18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fjölyrða um frv. sjálft, enda er það komið á lokastig afgreiðslu. Ég ætla að leyfa mér að bera hér fram till. um brb.-ákvæði aftan við 35. gr. frv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni heimilast að taka að láni fyrir hönd ríkissjóðs allt að kr. 6000000, er varið skal til greiðslu sjóveðskrafna sjómanna frá sumarsíldveiðum 1950, og skal því hraðað svo, að unnt verði að greiða kröfurnar fyrir jól“. Þeir sjómenn skipta nú hundruðum, sem ekki hafa fengið greidd laun sín frá síldveiðunum í sumar, sem að sjálfsögðu er til stórkostlegs baga fyrir þessa menn, en þar bætist svo ofan á, að flestir þeirra eiga enn inni hjá útgerðarmönnum allmikið af kaupi sínu frá síldveiðunum sumarið 1949, auk þess sem margir eiga líka sjóveðskröfur inni hjá útgerðarfyrirtækjum eftir þorskvertíðina í vetur og haust. Hv. þm. vita, að þau l. gilda, að sjómenn eru einir allra launþega hindraðir frá að geta krafið atvinnurekendur um að standa þeim skil á kaupi, og ég býst við, að ekkert verkalýðsfélag hafi sýnt annað eins langlundargeð í þessum efnum og samtök sjómanna, og þess vegna ætti þeim mun frekar að leggja þá skyldu á herðar Alþ. og hæstv. ríkisstj. að bæta hér úr og gera ráðstafanir til þess, að sjómönnum verði nú greidd laun sín fyrir jólin. Það er vitað, að þessar sjóveðskröfur eiga að greiðast með framkvæmd þessara l., sem hér eru til umr., en búast má við, að þeim greiðslum verði ekki lokið fyrr en einhvern tíma á næsta ári. En ég tel það ákaflega þýðingarmikið, að sjómenn fái þessar greiðslur fyrir jólin, til þess að þær komi að gagni, því að flestir þeirra, sem eiga þessar kröfur, eru ákaflega illa settir fjárhagslega.

Nú um síðustu helgi var það auglýst með miklum krafti í útvarpi og blöðum, að stj. hlutatryggingasjóðs mundi borga út sjóveðskröfur, og var nánar tiltekinn sá staður, þar sem útgerðarmenn áttu að taka þessa peninga. Sjómenn almennt héldu, að þarna væri um sjóveðskröfur þeirra að ræða, og þegar þeir hópuðust á þennan stað svo hundruðum skipti, komust þeir að raun um, að svo var ekki, og var auglýsingin þá byggð á misskilningi eða var a.m.k. svona óheppilega orðuð. Þessi vonbrigði sjómanna hafa vakið geysimikla gremju meðal þeirra, þar sem þeir eru í svo miklum fjárhagsvandræðum, einmitt nú fyrir jólin, af því að þeir hafa ekki fengið kaup sitt greitt, og ég held því, að það væri vel til fallið, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. gerði nú ráðstafanir til þess, áður en það frestar störfum sínum fyrir jólin, að sjómenn fái greiddar sínar sjóveðskröfur, og það verður að taka fullt tillit til þess, hvernig ástatt er hjá þeim og þeir hafa verið leiknir, þessir menn, sem vinna þýðingarmestu störfin í þjóðfélaginu. Það eru að verða svo mikil brögð að því, að sjómenn fái ekki kaup sitt greitt, að margir, sem helzt ekki vilja vinna annað en stunda sjó, hafa neyðzt til að leggja þessa atvinnu niður, af því að þeir hafa staðið uppi allslausir vertíð eftir vertíð og hafa ekkert til að leggja fyrir sig og sína til lífsviðurværis.

Ég vænti þess, að þetta mál mæti skilningi hv. Alþ. og tili. mín verði samþ., þannig að sjómenn fái greiddar sjóveðskröfur sínar nú fyrir jólin.