafa ofgreitt, og það er áreiðanlegt, að ef ekki er til nein önnur leið en þessi rangláta leið til þess að ná inn tekjum í ríkissjóð, þá er betra að fá aðra betri leið en dráttarvextina.

Í sambandi við svar hæstv. ráðh. út úr póstsjóði vil ég einnig benda á, að þessi sama aths. gengur aftur í gegn 1948, virðist því ekki hafa tekizt að bæta neitt um í þeirri stofnun í rekstri. — Hið sama gildir um útvarpið, það er þessi sama aths. um útvarpið 1948, og hafði þá þessi ráðh. einmitt með þau mál að gera á þeim tíma, sem aths. er gerð, og það virðast ekki enn hafa verið gerðar ráðstafanir til þess af þeim, sem standa fyrir þessari stofnun, að fara sjálfir í þau mál til þess að athuga, hvernig hægt er að láta þennan rekstur bera sig betur en verið hefur.

Það er nokkur misskilningur hjá hæstv. ráðh. í sambandi við bílskrjóðinn, sem hann talaði um. Ég lét engin orð liggja að því, að það hefði átt að taka þennan gamla bilskrjóð af Svifflugfélaginu. Ég benti aðeins á þær aths., sem koma fram við reikninginn hjá yfirskoðunarmönnum. Þeir telja þessa ráðstöfun ekki rétta, og kemur það ekkert málinu við, hvort um er að ræða minni eða stærri upphæð. Hvort rétt var að gera þetta eða ekki, er ekki minn dómur, heldur endurskoðenda. Ef ríkisstj. hefur á sínum tíma ekki fengið endurskoðendur til þess að fallast á þetta, þá er það ekki sök frsm. fjhn.; það var mál milli þessara 2 aðila, og var eðlilegt, að það væri gert upp áður en reikningurinn var gefinn út og prentaður, svo að ekki þyrfti að koma til deilna um þetta smáatriði hér í þinginu. En ég taldi mér skylt að benda á þau atriði, sem aths. eru gerðar við, hvort sem upphæðirnar eru stórar eða smáar. Ef hér vantaði heimild til þess að ráðstafa ríkisins fé, þá átti að afla þeirrar heimildar. Annars viðurkenni ég, að það eru smámunir hjá ríkisstj., þó slíkt sé látið af hendi, því að ég sé ekki betur en að hún hafi látið af hendi á annað hundrað milljónir án þess að spyrja um heimildir og engra heimilda var leitað fyrir, fyrr en ef verið er að gera það nú.

Ég læt þetta svo nægja, en ég vil vænta þess, að þessi mál verði betur upplýst milli ráðuneytanna annars vegar og endurskoðenda hins vegar, svo að Alþ. þurfi ekki að vera að taka þessi mál til umr.