05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

194. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 799, hefur gengið í gegnum Nd., og eins og frv. ber með sér, þá er hér um að ræða breyt. á l. nr. 50/1950, um togarakaup ríkisins, en þar eru ákvæði um það, að ríkisstj. sé heimilt að lána kaupendum togaranna allt að 75% af andvirði þeirra. Í aprílmánuði s.l. var svo auglýst eftir kaupendum að togurunum með þeim kjörum, sem l. heimiluðu, en engir kaupendur gáfu sig fram með þeim kjörum, og þegar sýnt þótti, að ekki mundi vera hægt að selja skipin á þeim grundvelli, þá ákvað ríkisstj. í samráði við n. þá, sem sá um úthlutun skipanna, að rýmka um kjörin upp á væntanlegt samþykki Alþ., þannig að láta lán, sem næmi allt að 90% af andvirði skipanna, fylgja þeim. Það hefur nú verið samið af hálfu ríkisstj. um sölu á allmörgum af hinum 10 togurum með þessum kjörum. Frv. er því borið fram til að fá lagaheimild fyrir því, sem þegar hefur verið gert, og einnig fyrir þeim samningum, sem eftir er að ganga frá. En það hefur fleira komið inn í málið hér í þinginu bæði fyrr og síðar. Eins og hv. þm. muna, var við afgreiðslu fjárl. samþ. svo hljóðandi heimild fyrir ríkisstj. í 22. gr. XVII. lið: „Að gera ráðstafanir til þess, að nokkrir hinna nýju togara, sem nú eru í smíðum, verði staðsettir á þeim útgerðarstöðum, sem við erfitt atvinnuástand búa.“

Eftir að Alþ. hafði samþ. þessa heimild, þá var ljóst, að ríkisstj. þurfti að breyta til um úthlutunaraðferð á togurunum. Hún leit svo á og lítur svo á, að ekki beri eingöngu að fara eftir því, hvar er hægt að komast að hagkvæmustum kjörum, heldur eftir því, hvar þörfin sé mest. Af þessum ástæðum er því vitnað í 1. gr. þessa frv. til XVII. liðar fjárl. fyrir 1951, og í Nd. kom fram í umr. hjá hv. 1. flm. till. í vetur, að svo er litið á þetta, að ríkisstj. sé ekki bundin við almenn kjör, heldur hvað nauðsynlegt sé að gera fyrir þá staði, sem verst eru staddir. Mér þótti rétt að taka þetta fram hér við 1. umr., því að þetta er ekki sagt skýrt í till., þó að slíkt hafi verið tilætlun þeirra, sem fluttu till., og eins þeirra, sem stóðu að samþykkt hennar.

Þá var sett inn í frv. 2. gr. í Nd., þar sem ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán til kaupa á gömlum togurum og til að setja olíukyndingu í þá, gegn 1. veðrétti í skipunum, enda fari ábyrgðin ekki fram úr 75% af kostnaðarog matsverði skipanna með olíukyndingu. Ríkisstj. hugðist með þessu gera tilraun til að koma 2–3 af gömlu togurunum á veiðar. Ég hef litla þekkingu á þessum efnum og skal játa, að ég get ekki sagt út frá minni þekkingu, hvort þetta er hægt eða heppilegt, og skoðanir fróðra manna um þessi mál eru mjög skiptar. Telja sumir, að þetta sé vart mögulegt, en aðrir telja það vel fært. En 12–15 skip liggja nú og ryðga niður við hafnarbakkann, og athuga þarf, hvort ekki sé hægt að reka þau, en ríkisstj. mun ekki nota þessa heimild nema að ráði hinna beztu manna á þessu sviði, en sumir togaranna geta verið góðir, þó að aðrir séu slæmir, því að þeir eru af mismunandi gerð og aldri og misjafnlega meðfarnir.

Það er rétt að taka það fram hér við framsöguna, að í Nd. kom fram, að rétt væri að hafa þessa heimild víðtækari, en ríkisstj. beitti sér gegn því. Málið er enn svo lítið upplýst, og að dómi ríkisstj. er þetta nægilegt til að sýna, hvort heppilegt sé að fara lengra á þessari braut. Það er vafasamt að gefa eigendum allra gömlu togaranna í skyn, að þeir geti hlaupið til ríkisstj. og fengið styrk til viðgerðar á skipum sinum, og því vildi ríkisstj. ekki hafa þetta víðtækara, og náðist samkomulag um það við fjhn. Nd., þó að sumir vildu ganga lengra í þessum efnum. Mál þetta þarf að ganga í gegnum þingið, og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta og hv. þm., að þeir hraði málinu sem mest. Ég vil svo leggja til, að málínu verði vísað til hv. fjhn. að þessari umr. lokinni.