30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

95. mál, skipun prestakalla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hefur séð sérstaka ástæðu til að lýsa því hér yfir í ræðu, að hann sé heiðinn, en þó telur hann það vera af lotningu fyrir þeim stað, þar sem kristni var lögtekin á Íslandi, að þar þurfi endilega að vera prestur. Ég vil biðja hv. þm. Barð. að líta í það frv., sem hér liggur fyrir, og athuga, hvort nokkuð sé verið að traðka á helgi Þingvalla, en þar stendur undir 29. lið: „Þingvellir: Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir.“ Þetta er því vindmylla, sem hann er að berjast við og hefur orðið frægum manni að falli. En ef hv. þm. Barð. er svo umhugað um að halda uppi heiðri þeirra staða, sem hann var að tala um, þætti mér eðlilegra, að hann kæmi fram með sérstakt frv. um að gera Þingvelli og Rafnseyri að heiðursprestaköllum. Að öðru leyti er ræða hans ekki svaraverð, því að hún var öll staðlausir stafir.