13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

121. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það eru nú þegar orðnar miklar umr. um þetta mál, eins og von er til, en þar sem nokkuð er liðið á nótt, skal ég ekki fara að þreyta hv. d. á því að tala langt mál um tryggingarnar í heild, þó til þess væri raunar tilefni. Ég get þó ekki látið hjá liða að geta þess, að mér sýnist, að það horfi nokkuð öfugt við um þá þróun, sem nú virðist ætla að eiga sér stað um almannatryggingarnar. Eins og kunnugt er og viðurkennt hefur verið í þessum umr., var því lofað fyrir nokkrum árum, að hér skyldi komið á tryggingum á borð við það fullkomnasta, sem ætti sér stað, og var farið af stað með þetta allmyndarlega, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um. Þó var það svo, þegar l. voru sett 1946, að ýmsu var ábótavant og skrefið var ekki stigið svo fullt sem ástæða hefði verið til og æskilegt hefði verið, enda hefur síðan við umr., sem fram hafa farið um þetta mál, alltaf verið gert ráð fyrir því, að umbætur yrðu gerðar á l. í ýmsum efnum, og í hitt eð fyrra, þegar Alþ. ákvað að almenn endurskoðun skyldi fara fram á tryggingalöggjöfinni, þá var það áreiðanlega gert með það fyrir augum að gera á henni nokkrar umbætur samkv. þeirri reynslu, sem þá þegar var af henni fengin. Tryggingaráð, sem falin var þessi endurskoðun, hafði líka litið þannig á, því að í því frv., sem lagt var fyrir Alþ. í fyrra, og till. tryggingaráðs fólust ýmis atriði um allverulegar endurbætur á tryggingalöggjöfinni frá því, sem verið hafði. En í grg. fyrir frv. fannst tryggingaráði ástæða til að taka fram, að það treysti sér ekki til að ganga lengra en þá var gert með umbætur, vegna þess að ekki væri talið fært að raska þeim fjárhagsgrundvelli, sem tryggingarnar væru byggðar á. Sem sagt, tryggingaráð hafði talið það aðalhlutverk með þessari endurskoðun að koma á verulegum umbótum á tryggingalöggjöfinni, og það frv., sem það samdi, gekk í þá átt, þó að tryggingaráð viðurkenndi, að skemmra væri gengið en ástæða væri til. Síðan vita allir, hvernig fór um afgreiðslu þessa frv. á síðasta þingi, að það dagaði uppi, þó með fyrirheiti ríkisstj. um það, að þetta mál yrði tekið upp á næsta þingi og — að mér virtist — að það mætti gera ráð fyrir því, að haldið yrði áfram á þeirri braut, sem stigið var inn á með þessu frv., það sem það náði. Nú er reynslan orðin sú, að ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. að vísu frv. til breyt. á almannatryggingal., en þar sem gersamlega eru felldar niður þær umbætur, sem fólust í frv. tryggingaráðs í fyrra, jafnframt því sem lagðar eru auknar byrðar á það fólk, sem við tryggingarnar á að búa. Með þessu virðist mér vera snúið við á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið fram að þessu; í staðinn fyrir endurbætur á tryggingunum virðist koma fram tilhneiging hjá ríkisstj. til þess að rýra tryggingarnar frá því, sem verið hefur, a.m.k. ef miðað er við fjárhagsástæður, sem nú ríkja í landinu, og fjárhagsörðugleika, sem margt af því fólki, sem tryggingarnar þarf að nota, á við að búa og munu fara vaxandi. Ég vil harma það, að svo virðist nú horfa sem stjórnarvöldin séu snúin við á þeirri braut, sem Alþ. áður hefur í rauninni markað með ákvæðunum um endurskoðun á tryggingalöggjöfinni með það fyrir augum að bæta hana, og nú er í staðinn komin tilhneiging stjórnarvaldanna til þess að fara að rýra rétt þessa fólks, sem trygginganna á að njóta, jafnframt því, sem þó er ætlazt til, að framlög þess til trygginganna verði aukin.

Ég skal sem sagt ekki þreyta hv. d. á því að ræða frekar um þetta almennt, en víkja nokkrum orðum að þeirri afgreiðslu, sem nú virðist horfa til með þetta mál hér í hv. d. Því fer að vísu betur, að heilbr.- og félmn., sem fjallað hefur um frv. ríkisstj., virðist ekki vera ríkisstj. algerlega sammála um stefnuna í þessum málum og leitast við að bæta ofur lítið úr þeim agnúum, sem á frv. eru, og er það að vísu virðingarvert, þó ég telji, að í þeim till., sem meiri hl. n. stendur að, á þskj. 352, sé allt of skammt gengið. Hins vegar hafa einstakir þm. flutt brtt., sem ganga lengra í þá átt að verða við þörfum þess fólks, sem við tryggingarnar á að búa, og vildi ég mega vænta þess, að þær brtt. mundu einnig verða samþ.; á ég þar við brtt. 358 og 374. En þrátt fyrir það, þó að í þeim till. komi fram viðleitni til þess að bæta nokkuð úr frv. eins og það var lagt fram í hv. d., þá tel ég, að með þessum till. sé þó líka of skammt gengið, og þyrfti í rauninni, eins og ég tel að Alþ. hafi stofnað til með ákvörðun sinni um almenna endurskoðun á tryggingalöggjöfinni í hitt eð fyrra, að gera á henni miklu víðtækari breyt. en þessar till., sem ég nú hef nefnt, fela í sér, þó ég ekki hafi flutt um það brtt. við afgreiðslu málsins, eins og henni nú verður háttað.

