13.02.1951
Neðri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil segja fáein orð út af því, sem þingmenn hafa sagt um þetta mál. — Vík ég þá fyrst að Alþýðuflokksþingmönnum, hv. 8. landsk. (StJSt) og hv. þm. Hafnf. (EmJ). Það má segja, að í ræðum þeirra beggja hafi verið sami tónninn og að miklu leyti sama efnið. Höfuðatriðið hjá þeim var það, að það ætti að vara sig á erlendum lántökum og hér væri á ferðinni skuldasöfnun og farið væri inn á nýja braut, að láta lán ganga til fyrirtækja, sem ekki skiluðu erlendum gjaldeyri. En þegar ræður þessar eru krufnar til mergjar, má greinilega sjá, að það, sem hér býr undir, er andstaðan gegn því að taka erlent lán vegna landbúnaðarins. Það er sá þyrnir í þeirra holdi. Aðra eins fjarstæðu hafa þessir þm. víst ekki heyrt og vara við að framkvæma slíka óhæfu. Hér lá hundurinn grafinn, eins og menn segja. Í þessu sambandi vil ég benda á, af hve miklum heilindum þetta er sagt um hið fyrirhugaða lán til landbúnaðarins.

Á undanförnum missirum hafa verið samþykktar hér á Alþingi lántökuheimildir fyrir ýmsum framkvæmdum án þess að nokkurn tíma hafi heyrzt rödd frá þessum flokki um það að vara sig á lántökum. Ég vil hér líka minna á þær lántökuheimildir, sem þegar er búið að nota, t.d. 32 millj. kr. Marshalllán til síldar- og fiskiðnaðar. Enn fremur lántaka til Sogsins og Laxár, 32 millj. kr., og svo nú síðar lántaka hjá Alþjóðabankanum, líka til Sogs- og Laxárvirkjunar, 34 millj. króna. Þetta gerir samtals tæpar 100 millj. Og þá eru líka lán til nýju togaranna allt að 80 millj. kr. Þetta eru allt lántökur, sem sagt 480 millj., sem þessir hv. þm. hafa samþ. án þess að vara við erlendum lántökum. Og nú fyrir nokkrum dögum var veitt heimild til að taka erlent lán til sjúkrahúsa, og heyrðist þá ekkert varnaðarorð frá þessum mönnum, og engum dylst þó, að sjúkrahúsin geta ekki greitt sín lán í erlendum gjaldeyri. Það er augljóst mál, hver ástæðan er. Þessir menn hafa gengið vel fram í því að undirbúa erlendar lántökur og áttu t.d. sæti í þeirri ríkisstj., sem keypti nýju togarana. Spurningin er því ekki sú, hvort verið sé að leggja út á nýja braut. Það er ekki verið að lána. til fyrirtækja, sem borga aftur í erlendum gjaldeyri. Ég vil spyrja: Geta Sogið og Laxárvirkjunin komið með gjaldeyri til að standa undir hinum er lendu lánum? Ég er hissa á, að það skuli vera borin fram slík fjarstæða af svona greindum mönnum, að það eigi ekki að taka lán til fyrirtækja, ef þau geti ekki sjálf borgað gjaldeyri til að standa undir hinum erlendu lánum. Það er vissulega rétt, að lántökur til virkjana eiga rétt á sér, þótt þær geti ekki sjálfar komið með dollarana eða pundin. Þetta er því ekki lítil fjarstæða hjá þessum hv. þm. Það getur verið jafnþýðingarmikið, að fyrirtæki séu rekin til þess að þau spari erlendan gjaldeyri eins og að þau afli hans. Eftir þessari kokkabók hefði t.d. ekki átt að veita hitaveitu Reykjavíkur lán, af því að hún gefur ekki af sér pund. Og því vilja þessir hv. þm. ekki veita landbúnaðinum lán, af því að þeir hafa ekki trú á honum. Þar skilur á milli feigs og ófeigs. Það ættu þessir hv. þm. að vita, að þeir vantreysta landbúnaðinum sem atvinnugrein. Hitt er helber hégómi, að hér sé verið að fara inn á nýjar brautir. Ef þetta mál er athugað, getur landbúnaðurinn staðið undir lánum sínum með tvennu móti: 1) Framleitt vörur til útflutnings. Á síðast liðnu ári voru landbúnaðarvörur fluttar út fyrir 8% af útflutningi þjóðarinnar, og er það meira en ísfisksútflutningurinn var það ár, og var þó hér aðallega um ull að ræða. Nú á að selja út kindakjöt á erlendum markaði með góðu verði. 2) Sparað erlendan gjaldeyri með því að framleiða vöru fyrir innanlandsneyzlu í enn stærri mæli, vegna þeirra verðmæta, sem landið sjálft býður. Það er hrein villa, að hér sé lagt út á nýja braut og nú eigi í fyrsta skipti að taka lán til fyrirtækja, sem sjálf geti ekki komið með erlendan gjaldeyri. Enn hefur hér verið minnzt á, að það væri nýmæli að taka lán til annars en tiltekins verks eða tiltekins fyrirtækis, en þetta er alls ekki nýmæli. Það hafa verið tekin lán til almennrar starfsemi oftar en einu sinni. Jafnvel þó þetta væri nýtt, væri það ekki athugavert á neinn hátt, ef menn hafa á annað borð trú á landbúnaðinum. En hér er þetta vantrú og misskilningur hjá hv. þingmönnum. — Það er auðvitað full ástæða til að sjá fótum sínum forráð um erlendar lántökur, en hitt er svo annað mál, að við getum ekki hrundið í framkvæmd ýmsum umbótamálum, nema nota til þess erlent lánsfé, og þá á að taka lán til skynsamlegra fyrirtækja. Við tókum lán til ýmissa fyrirtækja fyrir stríð og gafst það yfirleitt vel. Og það er ákaflega þýðingarmikið að verja þessu fé á skynsamlegan hátt, og ríkisstj. álítur það sérstaklega þýðingarmikið að stöðva ekki þróun landbúnaðarins, en í veg fyrir það er ekki hægt að koma, nema með því að taka erlent lánsfé. Þetta byggist því á því, að menn hafi trú á landbúnaðinum, en þeir, sem hafa vantrú á honum, telja, að ekki sé eðlilegt að taka erlent lán; það eigi að stinga fótum við erlendum lántökum. Það væri miklu hreinlegra og virðingarmeira fyrir þessa menn að játa það blátt áfram, að þeir hafi ekki trú á landbúnaðinum og vilji ekki þess vegna leggja honum til lánsfé, heldur en að leika hér tveim skjöldum og þykjast vilja vara við erlendum lántökum og hér sé verið að leggja inn á nýja braut. Þetta læt ég nægja almennt um málið.

