15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

59. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er leiðinlegt með hv. 1. þm. Rang., hve illa honum gengur að skilja þetta frv., og að hann skuli standa í þeirri meiningu, að haldið skuli áfram að safna skýrslum um atvinnuástandið í landinu, en ef þetta frv. verður samþ., þá er enginn til að sjá um slíka söfnun. Með því fyrirkomulagi, sem verið hefur á þessum málum, gat félmrn. ráðið því, að settar væru upp vinnumiðlunarskrifstofur, en með samþykkt þessa frv. er slíkt ekki lengur á valdi ráðuneytisins, svo að nú eru slík yfirráð ráðuneytisins um söfnun þessara skýrslna úr sögunni og það getur ekki lengur skipað fyrir um söfnun þeirra. Það má ef til vill segja, að ekki hafi orðið sá árangur af starfi skrifstofanna nú á undanförnum árum sem vera ætti, en það stafar af því, að um nokkurt árabil var enginn atvinnulaus í landinu, svo að ekki var fylgzt eins vel með í þessum efnum og skyldi. Nú er það svo með atvinnuskýrslur, að þær eiga ekki aðeins að fjalla um það, hvort menn séu atvinnulausir, heldur einnig hvaða vinnu hver einstakur maður stundi. Nú er það svo með ríkisstj., sem vilja fylgjast vel með því, sem er að gerast í landinu, að þær telja nauðsynlegt að fylgjast vel með atvinnuástandinu í landinu. Ef við tökum mikilsvirða nágrannaþjóð, t.d. Breta, sem dæmi, þá telja þeir sér vart annað fært en fylgjast vel með því, hve margir vinni við hverja atvinnugrein, t.d. við kolavinnslu, svo að þeir geti fært vinnukraftinn til eftir því, sem til þarf. Sama má segja um höfuðatvinnuvegina hjá okkur, sjávarútveg og landbúnað, að nauðsyn ber til að fylgjast vel með þeim. Hjá Fiskifélaginu mun vera hægt að fá upplýsingar um það, hve margir vinni að sjávarútvegi, en um það, hve margt fólk vinni að landbúnaði, munu engar skýrslur veia, nema manntal, sem tekið er á 40 ára fresti og önnur 10 ár tekur að vinna úr. Ég sá það nýlega í blaði eftir merkum búnaðarfrömuði, að hann taldi nauðsynlegt að breyta vinnumiðlunarskrifstofunum og breyta þeim þannig að safna skýrslum úr hverjum fjórðungi eða sýslu, en það er að tala fyrir daufum eyrum að ræða slíkt við hæstv. ríkisstj., og hv. 1. þm. Rang. vill ekki skilja þetta, því að hann hefur eins og hæstv. ríkisstj. bitið sig svo fast í þetta leiðindafrv.