05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja hér nokkur orð út af þeim umr., sem hér hafa orðið varðandi lán til togarakaupa.

Hv. 4. þm. Reykv. taldi, að með þessu frv. væri verið að gera upp á milli lántakenda varðandi gengisáhættu. — Þegar samið var um byggingu togaranna, var einnig nokkru síðar samið um sérstakt lán, sem er um 70% af andvirði skipanna, eins og getið hefur verið um, eða 125 þús. sterlingspund á hvert skip, og er þetta óviðkomandi því frv., sem hér er á ferðinni, og var afgr. áður hér á Alþ. Þetta lán verður látið fylgja togurunum með 1. veðrétti í skipunum og á að greiðast upp á 20 árum. Fyrstu 5 árin greiðast aðeins vextir, en síðan vextir og afborganir á næstu 15 árum. Það er þetta lán, sem útgerðarmenn hafa tekið að sér að greiða og bera áhættu af gengisfellingu eða eiga von á gengisgróða, ef til kemur.

Ég var í n. þeirri, sem hafði með mál þetta að gera, og mér hefði þótt eðlilegra að útgerðarmenn hefðu tekið á sig þessi 20%, einvörðungu vegna þess, að ég lít svo á, að ef breyting verður á gengi, komi það útgerðarmönnum til góða, ef gengið fellur, en útgerðarmenn tapi á því, ef það hækkar, en um þetta varð ekki samkomulag í n. Það er auðvitað alveg sama, þó útgerðarmenn beri ekki áhættuna á þessum mismun, en hann er ekki 25 millj. króna, heldur sem næst 21 millj. króna. Þessi áhætta, sem ríkissjóður ber, er sem sagt eingöngu gagnvart gengisbreytingu. Útgerðarmenn fengu þetta fé með 4% vöxtum. Þeir áttu þess kost að gera hvort sem þeir vildu heldur, að taka þetta fé með stofnlánadeildarvöxtum og bera sjálfir áhættuna, eða taka féð með 4% vöxtum og ríkissjóður bæri áhættuna, og þeir völdu hið síðara, svo hér er ekki um annað að ræða en 25 millj. kr. lán, sem ríkissjóður ber enga áhættu af aðra en gagnvart gengisbreytingu, svo ég get ekki talið, að mikið sé verið að mismuna atvinnuvegunum með afgreiðslu þessa máls. Hins vegar get ég ekki fallizt á rök hæstv. ráðh. um, að landbúnaðurinn sem slíkur beri áhættuna af gengisfellingu á því láni, sem ætlað er Búnaðarbankanum. Landbúnaðurinn á ekki bankann. Búnaðarbankinn er eign ríkissjóðs, og þar að auki er landbúnaðurinn engan veginn eini atvinnuvegurinn, sem hefur viðskipti við hann. Hann hefur m.a. haft mikil viðskipti við sjávarútveginn, svo landbúnaðurinn ber enga áhættu af þessu láni fram yfir aðra atvinnuvegi. Frá þessu vildi ég skýra.

Í sambandi við togarakaupin er rétt að benda á, að ríkissjóður tekur enga áhættu á sig aðra en þá, sem stafar af gengisfellingu, því að allur kostnaður við kaup og smíði togaranna er reiknaður í. kaupverði togaranna sem jafnaðarverð á hvert skip.

Í sambandi við niðurlag 2. gr. vil ég benda á, að þar stendur, að tekið skuli allt að 3 millj. króna lán til stofnunar iðnaðarbanka eða til iðnlánasjóðs, enda komi jafnhátt framlag annars staðar að. Þetta er skilið svo af hæstv. ráðh., að þetta framlag eigi að koma frá hluthöfum í iðnaðarmannastéttinni, og það kemur alveg heim, ef stofnaður er banki. En ef ekki er stofnaður banki, hvernig ber þá að skilja þetta? Ef þetta lán verður lagt í iðnlánasjóð, þá er gert að skilyrði, að það komi jafnhátt framlag annars staðar að. Þá skilst mér, að ríkið skuldbindi sig ekki aðeins til að lána þessar 3 millj., heldur jafnframt að taka jafnháa upphæð inn á fjárlög til iðnlánasjóðs. (Fjmrh.: Nei, það er ekki svo.) Hvaðan á þá að koma jafnhátt framlag? Það kemur ekki frá iðnaðarmannastéttinni. því ríkissjóður á sjóðinn. Ég fæ ekki skilið þessa grein öðruvísi. Ef ekki er stofnaður iðnaðarbanki og haldið verður sama kerfi og verið hefur á iðnlánasjóði, þá skuldbindur ríkissjóður sig til að fá iðnlánasjóði þetta fé og þar að auki jafnháa upphæð á fjárlögum. Ég vil gjarnan ræða þetta við hæstv. ráðh. Ef hæstv. ráðh. hefur hugsað sér annað, þá verður að breyta greininni. Ég skil greinina svona og finnst það eðlilegur skilningur og fylgi greininni með heim skilningi. En ef hæstv. ráðh. hefur skilið greinina öðruvísi, þá er bezt að láta það koma fram, svo enginn misskilningur eigi sér stað.