30.11.1950
Neðri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur tekið þetta mál til meðferðar og ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. er andvígur því og gerir grein fyrir sínum ástæðum á þskj. 236. Meiri hl. n. lítur svo á, að það sé fengin reynsla fyrir hví, að það sé ekki heppilegt, að heimild handa ráðh. til þess að friða sérstök veiðisvæði sé bundin því skilyrði, að þeir aðilar. sem áskilið er í l., að leitað sé umsagnar hjá. þ.e. Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans, hafi verið sammála um bær till., sem liggja frammi í málinu. Það er alkunnugt, að í ýmsum verstöðvum, og þá sérstaklega smærri verstöðvum, hefur frá upphafi verið talsverð andúð gegn dragnótaveiðum. Og sú andúð hefur farið vaxandi, eftir því sem reynslan af dragnótaveiðunum hefur orðið augljósari. Það er nú svo, að í ýmsum smærri verstöðvum, þar sem fiskveiðar eru aðallega stundaðar á opnum trillubátum, eru aflamöguleikar að mestu háðir því, að bátarnir geti sótt á sín heimamið, hvort sem þau eru innfjarða eða á grunnu miðunum utan fjarða. En það eru einmitt þessi mið, sem dragnótabátarnir sækjast mest eftir og hafa bezt skilyrði til að veiða á. Það er því staðreynd, að það hafa í ýmsum verstöðvum orðið hagsmunaárekstrar milli dragnótabáta annars vegar og smábátaútgerðarinnar hins vegar. Hefur það í ýmsum tilfellum gengið svo langt, að sjómennirnir á smábátunum hafa átt aðeins um tvo kosti að velja, annan þann að hætta jafnvel um stund róðrum, eftir það, að heimamiðin a.m.k. í svipinn hafa verið eyðilögð af ágangi margra dragnótabáta, eða hinn kostinn, að leita á dýpri og fjarlægari fiskimið, sem alls ekki henta og eru alls ekki fær sjómönnum á smábátum yfirleitt að sækja á. Það er þess vegna eðlilegt, að það sé í ýmsum veiðistöðvum mjög mikil andúð gegn þeirri miklu ágengni, sem dragnótabátarnir hafa haft í frammi undir slíkum kringumstæðum. Og það eru ekki einungis þessar ástæður, sem ég hef nefnt nú, sem þessu valda, heldur eru þær fleiri, m.a. það, að smábátarnir hafa ekki sjaldan orðið fyrir verulegu tjóni af því, að dragnótabátar hafa farið með dragnætur sínar yfir veiðarfæri í sjó og eyðilagt þannig línur og annað slíkt. En það er í raun og veru enn fleira, sem veldur því, að í einstökum veiðistöðvum, þar sem svona hagar til, er andúðin mikil gegn dragnótaveiðum og hefur farið vaxandi. Það er líka skilningur á því, að það er ekki eingöngu það, að mönnum virðist, að dragnótaveiðin geri oft sjómönnum ófært að stunda sinn atvinnuveg á þeim miðum, þar sem einhvers árangurs er að vænta, heldur er mönnum líka farið að skiljast, að dragnótaveiðin eyðileggur venjulega meira eða minna af fiskungviði á þeim svæðum, þar sem þessi veiði er viðhöfð. Og það er skiljanlegt, að menn óttast það, að þar sem svo er fram farið, þá líður ekki á löngu — enda er sums staðar farið að sjá á í því efni — þangað til óttast má, að þessi fiskimið verði algerlega ónothæf fyrir lengri eða skemmri framtíð. Og það er álit margra sjómanna í slíkum veiðistöðvum sem þessum, að það sé ekki eingöngu ungviðið, sem meira og minna er drepið, heldur sé það líka þýðingarmikið, að dragnótabátarnir, með sínum veiðitækjum, eyðileggi meira og minna af botngróðri, þar sem þeir draga um, og ýmsum þeim lífverum, sem ýmsir telja, að sé undirstaða undir því, að ungviðið og jafnvel eldri fiskurinn haldist við á. Það halda jafnvel sumir því fram, að eftir þráláta botnvörpuveiði á einstökum grunnum séu veiðisvæðin skilin eftir sem eyðimörk, þar sem engu lífi fyrir framtíðina sé vært. — Það renna þess vegna ýmsar stoðir undir það, að það sé skiljanlegt og eðlilegt, að andúð sú í slíkum verstöðvum, sem ég hef vikið að, sé verulega sterk, og að það sé ósk og krafa á slíkum stöðum, að það sé einhver stoð til í l. um það, að hægt sé að friða ákveðin nauðsynleg undirstöðuveiðisvæði, þegar nauðsyn krefur.

