08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. taldi það ekki rétt hjá mér, að leiguliðar vildu kaupa jarðir af því, að þeir ættu erfitt með að fá lán til að byggja upp á þeim. Þetta kom nú aðallega fram hjá hv. 2. þm. Skagf. og er einmitt notað sem rök fyrir frv. Hv. þm. benti hins vegar á, að leiguliðar með erfðafesturéttindi væru ekkert verr settir en sjálfseignarbændur, og held ég því, að nær væri að athuga, hvort þessir menn gætu ekki fengið erfðaábúð, en jarðirnar verði áfram ríkiseign. Bændurnir og niðjar þeirra geta alveg eins notið jarðanna með því móti, en öruggt er, að þær lendi ekki í braski, og þjóðin sjálf verður áfram æðsti yfirráðandi þeirra. Þá þyrftu bændurnir ekki heldur að eyða peningum í að borga jarðirnar, en gætu notað þá til að bæta þær og gera þær byggilegri fyrir sig og sína.