19.12.1950
Neðri deild: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

121. mál, almannatryggingar

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki verið viðstaddur umr. síðan þær hófust að nýju, en mér hefur skilizt, að till., sem um er að ræða og hæstv. forsrh. vakti máls á í gær, yrði e.t.v. tekin aftur. Og hjá hv. frsm. n. heyrðist mér engin hugarfarsbreyting hafa orðið síðan í gær. En ég hef orðið fyrir vonbrigðum, því að ég hélt, að til mála kæmi, að fresta að setja þessar ströngu innheimtuaðferðir.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri eingöngu innheimtuatriði. En það getur haft margvísleg áhrif, hvaða innheimtuaðferðir eru notaðar, og ég lagði áherzlu á það í gær, að sú aðferð, sem farið er fram á, væri svo ströng, að bæjarfélögin gætu ekki sætt sig við hana. Það væri verið að skera á þá einu tekjuöflunaraðferð, sem bæjarfélögin hafa, sem þó hefur verið skert á þann hátt í fyrsta lagi, að gjaldþol þegnanna hefur minnkað, í öðru lagi, að gjöld til ríkisins hafa verið hækkuð, í þriðja lagi, að verið er að færa yfir á bæjarfélögin útgjöld, sem áður tilheyrðu ríkissjóði, í fjórða lagi, að ríkissjóður skuldar bæjarfélögunum fé, sem þau hafa ekki fengið greitt, og í fimmta lagi, að ómögulegt er fyrir bæjarfélögin að fá bráðabirgðalán, hvaða trygging sem í boði er. Allt þetta gerir það að verkum, að bæjarfélögunum er gert óhægt um vik, og það veit á verra, ef tekjuhagurinn verður einnig skertur, eins og hér er farið fram á.

Ráðh. sagði, að það væri missögn í því að vilja hækka framlögin til einstaklinga samtímis því, að við teldum öll tormerki á því, að bæirnir gætu staðið við skuldbindingar sínar. Þetta er misskilningur. Framlögin nægja ekki til að menn geti lifað sómasamlegu lifi, og þarf viðbótar úr bæjarsjóðunum. Hækkun á framlagi Tryggingastofnunarinnar þýðir, að það þarf ekki þetta viðbótarframlag úr bæjarsjóðunum. Svo að hér er ekki um neitt ósamræmi að ræða; — meiri hækkun mundi hjálpa bæjarfélögunum.

Enn fremur sagði ráðh., að með þessu væri frelsið ekki tekið af bæjarfélögunum, eins og ef þau væru sett undir opinbert eftirlit. Þetta er rétt aðeins að formi til og ekki meir. Því að ef tekjuöflunarmöguleikarnir eru skertir, eins og ráð er fyrir gert í till., þá er frelsið tekið af þeim. Og ég legg lítið upp úr þeim mismun, sem hér um ræðir, og þeim að taka frelsið af þeim með opinberum aðgerðum.

Eftir allar þær aðgerðir ríkisstj. og Alþingis, sem miða að því að torvelda möguleika sveitarfélaganna til þess að sinna hlutverki sínu, finnst mér það koma úr hörðustu átt, er svona till. sem þessi er borin fram. Ef þessi till. verður samþ., eru engin takmörk fyrir því, hve mikinn hluta af óinnheimtu útsvari má taka. Það mætti jafnvel taka 100%, helming eða 1/4, — það er alltaf á valdi ráðherra, hve mikið hann telur heppilegt að útfæra hverju sinni.

Ég hefði talið eðlilegt, sanngjarnt og sjálfsagt að þessi till. væri dregin til baka eða felld, en e það er ætlun ríkisstj. að þvinga þessari till. í gegn þá vildi ég til vara bera fram skrifl. brtt. þess efnis, að aftan við fyrri meginmálsgreinina bætist: „enda sé sá hluti ákveðinn í hlutfalli við greiðslur sveitarfélagsins til Tryggingastofnunarinnar af heildarupphæð útsvaranna“. Þannig að ekki yrði lagt hald á meira af útsvörum, sem innheimt eru, en sem svarar greiðslu af álögðum útsvörum. Þetta er lágmarkið. En helzt vildi ég, að till. væri dregin til baka eða felld og málið endurskoðað áður en það er ákveðið. — Ég er sízt með því að setja fótinn fyrir, að Tryggingastofnunin fái sín gjöld, en mér finnst aðferðin, sem nota á, svo harkaleg, að það er ekki hægt annað en að mótmæla henni.