Þetta frv., sem hér er til umr. á þskj. 101, miðar að því að ráða bót á þeirri staðreynd, sem virðist vera fyrir hendi nú, að lög nr. 83 frá 1945 virðast alls ekki ná tilgangi sínum. Það verður að ætla, að þessi lög, nr. 83 frá 1945, hafi verið sett í því augnamiði, að það væri til heimild handa hlutaðeigandi ráðh. til að friða einstök veiðisvæði, þegar slíkar aðstæður eru fyrir hendi eins og ég hef lýst. Nú hefur það komið í ljós, eins og fram kemur í grg. með þessu frv. á þskj. 101, að það virðist ekki vera nein stoð í lögum fyrir ráðh. til að ákveða slíka friðun sem þessa, nema því aðeins, að þeir tveir aðilar, sem á að leita umsagnar hjá um málið, gefi út samhljóða ummæli um friðunina. — Við flm. þessa frv. og meiri hl. sjútvn. leggjum áherzlu á, að þessu sé breytt á þann veg, eins og í frv. er farið fram á, að það sé undir mati ráðh. á hverjum tíma og í hverju einstöku tilfelli að ákveða um friðunina, eftir það, að fengnar eru umsagnir þessara tveggja opinberu stofnana, sem lög segja fyrir um, að eigi að leita álits hjá. Og ef ekki er slíkt vald í höndum ráðh., þá er það ekkert annað en bókstafur, að hann hafi vald til að fyrirskipa friðun, því að hendur hans eru bundnar, ef álit þessara stofnana fara ekki saman. Ég sé ekki ástæðu til að ætla annað en ráðh. muni meta og vega öll rök með og móti friðunarumsóknum, sem fram kunna að koma, og engin ástæða er til að ætla, að hann gangi þar lengra en nauðsyn krefur.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að víkja að nokkrum atriðum í nál. hv. minni hl. á þskj. 236. Þar er vikið að því meðal annars, að friðunin fyrir dragnót sé nú orðin allvíðtæk hér við land, og mun það vera rétt, að fyrir Norðurlandi sé algert bann við dragnótaveiðum innan viss svæðis, en þótt svo sé og skoðanir geti verið skiptar um, hvort það sé réttmætt, tel ég, að ekki sé hægt að segja, að fyrst því sé svo farið fyrir Norðurlandi, þá eigi veiðisvæðin alls staðar annars staðar að vera opin. Því ætlumst við til, að eftir sem áður sé hægt fyrir ráðh. að setja reglugerð um friðun fyrir dragnótaveiði, þar sem hann álítur það réttmætt. Hv. minni hl. víkur að því, að til séu einstakir ofurkappsmenn, sem vilji banna allar dragnótaveiðar. Ég þekki ekki slíka ofurkappsmenn, og hygg ég, að þeir séu ekki margir, — en ef þetta er meint svo, að hv. minni hl. telji það ósæmilegt ofurkapp, að við flm. og meiri hl. sjútm. viljum heimila ráðh. að friða sérstök svæði undir vissum kringumstæðum, þá er ekki réttmætt að viðhafa slíkt orðalag. Hv. minni hl. víkur enn að því, að þessir og hinir einstakir þm. reki slíkan áróður við ráðh. í þessu máli, að óttast megi, að ráðh. gefi jafnvel út vafasamar reglugerðir um friðun. Hvað á hv. minni hl. við með þessu? Í grg. fyrir þessu frv. eru nefnd tvö veiðisvæði, sem atvmrh. í skjóli l. nr. 83 frá 1945 hefur samþ. friðunarreglur fyrir. Þetta eru einu veiðisvæðin, sem nefnd hafa verið í sambandi við málið. Meinar hv. minni hl., að hér hafi verið viðhöfð þau vinnubrögð; að vegna áróðurs og ofurkapps einstakra þm. hafi ráðh. staðfest vafasamar friðunarreglugerðir? Ég spyr. Ég ætla ekki að fara að svara fyrir hæstv. atvmrh. Hann mun sjálfur fær til þess. Hv. minni hl. heldur áfram rökfærslum sínum á þá lund, að það sé illa farið. ef að því sé stefnt, og þá líklega með þessu frv. að hans áliti, að allri dragnótaveiði sé bægt frá. Þessi ótti er alveg ástæðulaus vegna þessa frv. Til þess að það gerist, þarf aðra lagasetningu, en ég tel enn þá verr farið, ef l. nr. 83 frá 1945 verða ekki endurbætt svo, að hægt sé að friða heimamið sjómanna á opnum vélbátum, sem eiga allt sitt undir því, að fiskimið þeirra séu ekki eyðilögð, og það stappar nærri því, ef hv. minni hl. telur óforsvaranlegt að veita ráðh. þá heimild, sem frv. fer fram á, — þá stappar það nærri því, að hann telji jafnóviðeigandi, að einstakir menn hafi heimild til að girða túnið sitt og friða fyrir skepnum, því að nærri lætur, að það ráði úrslitum um afkomu sjómanna á opnum vélbátum, að mið þeirra séu friðuð, eins og það ræður kannske mestu um afkomu bóndans, að hann hafi heimild til að girða og friða túnið sitt. Ég tel því réttmætt að samþ. þessa litlu breyt. sem fram á er farið með frv. á þskj. 101, og tel enga ástæðu fyrir þá, sem sérstaklega bera dragnótaveiðarnar fyrir brjósti, að óttast, að gengið verði nær möguleikum dragnótaveiðanna en nauðsyn krefur.