18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Það má segja, að till. þessi sé seint fram komin, en það er ekki hægt að ásaka n. fyrir það, því að tíminn var naumur, og gat ég þess við 2. umr., að við mundum flytja svipaðar till. og teknar voru aftur í hv. Ed., og þó er þessi till. nokkuð mildari en till. hv. 4. þm. Reykv. í Ed. Ég get ekki fallizt á að taka till. aftur, því að mér er kunnugt, að þarna verður að skapa aukið aðhald. Það voru mér engin ný sannindi, sem hv. þm. Ísaf. las upp úr l. um eftirlit með sveitarfélögum, en ég hélt, að honum væri það ekkert keppikefli að koma sveitarfélögunum undir opinbert eftirlit. Mér er kunnugt, að bæjarfélögin hafa fengið inn til fulls útsvör álögð vegna trygginganna, en ekki skilað þeim, heldur notað féð í aðrar framkvæmdir, og þetta er það, sem ég held, að megi ekki verða, ef tryggingarnar eiga að halda áfram að starfa. Og ef þau bæjarfélög, sem standa í skilum, frétta það, að sum bæjarfélög geri það ekki, heldur noti féð í allt annað og semji svo um lán á lán ofan, þá mundu þau einnig reyna að fara þá leið. Og hvað mundi það ganga lengi? Það er undarlegt, að hv. þm. vilji auka tryggingarnar, en ekki þá um leið tryggja þeim sínar tekjur, því að ef sú þróun, sem nú er, á að halda áfram þá komast tryggingarnar fyrr eða síðar í þrot. Það er erfitt að fá ríkisframlagið greitt. og sé ég ekki að tryggingarnar þoli annað en það fáist að fullu, og í öðru lagi er brýn nauðsyn, að iðgjöld einstaklinga og sveitarfélaga náist inn. Það er því af fullri þörf og byggt á reynslu undanfarinna ára, að ég er ekki reiðubúinn að taka till. aftur. Það er bráðnauðsynlegt að tryggja innheimtuna á eins mildan hátt og hægt er. Það er auðvitað hægt að setja sveitarfélög undir opinbert eftirlit eða hætta að greiða bætur til meðlima þeirra bæjarfélaga, sem ekki standa í skilum, og það er náttúrlega öruggast, því að þá kemur aðhaldið innan frá, og það er sú leið, sem ég er reiðubúinn að taka upp. En þm. þótti sú leið ómannúðleg, og því bárum við fram skrifl. brtt., sem við töldum, að mundi valda minnstum sársauka, og ég er ekki reiðubúinn að taka hana aftur.