18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

121. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af brtt. n. Ég viðurkenni með hv. 2. þm. Reykv., að það er óheppilegt að fá svona till. á síðasta stigi máls, en ég var nokkuð riðinn við þessa till., og virtist mér, að samkomulag væri um hana innan heilbr.- og félmn. beggja hv. d., og því var hún borin fram á þessu stigi málsins. Út af ræðu hv. þm. Ísaf. vil ég segja, að það var náttúrlega óþarfi að lesa upp ákvæði l. um eftirlit með sveitarfélögum, og er mér vel kunnugt um, að hægt er að beita þeim við sveitarfélög, sem eru í vanskilum við Tryggingastofnunina. Það er og rétt, að ríkið er í ábyrgð fyrir vangreiddum framlögum sveitarfélaganna. Mér virtist hv. 2: þm. Reykv. jafnvel telja eðlilegt, að svo og svo mikil vanskil ættu sér stað, og ríkissjóður ætti að greiða framlög sveitarfélaganna, ef svo væri, en þá mundu bara öll sveitarfélög hætta að greiða til trygginganna. En það er skylda þeirra, sem eiga að framkvæma lögin, að sjá svo um, að eftir þeim sé farið, og þessi till. er fram borin vegna þess, að sveitarfélögin greiða ekki til trygginganna, eins og þeim ber, og það er ekki vegna þess, að þau hafi ekki lagt á gjöld vegna trygginganna og ekki af því, að þau gjöld hafi ekki verið innheimt, heldur af því, að féð hefur verið tekið í eitthvað allt annað. Þetta veit forstjóri Tryggingastofnunarinnar og skrifstofa félmrn., og þessi tilfelli eru svo alvarleg, að eitthvað verður að gera í málinu. Það er ekki forsvaranlegt að láta hlaðast upp svona skuldir, sem ríkissjóður ber ábyrgð á, og sé ég ekki, að mér sé fært sem ráðh. þessara mála að horfa á þetta án þess að reyna að bæta hér úr. Mér er vel kunnugt, að setja má sveitarfélögin undir opinbert eftirlit, en ekki hefur verið farið ríkt út í það, enda mun ekkert sveitarfélag vera ánægt með slíkt og allt, sem því fylgir. Ég hef rætt þetta mál við forstjóra Tryggingastofnunarinnar, hv. 4. þm. Reykv., og hef sannfærzt um, að hér er reynt að fá öruggari innheimtu án þess að setja sveitarfélögin undir opinbert eftirlit, enda ber að forðast það, svo mjög sem með því er á rétt sveitarfélaganna gengið, en mér heyrðist hv. þm. Ísaf. telja það sjálfsagt. En þessi till. er borin fram til þess að þurfa ekki að stíga það skref fyrr en í síðustu lög. Það verður að herða á innheimtunni án þess að grípa til þess. Það er að vísu slæmt að fá svona till. á síðasta stigi málsins, og ef ég verð var við mikinn andróður gegn till., má vera, að ég leggi til, að hún verði tekin aftur, því ekki er rétt að setja inn slíkt nýmæli á síðasta stigi máls, nema samkomulag sé þar um, og yrði þá að bíða betri tíma, en ég taldi skylt að láta koma fram, hvað fyrir vekti með flutningi þessarar till. Sú leið er náttúrlega opin að setja sveitarfélögin undir opinbert eftirlit, en ég held, að sá vilji sé fyrir hendi í félmrn. að nota ekki þá heimild fyrr en í ýtrustu nauðsyn, en reyna heldur að finna ákvæði, sem hindruðu, að þetta þyrfti að koma fyrir.