12.01.1951
Efri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

82. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði, að Birgisvík er ekki með mestu rekajörðunum þar, en þó er þar nokkur reki, og ef það gengur viðstöðulaust gegnum þingið, að hún verði seld úr eigu ríkisins upp á veika von um, að hún muni e. t. v. byggjast, þá hygg ég, að það skapi fordæmi fyrir að selja þessar jarðir. (Landbrh.: Rekinn fer allur út aftur, ef ekki er litið eftir honum.) En ég skal ekki hafa fleiri orð um það. Hæstv. landbrh. heldur því fram, að það muni kosta of fjár að byggja upp á ríkisjörðunum. Það er vafalaust rétt og mundi varla verða minna en 250 þús. kr. á jörð að meðaltali, en það yrði vitanlega gert með sams konar lánafyrirkomulagi eins og nú gerist með veði í þeim byggingum, sem þarna sköpuðust. Þá er það, hvort eigi að gefa bændum — hæstv. ráðh. sagði, að hv. 4. þm. Reykv. hefði haldið því fram, að bændum væri gefið stórfé með því að selja þeim jarðir ódýrt, — með því að selja þeim jarðirnar ódýrt, þ.e.a.s. hvort betra sé að ríkið gefi einni kynslóð og þeirri, sem nú lifir, nokkur verðmæti eða það gefi ókomnum kynslóðum mikil verðmæti í byggingum og leysi af þeim þá byrði að þurfa að eyða fé sínu i að kaupa jarðirnar. Það síðara teljum við hv. 4. þm. Reykv. mun betri gjafir og að frá þeirri stefnu beri ekki að hverfa. Ef byggingarframkvæmdir hins opinbera hafa farið í handaskolum, þá má vafalaust bæta úr því, m.a. með því að gera bændurna sjálfa að þátttakendum i framkvæmdunum. Ef fullkomnar teikningar liggja fyrir og ríkið sér um, að ekki sé lagt út í allt of stórar og dýrar byggingar og að unnið sé af hyggindum, þá skil ég ekki annað en hægt sé að byggja á ríkisjörðunum jafnódýrt og á jörðum einstaklinga með því að tvinna saman hagsmuni ríkisins og bændanna við byggingarframkvæmdirnar. En þess hefur ekki verið kostur undanfarið, því að ríkið hefur sagt nei og ekki fengizt til að byggja, svo að byggingarnar á jörðum þess hafa grotnað niður með þeim afleiðingum, að margar jarðir hafa lagzt í eyði. Ég held því, að ríkið þurfi að rækja betur skyldu sína í þessu efni, heldur en það skjóti sér undan skyldu með því að selja einstaklingum jarðirnar.