Til viðbótar þeirri viðleitni, sem fram kemur í flutningi þessara brtt., hef ég leyft mér að flytja á þskj. 383 tvær brtt., og flyt ég þær ásamt hv. 1. landsk. þm. og tel, að við þar takmörkum okkur aðeins við það fólk, sem varla verður á móti mælt, að mesta þörf hafi fyrir þá aðstoð, sem tryggingarnar veita þeim, og mesta þörf hafa fyrir það, að sú aðstoð verði aukin frá því, sem nú er. Þessar brtt. eru báðar við brtt. á þskj. 358. Fyrri brtt. er við 2. b. á því þskj. og fjallar um það, að hámark þeirrar aðstoðar, sem Tryggingastofnuninni er heimilt að veita gömlu og lasburða fólki, sem — eins og það er orðað — er algerlega eignalaust og sökum fullkomins skorts á vinnugetu og einstæðingsskapar getur ekki komizt af með venjulegan lífeyri, verði miðað við 60% af lífeyrisupphæð í staðinn fyrir 50%, eins og ákveðið er í þessari brtt.

Ég held, að það geti varla orðið á móti mælt, að þessu fólki, sem svo er ástatt um eins og hér er sagt, gamalt fólk og lasburða, sem engar eignir á og ekki hefur neina vinnugetu, sem sagt ekkert annað til framfæris en þann lífeyri, sem tryggingalöggjöfin ákveður, verði algerlega ókleift að lifa mannsæmandi lifi á þeim lífeyri, sem því er ákveðinn samkv. l. En ef ég man rétt, þá er það hámark, sem nú er heimilt að greiða á lífeyri þessa fólks, 40%, en brtt. 358 gerir ráð fyrir, að þetta hámark sé fært í 50%, en ég legg til, að sú heimild hækki í 60%, en ég tel, að þrátt fyrir það verði þessu fólki nógu örðugt um afkomu sína.

Hin brtt. er við 3. brtt. á þskj. 358 og fjallar um nokkra flokka, sem ekki eru tryggðir í tryggingalöggjöfinni eins og nú er, en hafa þó verið viðurkenndir m.a. af þessari hv. d. við meðferð málsins í fyrra, og er fullkomin ástæða til þess að taka þetta upp, þ.e.a.s. mæðralaunin. Eins og kunnugt er, var samþ. um þetta till. í d. á síðasta þingi, þó að þetta síðan hafi verið fellt niður í því frv., sem ríkisstj. lagði nú fyrir Alþ., og meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur, þrátt fyrir samþykkt d. á þessu atriði í fyrra, ekki treyst sér til þess að taka þetta upp nú í sínar till. Flm. brtt. á þskj. 358 hafa hins vegar tekið upp till. um þetta samhljóða þeirri, sem samþ. var hér á síðasta þingi; till. mín og hv. 1. landsk. er hins vegar samhljóða till., sem ég flutti við meðferð málsins á síðasta þingi, þar sem gert er ráð fyrir því, að mæðralaunin verði lítils háttar hærri í sumum flokkum heldur en hin till. ákveður, en hámark þeirra er þó hið sama eins og felst í till. 358 og það sama og samþ. var í d. á síðasta þingi. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Munurinn á henni og till. á þskj. 358 er í fyrsta lagi sá, að gert er ráð fyrir, að greidd verði mæðralaun þegar við 1. barn, þar sem hin till. gerir ekki ráð fyrir, að það verði fyrr en börnin eru 2. Ég þóttist leiða nokkur rök að því við meðferð málsins á síðasta þingi, að strax og einstæð kona hefur fyrir barni að sjá og hún hefur það á sínu heimili, þá torveldaði það henni mjög að stunda atvinnu utan heimilis til þess að afla sér tekna bæði til eigin framfæris og til framfæris barninu, því að barnalífeyririnn samkv. almannatryggingal. hrekkur ekki til þess að framfæra barnið til fulls, og örðugleikar hennar til þess að afla sér þessara tekna byrja strax með 1. barninu, og þess vegna er ástæða til þess að taka mæðralaunin upp á þennan veg. Ég hélt því einnig fram og geri það enn, að vegna þessa sé ástæða til þess, að mæðralaun með 1. barninu séu þegar nokkru hærri en sú hækkun, sem kæmi aftur með næsta barni. — Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, þm., sem voru á síðasta þingi, mun öllum um þetta kunnugt, og till. skýrir sig að öðru leyti sjálf. Það er aðeins mismunur á tölum, sem þarna er um að ræða, og vegna þess að nauðsyn mæðralauna hefur þegar verið viðurkennd af þessari hv. d., og ég geri ráð fyrir, að mönnum hafi ekki snúizt svo mjög hugur um þetta síðan í fyrra, vil ég vænta þess, að það verði enn samþ. af hv. d. að taka þennan bótaflokk inn í almannatryggingal., og ég vil vona, ef það verður gert, að þá verði líka fallizt á þær uppbætur og þá tilhögun á mæðralaununum, sem felst í till. okkar á þskj. 383. — Ég skal svo ekki þreyta hv. d. á frekari umr. um þetta, e:n vildi aðeins gera grein fyrir þessum till. á þann hátt, sem ég nú hef gert.