Þá vil ég segja hér fáein orð út af þeim hluta lánsins, sem á að verja til iðnaðarins. Mér kom afstaða hv. þm. Hafnf. mjög á óvart í því máli. Mér finnst að flm. frv. um iðnaðarbanka ætti að fagna því, að ríkisstj. ætlar að taka lán, sem á að verja til iðnaðarins. En hv. þm. Hafnf. sagði, að þetta væri skaðlegt og ætti að strika það út. Þetta er vægast sagt furðuleg afstaða. Ef hv. þm. Hafnf. vill á annað borð lána nokkuð til iðnaðarins, finnst mér, að hann ætti að vera ánægður, þegar ríkisstj. er að útvega fjármagn til iðnaðarins. Og hann finnur það málinu helzt til foráttu, að féð muni verða svo seint til ráðstöfunar. Hér er meira en lítið ósamræmi í máli þessa þm., því að mig rekur minni til, í sambandi við frv. um iðnaðarbankann, að hann hafi lagt til, að þar skyldi helming þeirrar fjárhæðar vera varið til iðnaðarins á þessu ári og helmingnum af þessum 3 millj. síðan á árinu 1952. Ég skil ekki afstöðu þessa þm., að hann skuli ekki vera ánægður með þessa ráðstöfun ríkisstj., ef miðað er við það, sem hann hefur áður lagt til í iðnaðarbankamálinu.

Hv. 7. þm. Reykv. (GTh) tók aðra afstöðu og taldi það ávinning, ef stjórninni tækist að útvega fjármagn til að lána iðnaðinum. Út af upphæð þessarar lánsfjárhæðar vil ég láta þess getið, að hún var miðuð við þær till., sem fram höfðu komið í sambandi við iðnaðarbankann, og þess vegna var þessi upphæð höfð, og gert er ráð fyrir, að útvegað verði fjármagn innanlands á móti til þess að efla þessa starfsemi. Gert var ráð fyrir í frv. um iðnaðarbankann, að 11/2 millj. kæmi frá ríkinu og hitt annars staðar frá. Ég vil taka það fram vegna þess, sem hv. þm. Hafnf. sagði um tilhögun lánanna, að í grg. frv. er það tekið fram, að það, sem lánað verði stofnlánadeild Búnaðarbankans, verði lánað út með sömu kjörum þessara stofnana. Þetta liggur ljóst fyrir.

Þá vil ég víkja að þeirri spurningu, hvers vegna stjórnin leggur til að taka erlent lán í þessu skyni, sem hér um ræðir, og er hér um að ræða orð hv. 2. þm. Reykv. Ríkisstj. álítur, að lánsfjárfestingin sé þannig, að ekki sé á hana bætandi, og fjárlögin eru þannig, að ríkisstj. treystir sér ekki til að setja meira á þau til lána. Þá er ekki hægt að bjóða hér út lán innanlands. Þá er ekki eftir nema að auka seðlaútgáfuna, og þá leið álítur ríkisstj. ófæra. Ríkisstj. álítur, að fjárfestingin sé sízt minni, jafnvel meiri miðað við það neyzlustig, sem menn sætta sig við hér. Fjárfestingin getur ekki aukizt nema til komi aukning verðmæta í landinu, og þessi leið, að leita eftir erlendu láni, yrði til þess, að fjárfestingin yrði meiri en ella sem næmi hinum erlendu lántökum. Það er hinn almenni lánsfjárskortur innanlands, sem veldur því, að það hefur verið látið undir höfuð leggjast að taka erlent lán. Ég ætla, að það sé öllum ljóst, að það er síður en svo, að peningamagnið sé minna en vörumagnið, og nýjar lánveitingar, eins og nú standa sakir, af bankanna hálfu mundu hafa í för með sér nýja verðbólgu. Auðvitað getur þetta ástand breytzt, en stjórnin miðar við ástandið, sem nú er. — Ég ætla að þetta sé greinilegt svar við fyrirspurnum hv. 2. þm. Reykv. varðandi hinar erlendu lántökur. Það er einmitt það, sem stjórnin álítur ekki vera fært eins og sakir standa, af ástæðum, sem ég hef greint í fáum orðum, en einnig mætti greina í lengra máli, sem ég sé ekki ástæðu til að gera hér.

Ég skal svo taka fram, að ég verð að fara frá, og væri þess vegna eðlilegast, að umr. um þetta mál yrði frestað, þar sem ég hef vikið nokkuð að ræðumönnum og ég býst við, að það mundi ekki þykja viðkunnanlegt, að umr. yrði haldið áfram án þess, að ég væri viðstaddur.