05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur, þegar mál þetta var afgr. í fjhn., vegna þess að mér höfðu ekki borizt fundarboð. En ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. við frv. í n. og freista þess, hvort hægt væri að fá hana samþ., en þar sem það hefur ekki tekizt, úr því að svona tókst til, hef ég ákveðið að koma með brtt. við frv., sem þegar er komin í prentun, en þar sem ekki hefur unnizt tími til að prenta hana, verð ég að leggja hana fram skriflega.

Að því er snertir frv. í heild er enginn ágreiningur um lánsheimild til togarakaupanna, og er ég henni að sjálfsögðu samþykkur. Hvað snertir lánsheimildir til Búnaðarbankans og til stofnunar iðnaðarbanka eða til iðnaðarsjóðs, þá tel ég í alla staði mjög óæskilegt að þurfa að taka lán erlendis í þessu skyni. Ef hins vegar er ekki annars kostur, eins og fjármálastjórnin er í landinu, til þess að landbúnaðurinn og iðnaðurinn geti fengið nauðsynleg lán og nauðsynlegan erlendan gjaldeyri til að starfa með venjulegum hætti, en að taka lán erlendis, þá kýs ég þann kost frekar, ef ekki er hægt að bæta úr brýnustu nauðsyn þessara atvinnugreina með neinum öðrum hætti. En ég tel, að það sé engu síður þörf á lántöku til íbúðarhúsabygginga í fjölbýlinu út frá sama sjónarmiði, og ég er samþykkur hv. 4. þm. Reykv. (HG), að svo framarlega sem á að fara inn á þessa braut, sé ég, að ekki sé hægt að standa á móti því, eins og á stendur nú að því er snertir íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum, að veitt sé lán til þeirra framkvæmda. Það mál er svo þrautrætt, og allir vita ástandið í þessum efnum, að ekki er þörf á að fjölyrða um það, ekki hvað sízt, þar sem ég bar fram brtt. við frv. um lánsheimild til yfirdráttarláns hjá Greiðslubandalagi Evrópu, sem ég gerði þá grein fyrir, en var felld. Fjallaði hún um, að lán yrði einnig veitt til kaupa á byggingarefni til íbúðarhúsa erlendis frá. Ég tel, að þessari lántöku eigi aðeins að verja til kaupa á erlendu efni, og það er beinlínis tekið fram í þeirri till., sem ég mun leyfa mér að bera fram að því er snertir lánsheimild til íbúðarhúsabygginga. Í fyrsta lagi er till. á þá leið, að lánsheimildin verði hækkuð úr 43 millj. kr. upp í 55 millj. kr., og að aftan við 2. gr. bætist — með leyfi hæstv. forseta: „og enn fremur allt að 12 millj. króna til þess að lána byggingarsjóði verkamanna, byggingarsamvinnufélögum og sveitarfélögum þeim, er byggja til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum, enda noti þessi félög féð eingöngu til kaupa á erlendu efni til íbúðarhúsabygginga.“

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.