28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

115. mál, sala lögveða

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er reglan sú, að ef maður á skuld að heimta og skuldunautur vill ekki greiða, þá þarf fyrst að höfða mál og fá dóm, síðan að gera aðför og loksins stundum að fá eignir seldar á uppboði, sem teknar eru fjárnámi, svo að það er fyrst eftir uppboðið, að skuldin fæst greidd. Lengi hefur þó sá háttur verið á hafður um öruggari skuldir, að þá sé heimiluð einfaldari aðferð og veittur lögtaksréttur án undangenginnar málsóknar, og síðan er hægt að selja hinar lögteknu eignir við uppboð. Einnig er það þekkt, að skuld sé talin svo örugg, að heimilt sé að sleppa bæði málsókn og lögtaki og leyfilegt að ganga að eignum umsvifalaust og selja á uppboði. Ef slíkt væri mjög algengt, mundi það ef til vill þykja helzti lítið réttaröryggi, en þetta hefur tíðkazt alllengi um skuldir, sem sérstakan forgangsrétt hafa og taldar eru mjög öruggar. Nú hefur verið ákveðið, að fyrir einstökum gjöldum er veð í ákveðnum eignum, og þá hefur verið heimilað um innheimtu slíkra skatta, að ganga mætti að veðunum án þess að heimila lögtak, og er í þessu fólginn verulegur sparnaður fyrir hina opinberu innheimtu. Það, sem til er ætlazt með þessu frv., er að rýmka heimildina til að sleppa undanfarinni málsókn og lögtaki og veita auknar heimildir til að ganga að eignum með uppboði, án þess þó að stofna réttaröryggi þegnanna á neinn hátt í voða. Hugmyndin er komin frá gjaldheimtumönnum ríkisins og fjmrn. og var lögð fyrir dómsmrn., sem athugaði málið ýtarlega, og varð þá að ráði að flytja þetta frv. Það mundi, ef að l. yrði, hafa í för með sér verulegan snarnað við skattheimtu hins opinbera, en svo er gengið frá, að það skerðir á engan hátt réttaröryggi þegnanna, þótt samþ. sé. Því legg ég eindregið til. að fm. verði samþ., og óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.