16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið úr því sem komið er, úr því líka þeir, sem hafa hreyft þessu máli, eru að hallast út af, en ekki hægt annað en deila hart á þá, ef um það skal ræða.

Út af því, sem hv. 2. landsk. talaði um, þá var þar um misskilning að ræða varðandi hveitiverðið, sem ástæða er til að leiðrétta. Hann hélt, að samanburður minn hefði leitt í ljós, að við ættum þess kost að fá ódýrara hveiti, ef við hefðum fé handbært. Verðsamanjöfnuður minn var aðeins miðaður við það hveiti, sem búið er að kaupa til landsins, en ekki það, sem keypt verður í framtíðinni. Það væri freistandi í þessu sambandi að gera nokkra grein fyrir því verzlunarfrelsi, sem menn eru æ ofan í æ að staglast á, en það er ekki tími til þess nú. En ég vildi aðeins segja þetta, að það, sem fyrir mér vakir, er, að ef ég á og á meðan ég vil halda í afskipti ríkisvaldsins af þessum málum, þá vil ég reyna að koma í veg fyrir, að landsmönnum verði bakað tjón með óheppilegri samkeppni í útboði vörunnar. Ég geri þetta vegna þess, að ég hef langa reynslu í þessum efnum, og sú reynsla hefur leitt í ljós, að taumlaus útboð færðu landsmönnum mjög mikið tjón. Undir þann leka má kannske setja með því að setja lágmarksverð, en ég held, að ef svo yrði gert, þá felist í því viðurkenning á því, að ríkisvaldinu beri að skipta sér af viðskiptalífinu. Hvort til er sæmileg trygging fyrir því, að sú ráðstöfun skaði ekki þjóðina, orkar tvímælis. Sannanir í því efni mun erfitt að leggja á borðið. Ég hygg, að þeir, sem stunda viðskipti, mundu þá láta umboðsmenn sína flytja viðskiptamönnum á erlendum vettvangi þau skilaboð, að ef þeir bara biðu ögn, þá mundu þeir fá það fyrir 95 kr., sem þeir þurftu áður að borga 100 kr. fyrir. Það væri freistandi fyrir þá, sem ættu í hlut, að gera þetta, og slík skilaboð mundu geta valdið því, að þeir hikuðu við að festa kaup í bili, og yrði það þá máske til þess, að aðrir gætu ekki selt. Þessi freisting er að vísu ekki síður fyrir hendi í því skipulagi, sem nú ríkir, og ef ég gæti sannfærzt og fengið tryggingu fyrir því, að úr þessu mætti bæta, þá er enginn fúsari til þess en ég. Ég átti mikinn þátt í stofnun fisksölufélagsins, sem hér um ræðir. Ég starfaði þá í Kveldúlfi og hafði samtök við forráðamenn þar, ekki vegna þess, að stjórnarmenn þess félags væru öðrum færari eða frömuðir verzlunar í landinu, heldur var það hitt, að svo var ástatt, að þessir menn voru langstærstu fisksölumenn landsins og seldu 3 af hverjum 5 fiskum, sem fluttir voru út, og náðu því hærra verði og græddu meira en aðrir á fisksölu. Niðurstöður okkar urðu þær, að fiskframleiðendur færu á hausinn vegna óheppilegra útboða á fiskinum. Varð þetta til þess, að við snérum okkur til Magnúsar Sigurðssonar þáverandi bankastjóra og Ásgeirs Ásgeirssonar til þess að reyna að tryggja þessu félagsmáli okkar fylgi valdhafa í landinu. Það getur verið, að sú reynsla, sem ég fékk þá, rígbindi mig um of við óttann við að breyta til, en ég hef viljað hafa viðleitni til að auka frelsi á þessu sviði. Ég er ekki að segja, að mín stefna sé svo fast mótuð, að ég vilji ekki ræða skynsamlegar tillögur til úrbóta útflutningsverzluninni. En ég hef ástæðu til að óska eftir sem allra mestu frelsi í innflutningnum og ekki nema hæfilegum höftum í aflasölunni. Ég tel, að þetta skýri margt það, sem kom fram í ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa rætt um þetta mál.

Varðandi samning þann við Þýzkaland, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um, þá veit hann, að ríkisstj. gerði tilraun til að ná samningi við Austur-Þýzkaland í fyrra, og hann veit, að þá var ekki hægt að selja fisk þangað og litlar líkur til, að úr rættist. Ríkisstj. hefur viljað ná verzlunarsamningi við það land sem önnur lönd, ef mögulegt væri að fá þaðan vörur, sem okkur vanhagaði um, og fyrir gott verð.

Að lokum vildi ég svo segja það, að svo vanur útgerðarmaður sem hv. 2. landsk. má ekki láta sig henda slíka villu sem þá, að það sé vegna lélegrar frammistöðu, að við seljum ekki saltfisk suður á Ítalíu, þó að í dag sé hægt að selja hann þar fyrir hærra verð en við fáum nú fyrir hann. Verðsveiflurnar eru svo tíðar, og þar sem við erum lítil viðskiptaþjóð og höfum sölu í fáum löndum, þá eigum við það alltaf á hættu, að við missum einhvern spón úr okkar aski. En aðalatriðið er það, hvort heildarútkoman verði betri með því að hafa þetta svona eða öðruvísi. Þetta er svo alvarlegt mál, að það er betra að tala um það í fullri alvöru og kerskilaust. Það hlýtur hver maður að sjá það, að það er heildarútkoman, sem þarna verður að líta á. Aðalhættan er alltaf sú, að freistarinn komi og segi: „Viljir þú rjúfa samtökin og selja mér fiskinn, þá skaltu fá meira fyrir hann, því að ég borga betur.“ — Þetta gæti hann gert og eyðilagt samtökin og látið þjóðina með því borga þann blóðpening hundraðfalt. Þetta verður að hafa hugfast. — Það eru enn nokkur atriði, sem ég á ósvarað, en umr. hafa þegar staðið svo lengi, að ég vil ekki lengja þær.